Ég er starfsmaður í félagsmiðstöð, og hef starfað á þeim vettvangi í tæp tvö ár. Þegar starfið mitt kemur til tals með vinum og vandamönnum er ég oftar en ekki spurð um hvað vinnan mín snúist. Það hefur oft reynst mér mjög erfitt að gera fólki grein fyrir starfinu mínu þegar ótrúlega margir halda í rauninni að vinnan mín snúist einungis um það að spila borðtennis og playstation allan liðlangan daginn með unga fólkinu sem sækir starfið í félagsmiðstöðinni. Það virðist því sem flestir hafi litla eða enga hugmynd um það sem felst í starfinu. Mig langaði þess vegna að segja þér kæri lesandi aðeins hvað felst almennt í því að vinna í félagsmiðstöð með unglingum, og kannski reyna að veita þér innsýn inn í þetta frábæra starf.
Að vera unglingur getur verið ótrúlega ruglingslegt og erfitt oft á tíðum. Ómótaðir einstaklingar sem eru að fóta sig í lífi fullorðinna. Öll höfum við verið unglingar einhvern tímann, lífið er ekki alltaf dans á rósum og maður er enn að læra svo ótal margt.
Það er vissulega satt, partur af vinnunni minni er að spila borðtennis og/eða playstation með unglingunum, en það er alveg ægilega lítill hluti þess starfs sem raunverulega á sér stað.
Í félagsmiðstöðinni tengist ég unglingunum, ég hlusta á þau og ég er líka fyrirmynd, ég er félagi þeirra þegar þau þarfnast mín en framar öllu er ég fagmaður á vettvangi. Vettvangi sem er gríðarlega nauðsynlegur fyrir marga unglinga í dag.
Félagsmiðstöð er aðstaða fyrir unglinga til afþreyingar í öruggu umhverfi með jafnöldrum sínum og fagaðilum. Þau læra svo mikið sem þau hreinlega átta sig oft ekki á. Við köllum það óformlegt nám. Starfið sem á sér stað eykur félagsþroskann hjá unglingunum og þátttöku- og lýðræðisvitund svo fátt eitt sé nefnt. Starfið hefur auðvitað líka forvarnargildi og afþreyingargildi en það er einmitt það sem flestir utanaðkomandi sjá. Margt og mikið á sér stað innan veggja félagsmiðstöðvanna sem er hulið og nýtur ekki mikillar athygli.
Margar rannsóknir hafa leitt í ljós mikilvægi þess að unglingar verði að geta leitað til og treyst a.m.k. einum fullorðnum einstaklingi í lífi sínu. Það virðist koma mörgum á óvart hversu oft það kann að vera starfsfólk félagsmiðstöðvanna. Það er ekki sjálfsagt að unglingar eigi gott og traust samband við foreldra eða forráðamenn, og hafa þeir unglingar þá þann kost að leita til okkar í félagsmiðstöðinni.
Sjálf hef ég oft verið í vinnunni eftir minn hefðbundna vinnutíma einfaldlega því unglingur hjá mér er að opna sig og tjá sig svo mikið. Þá hlusta ég og gef ráð ef það á við. Það er svo dýrmætt þegar við starfsfólkið á vettvangi náum þessum tenglsum við unglingana, finnum að þau treysta okkur og trúa og leita til okkar þegar eitthvað bjátar á. Við verðum að geta mætt unglingunum á jafningjagrundvelli, sem auðveldar þeim að opna sig fyrir okkur, frekar en t.d. kennurum eða skyldmennum. Það má svo auðvitað ekki gleyma allri afþreyingunni, gleðinni og skemmtuninni sem á sér stað í félagsmiðstöðinni. Þar er svo margt í boði sem ekki er hægt að gera heima fyrir og ég tala nú ekki um stórglæsilega félagsskapinn.
Ég tel mig vera alveg einstaklega heppna að fá að vinna í svo gefandi og góðu starfi og ég er viss um að flestir, ef ekki allir, aðrir félagsmiðstöðvarstarfsmenn landsins myndu taka undir það með mér. Ég vona svo innilega að þetta fjölbreytta og mikilvæga starf fái að halda áfram að vaxa og dafna hér á landi á komandi árum og að fleiri öðlist betri skilning á starfinu.
—
Rebekka Þurý Pétursdóttir, nemandi við Tómstunda- og félagsmálafræði í Háskóla Íslands.