Að undanförnu hef ég mikið velt því fyrir mér hvort unglingar í dag upplifi að þeir hafi eitthvað að segja um eigin hagsmuni í samfélaginu. Þetta er ekki síst áhugaverð pæling þar sem mikil umræða er um lækkun kosningaaldurs frá 18 í 16 ára og því töluvert mikilvægt að þau átti sig á því að þau geti bæði valið fulltrúa og haft beina aðkomu að ákvarðanatökum um samfélagsleg málefni.
Einn daginn þar sem ég velti þessu fyrir mér tók ég málið upp í samtali við yngri systur mína sem er fjórtán ára. Ég spurði hana hvernig hún upplifði framkomu fullorðinna gagnvart henni og öðrum unglingum í kring um hana þegar þau tjá skoðanir sínar. Hennar upplifun var sú að fullorðnir treystu unga fólkinu ekki fyrir því að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Einnig sagði hún að samfélagið gerði ráð fyrir því að allir unglingar væru á gelgjunni og vissu ekki hvað þeir væru að tala um. Hún taldi afleiðingarnar af þessu vera þær að unglingarnir trúa þeim fullorðnu og finnst því ekki taka því að tala um sín hagsmunamál vegna þess að það er engin sem tekur mark á þeim.
Fyrir rúmum áratug þegar ég sjálf var unglingur var farið að stofna ungmennaráð í sveitarfélögum og áhersla lögð á að unglingarnir hefðu eitthvað að segja um bæjarmálin. Hugmyndin var að halda opna fundi með bæjarstjórn þar sem mál unglinga væru lögð þar fram, áður en þau færu til afgreiðslu í bæjarkerfinu. Ungmennaráðið er enn starfandi í dag og því fór ég og hitti nokkur ungmenni sem sitja í ráðinu.
Ég spurðist fyrir um verkefni ungmennaráðsins og hver þeirra upplifun af starfinu væri. Mér fannst ég finna fyrir uppgjöf í hópnum þar sem þau upplifðu að þeirra starf væri tilgangslaust. Í upphafi hafi verið töluverður áhugi á þessu nýja lýðræðisverkfæri sem ætlað var að veita milliliðalaust aðgengi ungmenna að málefnum sveitarfélagsins og ekki síður að gefa bæjaryfirvöldum tækifæri til að vísa málum tengt ungmennum undir ráðið. Á fyrstu árunum hafði ráðið náð að fá bæjaryfirvöld í lið með sér til að bæta aðstöðu ungmenna innan bæjarins en núna virðist sem rödd þeirra og skoðanir skipti minna máli og sjá þau ekki sitt álit á hagsmunamálum unglinga á borði bæjarstjórnar. Svörin sem þau fá við tillögum eru einfaldlega ,,já við skulum skoða málin“ og svo fá þau ekki upplýsingar um hvort eða hvernig málin voru afgreidd.
Ég tel að það þurfi að kveikja neista hjá unglingum til að láta sínar raddir heyrast og gefa þeim ástæðu til að trúa á stjórnkerfið. Þau vita margt sem fullorðna fólkið veit ekki og því verðum við að hlusta og treysta þeim þegar þau koma með ábendingar um hvað má betur fara í þeirra málum.
Mér finnst frábært að það sé verið að íhuga að lækka kosningaraldurinn en munu þau þora að kjósa út frá eigin hagsmunum ef þau hafa enga trú á því að þau hafi eitthvað raunverulega um málin að segja?
—
Ásdís Magnea Erlendsdóttir,
nemi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands og starfsmaður í félagsmiðstöð og ungmennahúsi.