Á okkar tímum fer netnotkun barna og ungmenna ört vaxandi, tæknin er alltaf að verða betri, meiri og fullkomnari og á sama tíma er aðgengið einnig mun auðveldara. Langflest börn og ungmenni á Íslandi í dag hafa aðgang að þessum stafræna heimi, og þess vegna er það algjört grundvallaratriði að fræðsla og reglur í kringum notkun þessara miðla séu til staðar. Það er vissulega hlutverk okkar foreldranna að sjá til þess að börnin okkar séu vel upplýst og þá sérstaklega um hætturnar sem geta fylgt þessum annars ágæta heimi. Í því hraða nútímasamfélagi sem við búum í eru kröfurnar miklar, við þurfum að vinna mikið því það er dýrt að lifa, eiga í sig og á, tómstundastarf kostar sitt og svo mætti lengi telja. Um leið virðist samskiptamynstur fjölskyldna einnig vera að breytast og við sem foreldrar gerum okkur kannski ekki alveg grein fyrir þessum hröðu breytingum. Sumum þykir þessi fína barnapía sem snjalltækin eru reynast nokkuð vel og þá sérstaklega á hinum alræmda úlfatíma á milli klukkan 17 og 20 á kvöldin. Það þarf jú að sinna heimilisstörfunum og elda matinn og ágætt að sleppa við væl og suð rétt á meðan verið er að sinna því. En á sama tíma er þetta oftast sá tími dagsins sem fjölskyldur hafa til að vera saman, fara yfir liðinn dag, borða saman kvöldmat og verja tíma saman fyrir háttinn.
Eftir því sem börnin verða eldri virðast þau verða háðari snjalltækjunum sínum, þau eyða miklum tíma í að spjalla við vini sína og það er endalaust eitthvað í gangi, stanslaust áreiti. Sem foreldri unglings tel ég það virkilega mikilvægt að reyna að sporna við þessari þróun. Við setjum reglur í kringum netnotkun en erum í leiðinni verstu foreldrar í heimi því „allir hinir“ mega vera í sínum tækjum langt fram eftir kvöldi. Ég sat mjög áhugaverðan fyrirlestur um daginn í Háskóla Reykjavíkur sem bar heitið Fíkn eða frelsi, þar sem fjallað var um þessi mál og þar var einmitt verið að ræða rafrænan útivistartíma barna og ungmenna. Rannsóknir benda til þess að kvíði og vanlíðan á meðal ungmenna sé að aukast og að unglingar séu ekki að fá nægilegan svefn og má það til dæmis rekja til aukinnar notkunar samfélagsmiðla. Þá eru unglingsstelpur sérstaklega nefndar í þessu samhengi en þær virðast vera duglegri að fylgjast með samfélagsmiðlunum á meðan strákarnir eru meira að spila tölvuleiki. Þetta er mjög viðkvæmt og á sama tíma mótandi tímabil fyrir bæði kyn en stelpur á þessum aldri bera sig sérstaklega mikið saman við allt og alla. Það er því mikilvægt að þeir sem gefa sig út fyrir að vera fyrirmyndir unga fólksins og áhrifavaldar af einhverju tagi séu meðvitaðir um þau skilaboð sem þeir eru að senda út á miðlana.
Það þyrfti í raun að hrinda í verk forvarnarátaki þar sem hreinlega er settur „útivistartími“ á netnotkun barna og ungmenna. Tæknin er komin til að vera og er mjög margt gott sem hún hefur í för með sér enda viljum við ekki reyna að sporna við henni. Sömuleiðis skila boð og bönn frekar litlu í stóra samhenginu en það er mikilvægt að setja reglur í kringum notkun þessara miðla. Á meðan það eru reglur sem almennt er að foreldrar og ungmenni framfylgi þá mun það stuðla að betri nætursvefni sem hefur jákvæð áhrif á heilsuna. Auk þess bætir aukin svefn einbeitinguna og skilar börnunum okkar betur undirbúnum í skólann og út í samfélagið almennt.
—
Jóna, nemi í uppeldis- og menntunarfræðum.