Stuðningsforeldri

Að gerast stuðningsfjölskylda/foreldri þýðir að þú tekur að þér barn til móttöku eða dvalar á þínu heimili með því markmið að styðja foreldra barnsins í forsjárhlutverki, veita þeim hvíld og/eða styrkja stuðningsnet barnsins eftir því sem á við. Stuðningsfjölskyldur eru veittar á grundvelli laga um málefni fatlaðs fólks eða barnaverndalaga eftir því sem á við. Það er ákveðið ferli sem þarf að framfylgja til þess að gerast stuðningsforeldri og er hægt að fá allar þær upplýsingar inn á heimasíðu Reykjavíkurborgar ef áhugi er fyrir hendi.

Ég hef verið stuðningsforeldri í rúmlega 7 ár og hefði haldið því áfram ef ég hefði ekki flutt erlendis. Ástæðan fyrir því afhverju ég ákvað að gerast stuðningsforeldri er að ég á bróðir sem greindur var með ódæmigerða einhverfu þegar hann var aðeins þriggja ára gamall og er hann tólf árum yngri en ég. Þetta ferli byrjaði með því að hann kom og var hjá mér yfir allan daginn til að byrja með sem þróaðist svo í að hann fékk að gista heima hjá mér yfir eina helgi á mánuði. Dögunum fjölgaði svo í tvær helgar á mánuði eftir nokkur ár. Þetta gerði ég til þess að missa ekki tengslin við hann og vildi ég styrkja okkar samband og einnig til þess að veita foreldrum mínum smá hvíld og hjálp. Því það getur tekið á að sinna þörfum hans. Þetta krafðist því mikils aga og ábyrgðar að sjá alfarið um fatlaðan einstakling yfir heila helgi sem varð einnig svo gefandi og þroskandi í leiðinni. Þurfti ég því að vera góð fyrirmynd fyrir hann og á sama tíma að sinna uppeldis- og umhyggjuhlutverki.

Markmiðið hjá mér var að koma honum út úr húsi og fá hann til þess að taka sér smá hvíld frá tölvunni sem hann var svo mikið límdur við og fá hann til að fara aðeins úr sinni hefðbundnu rútínu. En ég leyfði honum alltaf að velja tómstundina sem við gerðum með hliðsjón af uppástungu sem ég veitti honum til þess að velja úr ef honum dytti ekkert í hug. Til dæmis að fara í bíó, spila körfubolta, fótbolta, fara á skauta, húsdýragarðinn, sund, keilu eða á einhverskonar viðburði sem áttu sér stað á þeim tíma sem hann var hjá mér eins og Menningarnótt eða 17. júní.  Ef hann vildi engan veginn fara út þá spiluðum við borðspil eða horfðum á bíómynd heima og spjölluðum.

Í dag er hann á átjánda aldursári og erum við mjög góðir vinir í dag. Hann hringir í mig reglulega til þess að segja mér fréttir af því sem hann er að fara að gera eða sendir mér skilaboð um allt milli himins og jarðar. Þetta er eitt af því sem ég mun aldrei sjá eftir að hafa gert og er þetta einnig skemmtileg reynsla sem ég hefði ekki viljað vera án. Þessi reynsla hefur mótað mig sem þann einstakling sem ég er í dag. Mæli ég eindregið með því að gerast stuðningsforeldri fyrir þá sem geta eða hafa tök á, því þetta er bæði gefandi, þroskandi og krefjandi en umbunarríkt sem mun fylgja ykkur alla ævi.

Jón Axel Andrésson