Hvað er tómstund? Hvað merkir orðið tómstund? Samkvæmt Snöru er orðið „tómstund“ skilgreint sem „frístund, stund eða tími þegar ekki þarf að gegna skyldustörfum“. Vanda Sigurgeirsdóttir skrifaði líklegast fyrstu greinina um hugtakið tómstundir á íslensku árið 2010. Þar segir hún frá fimm skilgreiningum á hugtakinu tómstundir. Sú fyrsta er tómstundir sem tími þar sem litið er á tómstundir sem iðkun sem gerð er utan vinnutíma og er eitthvað sem veitir einstaklingnum ánægju. Síðan er það tómstundir sem athöfn eða starfsemi, þar er litið á tómstundir sem röð athafna eða starfsemi sem einstaklingur velur að gera í frítíma sínum. Því næst er það tómstundir sem gæði. Þar er litið á tómstundir sem gæðastund sem veitir einstaklingnum vellíðan og er andstæða vinnu. Fjórða nálgunin er svo tómstundir sem viðhorf þar sem einstaklingurinn ákveður sjálfur sína eigin skilgreiningu á tómstundum. Loks eru það svo tómstundir sem hlutverk. Sú nálgun einblínir á hvernig tómstundir eru notaðar, með áherslu á innihald og félagslegar afleiðingar.
Fræðimenn eru ekki sammála hvort að andfélagslegar tómstundir, líkt og að reykja marijúana til dæmis, sé í raun tómstundir – en það fer algjörlega eftir því hvað af ofangreindum skilgreiningum þeir vilja nota. Rannsóknir sem byggja á viðhorfum fólks til orðsins „tómstund“ sýna að fólk lítur á tómstundir sem andstæðu vinnu, að um val og frelsi sé til staðar, gera hluti af sjálfsdáðum og án þvingana og að þeim fylgi vellíðan og ánægja. Niðurstaða Vöndu var svo að tómstundir séu athöfn, hegðun eða starfsemi sem eigi sér stað í frítímanum. Skilyrðin eru að einstaklingurinn líti sjálfur á að um tómstund sé að ræða, athöfnin sé frjálst val og veiti vellíðan og hafi í för með sér jákvæð áhrif. Tómstundir séu jákvæðar og uppbyggjandi hegðun en ekki glæpir og niðurbrjótandi hegðun.
Ég reyni svolítið að horfa á orðið sjálft þegar ég hugsa um skilgreininguna. Tóm-stund. Þú sinnir tómstund þegar þú hefur tóma stund. Þegar þú ert ekki að fást við skyldustörf og grunnþarfir eins og að borða og þrífa þig, þá hefurðu tóma stund. Svo fer það alfarið eftir einstaklingnum hvernig hann nýtir þessa tómu stund sína, yfirleitt er það þá eitthvað sem einstaklingnum finnst skemmtilegt að gera. Fyrir mér er tómstund eitthvað sem maður gerir. Að liggja uppi í sófa að horfa á sjónvarpið er ekki það sama og að liggja uppi í sófa að horfa á sjónvarpið. Ertu að horfa á sjónvarpið vegna þess að þú hefur virkilegan áhuga á að fylgjast með myndefninu sjálfu, hvernig stíll leikstjórans er, tæknin, hljóðgerð, sögunni sjálfri eða er þetta spennandi heimildarmynd um svarthol sem þú ert með brjálaðan áhuga á? Það finnst mér vera tómstund. Eða ertu bara að drepa tíma? Þar liggur munurinn fyrir mér. Þegar börn eru neydd til þess að stunda íþrótt eða aðra iðkun finnst mér þau ekki vera í tómstund heldur. Fyrir mér er tómstund eitthvað sem einstaklingurinn velur sjálfur að gera á eigin forsendum og hefur ánægju af.
Hver er þín skilgreining á tómstund?
—
Kristín Helga Hallgrímsdóttir, nemandi í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands