Tómstundaiðkun og þá sérstaklega íþróttir er eitthvað sem margir unglingar stunda og gera það af miklum krafti, en hver er það sem er að hvetja iðkandann áfram frá hliðarlínunni eða heimilinu? Eru það ekki foreldrarnir? Og hver er það sem sér um að stjórna æfingum, liðsvali og kalla skipanir inn á völlinn þegar liðið er að keppa? Er það ekki þjálfarinn? Ég hef oft séð það að foreldrar þekki ekki alveg sín mörk þegar kemur að þessum þætti. Þau eru vinir þjálfarans og reyna þannig að hafa áhrif á liðsval, þau öskra inn á völlinn ef þau vilja að hlutirnir séu gerðir öðruvísi í stað þess að vera bara á hliðarlínunni og hvetja liðið áfram. Það er þjálfarinn sem er búinn að mennta sig til þess að þjálfa og kominn með hin og þessi þjálfararéttindi, hann veit hvað hann er að gera og það á að leyfa honum að vinna sína vinnu í friði.
Ég þekki þetta út frá minni reynslu þegar ég var unglingur að æfa fótbolta. Þá kom oft upp sú staða að þegar við vorum að keppa á móti eða bara einstaka leik í Íslandsmótinu þá voru foreldranir á hliðarlínunni sem voru að öskra á börnin sín og skipta sér af því sem þjálfarinn var að gera, ekki bara foreldrar stelpna sem voru að æfa með mér heldur í öðrum liðum líka. Persónulega voru mínir foreldrar alltaf mættir til þess að styðja við liðið og hvetja okkur áfram, ekki reyna að stjórna því sem var að gerast inni á vellinum. Mér fannst alltaf mjög skrítið að foreldrar voru að skipta sér af einhverju sem þau vissu voða lítið um, þjálfarinn er sá sem er með okkur á æfingum, veit hver geta okkar er og hvað við eigum að vera að gera inni á vellinum.
Ég veit til þess að foreldrar voru að stjórna því hverjir væru í „A-liði” og hverjir voru í „B-liði”, þau vildu bara að vinkonur væru saman í liði, pældu ekki endilega í getunni eða hvort aðrir ættu kannski meira skilið að vera í „A-liði”, vildu bara hafa liðin eins og þeim hentaði. Þetta var ein ástæða þess að ég missti áhugann á að æfa fótbolta, því ég átti aldrei möguleika á að komast í „A-lið” því mínir foreldrar voru ekki að tuða í þjálfaranum um það að ég ætti að vera þar.
Sniðugt væri að hafa einn til tvo daga í mánuði þar sem foreldrar koma á æfingu og fylgjast með og fá að sjá það sem þjálfarinn sér á hverri æfingu, eftir hverja æfingu gæti þjálfarinn svo setið fund með foreldrum og foreldrar komið með sínar athugasemdir og hægt væri að ræða þær á vinalegum nótum.
Ég skil fullvel að allir foreldrar vilji að barnið sitt sé að spila með þeim bestu en það á líka að leyfa þjálfaranum að meta út frá því sem hann sér á æfingum hverjir eiga skilið að fá tækifærið og hvernig er best að fá liðið til að spila sem heild, en ekki bara sem einstaklingar inn á vellinum. Þjálfarinn tekur eftir því á æfingum hvaða einstaklingar ná best saman þegar það er skipt niður í lið.
Foreldrar, leyfið þjálfarnum að gera það sem hann er menntaður í að gera, sýnið börnunum ykkar stuðning með því að mæta á leikina og hvetja. Það gefur börnum og unglingum smá auka kraft og vilja til að gera betur þegar þau hafa 100% stuðning frá foreldrum. Ekki vera að sýna það fordæmi að það sé hægt að komast áfram í íþróttinni með því að þekkja ákveðna einstaklinga og tala sig áfram, börn og unglingar komast ekki langt á því, til þess að ná langt þarf að mæta á æfingar og sýna metnað og vilja til þess að bæta sig.
—
Eva Rut Helgadóttir, nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ