Samfestingurinn – Barn síns tíma?

gudrun mariaÍ dag þekkjum við félagsmiðstöðvar sem stað án áfengis og vímuefna þar sem unglingar geta komið saman í frítíma sínum. Flestar félagsmiðstöðvar eru með opið nokkrum sinnum í viku og bjóða ýmist upp á klúbbastarf, opin hús eða stærri viðburði eins og böll, árshátíðir, leiksýningar og fleira.
Félagsmiðstöðvum var komið á laggirnar í kringum 1955 því fólki varð ljóst að unglingum vantaði eitthvað að gera í frítíma sínum. Æskulýðsráð Reykjavíkur var stofnað árið 1956 og í kjölfar þess Tómstundarheimilið. Næstu árin á eftir spruttu upp félagsmiðstöðvar víðsvegar um landið.

Samfés
Samfés eru frjáls félagasamtök á Íslandi sem stofnuð voru árið 1985. Ellefu félagsmiðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni Reykjavíkur eru stofnaðilar Samfés. Á stofnfundi samtakanna voru sett niður lög og markmið. Markmið Samfés eru þau að hafa áhrif á löggjöf, umræðu og hugmyndir um æskulýðsmál á Íslandi, koma upplýsingum um starf félagsmiðstöðva á framfæri og að minna á mikilvægi þeirra fyrir börn og unglinga í nútíma samfélagi. Það er jafnframt markmið samtakanna að auka samvinnu félagsmiðstöðva til verkefna innanlands sem og erlendis og stuðla að eflingu fagmenntunar starfsfólks á sviði frístunda með námskeiðum og ráðstefnum.

Viðburðir fyrir unglinga
Félagasamtökin Samfés halda á hverju ári ýmsa viðburði sem sóttir eru af unglingum um land allt. Þar má nefna stóra viðburði eins og Rímnaflæði, Stíl, Söngkeppni, Landsmót og ekki má gleyma hinu stóra balli Samfestingnum sem haldinn er ár hvert í Laugardalshöllinni daginn fyrir Söngkeppnina.
Ég spjallaði við einn af stofnendum Samfés sem sagði mér frá uppruna Samfestingins. Hann segir að hugmyndin að ballinu spratt upp á sínum tíma vegna þess að það vantaði vettvang fyrir unglinga til þess að skemmta sér og geta séð stór og vinsæl nöfn í tónlistarbransanum. Þegar Samfés var stofnað og árin eftir það var nær ómögulegt fyrir unglinga að komast á tónleika eða böll án þess að allt væri flæðandi í áfengi og fíkniefnum. En í dag telur Gunnar Samfestinginn vera „barn síns tíma, því í dag geta unglingar bara keypt sér miða á Justin Bieber“. En aðrir hlutir spila líka inn í. Flestar félagsmiðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu halda sjálfar stóra og flotta viðburði með stórum tónlistaratriðum og þurfa þess vegna ekki á balli eins og Samfestingnum að halda. Hins vegar gæti verið annað mál þegar skoðaðar eru félagsmiðstöðvar á landsbyggðinni. Samfestingurinn er mögulega ennþá eini vettvangurinn fyrir þá unglinga til þess að skemmta sér með jafnöldrum og sjá atriði frá stærri nöfnum í tónlistarbransanum.

Ný markmið
Ef svo kæmi til að Samfestingurinn yrði lagður niður væri mögulega eitthvað fjármagn til þess að einblína á ný verkefni. Stíll, Rímnaflæði og Söngkeppnin eru allt viðburðir sem reyna á hæfileika og ímyndunarafl unglinganna, mögulega væri hægt að halda áfram að styrkja unglinga á þann hátt.

Ég tel það vera hlutverk komandi tómstunda- og félagsmálfræðinga og annarra starfsmanna og stjórnenda innan Samfés og félagsmiðstöðva landsins að finna hvað það er sem unglinga vantar í dag. Hvar þarf til að styrkja þau og hvað hefðu þau gaman af því að gera.

Guðrún María Ingólfsdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ.