Ég er svo heppin að fá að vera dóttir þín og að hafa valið þig sem mömmu. Frá unga aldri og fram á fullorðinsár kem ég til með að fylgjast grannt með öllu því sem þú gerir og segir. Ég lít nefnilega upp til þín, þú verður mín helsta fyrirmynd. Pabbi verður sjálfsagt frábær líka, en af því að ég er dóttir þín og þú ert mamma mín, munt þú hafa dýpri áhrif á hugmyndir mínar um kynin og kynhegðun. Ég veit það, mamma, því rannsóknirnar segja það nefnilega! Ég á mér draum, mamma. Draum um að úr mér verði eitthvað stórfenglegt. Ég veit að ég er stelpa, og stundum halda stelpur aftur af sér við að láta drauma sína rætast. Ég heyrði það, er það satt, mamma? Mig langar nefnilega að geta gert allt. Mig langar að verða sterk, eins og Lína Langsokkur. Hvernig get ég orðið sterk?Ert þú sterk mamma? Ég heyrði þig nefnilega segja við pabba um daginn að þér fyndist handleggirnir þínir vera orðnir svo stórir og að þig langaði í granna og fallega handleggi. Á ég að segja þér eitt mamma? Ég sá konu í sjónvarpinu um daginn, með stóra og sterka handleggi. Hún var að lyfta dekki og velta því áfram. Mig langar til að verða sterk eins og hún. Ég heyrði einhvers staðar að hún væri í crossfit. Ég heyrði svo að crossfit væri íþrótt, svona eins og fimleikar og fótbolti. Þegar ég verð unglingur mamma, þá langar mig að æfa crossfit. Það er hægt. Það bara vita það ekki allir, því það fara flestir að æfa allar hefðbundnu íþróttirnar, eins og fótbolta, fimleika frjálsar, handbolta, sund og fleira. Það eru allt frábærar íþróttir mamma, en mig langar svo til að æfa íþrótt þar sem ég get orðið sterk stelpa. Mig langar nefnilega ekki að líða illa yfir því að handleggirnir mínir séu of stórir. Mig langar heldur ekki að þér líði illa yfir því mamma. Þú ert nefnilega fyrirmyndin mín, manstu?
Langaði þig líka að verða sterk stelpa þegar þú varst lítil, mamma? Sagði nokkuð einhver þér að stelpur væru ekki sterkar, heldur bara strákar? Ég heyrði það nefnilega einhvers staðar. Ég held að það sé ekki satt!
Ég vona að ég megi byrja að æfa crossfit þegar ég fer í sjöunda bekk. Ég heyrði nefnilega að í Hveragerði væru fullt af duglegum krökkum, bæði stelpur og strákar, að æfa crossfit! Kannski er það svoleiðis á fleiri stöðum. Á ég að segja þér hvað þessir krakkar gera í crossfit, mamma? Þau gera fullt af skemmtilegum æfingum. Þau æfa sig í að gera upphífingar á stöng, hnébeygjur, armbeygjur, sippa, róa á sérstakri róðravél, hlaupa og margt fleira. Svo þegar þau eru búin að æfa sig vel í tækninni, og eru orðin nógu gömul, þá læra þau að lyfta stöngum með lóðum á. Þetta eru svo duglegir krakkar, mamma, og ég held að þau verði öll rosalega sterk. Þeim finnst líka öllum svo gaman í crossfit vegna þess að æfingarnar eru svo fjölbreyttar og skemmtilegar. Þar er eitthvað fyrir alla, enginn getur allt en allir geta eitthvað.
Mér finnst crossfit vera svo óskaplega spennandi og fjölbreytt íþrótt, því kannski eru einhverjir krakkar og unglingar sem finna sig ekki í neinni af hefðbundnu íþróttunum og verða svo rosalega flink og ánægð í crossfit. Það er vert að prófa það, mamma, ég hlakka svo til að byrja. Kannski getum við farið saman í crossfit. Ég heyrði nefnilega að elsti iðkandinn í crossfit stöðinni í Hveragerði væri 72 ára gamall! Vá hvað hann er duglegur, mamma. Ef hann getur það, þá getur þú það líka, því að þú getur alveg verið sterk stelpa, eins og allar aðrar stelpur. Þá getur þú líka hætt að hafa áhyggjur af því að handleggirnir þínir eða lærin séu of stór. Það er nefnilega flott að vera með stóra og sterka handleggi þegar maður er í crossfit, því þá getur maður orðið svo sterkur.
Sterkar stelpur og konur eru frábærar fyrirmyndir, finnst þér það ekki, mamma?
Með von undirritaðrar um hugarfarsbreytingu á líkamsrækt kvenna, sem miðast oft eingöngu við það að verða mjó. Það er mun vænlegra fyrir okkur allar að verða sterkar. Við getum komið í öllum stærðum og gerðum en við getum allar orðið sterkar, ef við höfum það að leiðarljósi.
Áfram flottar og sterkar kvenfyrirmyndir.
—
Valgerður Rut Jakobsdóttir, nemi í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands.