Auður Björg Jónheiðardóttir útskrifaðist sem tómstunda- og félagsmálafræðingur BA frá Háskóla Íslands vorið 2018. Á ráðstefnunni Íslenskum æskulýðsrannsóknum í lok árs fékk hún viðurkenningu Félags fagfólks í frítímaþjónustu (FFF) og Félags íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi (FÍÆT) fyrir lokaverkefni sitt. Í verkefninu hannaði hún námskeið sem hún byggði á aðferðum tómstundafræðinnar og hélt fyrir notendur Batamiðstöðvar. Hluti af verkefninu var einnig mat á því hvernig til tókst. Frítíminn fékk Auði til að segja stuttlega frá verkefninu sínu og störfum sínum í framhaldinu sem tómstunda- og félagsmálafræðingur á vettvangi.
Ég hef unnið á geðsviði Landspítalans síðan í maí 2016 og langaði þess vegna að tengja lokaverkefnið við vinnuna mína, þar sem áhugi minn liggur á geðheilbrigði og geðsviðinu. Eftir útskrift eða í maí 2018 byrjaði ég í fullri vinnu á Kleppi. Deildin sem ég vinn á heitir Geðendurhæfing 5 og 7 daga og einnig er nýverið búið að stofna dagdeild sem tilheyrir einni Geðendurhæfingunni. Á deildina koma einstaklingar sem eru að glíma við geðraskanir og hafa verið óvirkir í einhvern tíma eða misst tökin á lífinu. Þeir þurfa aðstoð við að komast aftur í rútínu og að vinna í sjálfum sér.
Ég nefndi lokaverkefnið mitt, Námskeið fyrir notendur Batamiðstöðvar á Kleppi: Lífsleikni og tómstundir. Mig langaði að gera eitthvað sem myndi skilja eitthvað eftir sig, fræða og gefa af sér. Einnig langaði mig að geta haft tækifæri til þess að fræða samfélagið um geðraskanir og Klepp. Í verkefninu tókst mér að flétta þetta allt saman í eitt verkefni. Það var frábært upplifun að fá verðlaun fyrir ritgerðina mína og ég lagði mig líka alla fram við að skrifa hana og framkvæma námskeiðið. Ég var mjög stolt að hafa fengið viðurkenningu frá FFF og FÍÆT í október. Það hvatti mig til þess að halda námskeiðið aftur á Kleppi og ýtti á eftir mér að gera eitthvað meira með það, t.d að fara með það út fyrir geðsviðið.
Mér fannst áhugaverðast við vinnu verkefnisins að komast að því hvað námskeiðið átti vel við inn á geðsviði. Einnig hvað allir voru hjálpsamir við að hjálpa mér með verkefnið t.d þær tvær sem lásu yfir fyrir mig. Ég reyni að vera mikið í núinu og hugsa ekki langt fram í tíman en það sem ég veit er að mig langar að halda áfram að þróa námskeiðið. Ég hef verið beðin núna tvisvar sinnum að halda fræðslu fyrir alla notendur Batamiðstöðvar og starfsfólk Klepps um “Verkfæri tómstundafræðarinnar” og það gekk mjög vel og góðar umræður mynduðust. Í fræðslunni tek ég þá stuttlega fyrir hvað tómstundafræði er, ígrundun, mikilvægi tómstunda, þægindahringinn og að trúa á sjálfan sig. Ég er einnig opin fyrir því að halda fræðslu fyrir utan geðsviðið ef einhver hefur áhuga á að kynnast námskeiðinu.
Í kjölfarið hef ég haldið námskeiðið sjálft sem ég kalla einnig “Verkfæri tómstundafræðarinnar”. Mér fannst það nafn henta betur heldur en það sem ég nefndi lokaverkefnið í byrjun. Námskeiðið er eins og er haldið í 3 skipti (3 vikur) ca. 45 mínútur í senn. Það er byggt upp þannig að það eru glærur, umræður, ígrundunarbækur, verkefni og léttir ísbrjótar. Ég held námskeiðið ef það er pláss í stundartöflu Batamiðstöðvar, en það hentar vel að keyra það í gegn svona á 2 mánaða fresti þar sem notendur eru oft inni liggjandi í um það bil 1-3 mánuði.
Einnig stefni ég á að hanna handbók sem aðrir gætu fengið not af og haldið námskeiðið, t.d á skóla og frístundasviði. Einnig væri gaman að ég sjálf myndi halda námskeiðið einhversstaðar annarsstaðar en á Kleppi, en ósk mín væri þá að fræða samfélagið í leiðinni um geðraskanir og hvaða starfsemi fer fram á Kleppi í dag vegna þess að ég veit að það er mikil þörf á því, þó svo fordómar hafi minnkað og umræðan aukist.
Strax og ég var útskrifuð í júní 2018 þá hringdi ég nokkur símtöl til þess að fá menntunina mína inn á auðkenniskortið mitt hjá Landspítalanum og það var ekki mikið mál, en í raun eru engir tómstunda- og félagsmálafræðingar sem heita það inn í kerfinu, en mig langar að Tómstunda og félagsmálafræðingar verði starfsheiti innan spítalans þar sem það eru mörg verkefni sem henta þeim.
Sumarið 2018 var ég beðin um af deildarstjórunum mínum að skipuleggja sumarið fyrir deildina og sjá til þess að bill væri pantaður þegar það væri góð mönnun til þess að fara í ferðir. Til dæmis fórum við á Rokksafn Íslands sem er í Keflavík og vakti það mikla lukku. Einnig tók ég saman allskonar afþreyingu á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni sem væri hægt að fast við og hengdi upp á vegg t.d kaffihús, ísbúðir, söfn og gönguleiðir. Ég sé til þess að allir nýir liðir í Batamiðstöðinni séu vel auglýstir og bý til litríkar auglýsingar sem eru hengdar upp út um allan Klepp. Einnig er ég vel tengd inn í Batamiðstöðina og mæti á skipulagsfundi reglulega þangað með vinnuhópi Batamiðstöðvar.
Ég tek að mér allskonar verkefni sem bjóðast eða sem mér dettur í hug og ég ber þau undir deildastjóra eða Batamiðstöðina og alltaf er vel tekið í hugmyndirnar. Það sem ég er aðallega að vinna í núna er að skipuleggja árshátíð fyrir allt starfsfólk á Geðsviði Landsspítala ásamt nokkrum öðrum sem vinna með mér á Geðendurhæfingunni. Einnig er ég að koma í gang og hanna myndavegg sem verður hengdur upp á ganginum til þess að auðvelda skjólstæðingum að muna nöfn á meðferðaraðilum og kynnast þeim betur. Ásamt því er ég að taka þátt í að skipuleggja starfsdag Klepps með deildarstjórum þar sem Samskiptasáttmáli Landspítalans verður innleiddur og þar ætla ég að prufa hópefli í stórum hóp sem er langt út fyrir þægindahringinn fyrir mig.
Mér finnst ég algjörlega fá að nota menntun mína í vinnunni en ég þarf að sýna frumkvæði og koma með hugmyndir þar sem það er í raun ekki í minni starfslýsingu að gera það sem ég er að taka mér fyrir hendur en ég er að vinna í því að það verði það.
Það sem ég sagði þegar ég var rúmlega tvítug var að ég ætlaði aldrei í háskóla, ég hélt það væri bara ekki fyrir mig. Þess vegna langar mig að mæla með því að allir kynni sér tómstunda- og félagsmálafræði ef þeir eru ekki vissir um hvað þeir vilja vera í framtíðinni vegna þess að þetta er frábær byrjun á lífinu og gefur manni marga atvinnumöguleika á ýmsum fjölbreyttum sviðum. Einnig er námið góður grunnur fyrir áframhaldandi nám.