Upplifa ungar stúlkur í fótbolta kynjamisrétti?

Árið 2000  var ég fótboltamamma stúlku sem æfði íþróttina ásamt vinkonum sínum í íþróttafélagi í Reykjavík. Þessar stelpur elskuðu að spila fótbolta, þær lögðu sig allar fram og æfðu mikið. Þjálfarinn þeirra lagði sitt af mörkum til að styðja stelpurnar, enda sá hann að áhuginn og dugnaðurinn var til staðar.

Allt  var fyrir hendi nema aðstaða fyrir stelpurnar. Þarna  var góður keppnisvöllur, æfingavöllur og aukavöllur en stundum var ekki pláss fyrir þær. Þegar þær mættu á æfingu þá voru strákarnir stundum fyrir á vellinum þar sem þær áttu að æfa og einu sinni enduðu þær á róló.  Foreldrar og þjálfarar kvörtuðu ítrekað en allt kom fyrir ekki. Skýringin var aðstöðu- og plássleysi en strákarnir voru alltaf látnir ganga fyrir. Endirinn varð sá að stelpurnar hættu í fótboltanum og fóru að æfa handbolta sem var viðurkennd stelpuíþrótt en fótboltinn var álitinn jaðaríþrótt fyrir stelpur á þessum tíma.

Svo liðu árin og núna árið 2018 langaði mig til að athuga hvort að þetta væri ekki allt breytt enda eigum við glæsilegt landslið í kvennafótbolta jafnvel á heimsmælikvarða. Ég byrjaði á að skoða hvort að jafnréttisstefna væri fyrir hendi hjá helstu íþróttafélögunum í Reykjavík og sá að hún er til hjá flestum, ef ekki öllum.

Þá hafði ég samband við tvær íþróttamömmur fótboltastelpna á unglingsaldri sem æfa fótbolta í dag til að heyra hvað þær hefðu að segja. Önnur sagði að það væri svo augljóst misréttið á milli stráka og stelpna í fótbolta að stelpan hefði sjálf tekið eftir því þegar hún var í fimmta bekk og haft orð á því. Mamman sagði mér að í þessu íþróttafélagi þar sem dóttir hennar æfði kæmi misréttið fram í því að þær fengju ekki sömu þjálfun og strákarnir. Með þessu misrétti fengju þær þau skilaboð að það væri minna virði að vera stelpa en strákur þegar fólk æfði fótbolta.

Hin fótboltamamman kom með þær ábendingar að aðstöðuleysið væri frekar fyrir hendi hjá stelpunum en strákunum. Stelpurnar væru látnar gefa bestu vellina eftir til strákanna. Þetta koma alveg heim og saman við mína upplifun á árunum áður enda er þetta sama íþróttafélagið sem á þarna í hlut. Hún sagði jafnframt að þjálfararnir og þjálfunin væri í góðu lagi hjá stelpunum í þessu íþróttafélagi.

Í grein Guðmundar Sæmundssonar frá árinu 2012, Svo sæt og brosmild…. segir svo: „Sú mynd sem íþróttahreyfingar Vesturlanda hafa leitast við að draga upp af sjálfum sér er afar karllæg og gerir sjaldan ráð fyrir konum“(Guðmundur Sæmundsson, 2012).

Í samtali mínu við fótboltamömmurnar tókum við þetta atriði fyrir og töldu þær að þessi staðhæfing væri rétt og það tengdist því að það væru miklir peningar í karlafótbolanum. Þetta væri hrein hagsmunabarátta á milli kynjanna. Annað atriði bentu þær líka á og það er að það vantar konur í stjórnir og ráð íþróttahreyfinganna.

Þessi litla könnun mín gefur vísbendingu um að það sé enn kynjamisrétti í fótbolta sem ungu stúlkurnar upplifa, þrátt fyrir jafnréttisstefnu íþróttafélaganna.

Greinilega er mikil þörf á að kanna þetta mál nánar og gera alvöru rannsókn á þessu málefni. Síðan þarf að vinna markvisst út frá þeim niðurstöðum sem rannsóknin mun leiða í ljós, unga íþróttafólkinu okkar til hagsbóta um komandi framtíð.

 

Guðrún Barbara Tryggvadóttir

 

Heimild

Guðmundur Sæmundsson. (2012). Svo sæt og brosmild….: Umfjöllun í blöðum og tímaritum um íslenskar afreksíþróttakonur á alþjóðavettvangi. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Sótt af http://netla.hi.is/greinar/2012/ryn/008.pdf