Tómstundamenntun sem meðferðarúrræði

Í dag er alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn !

 

Þegar ég byrjaði í Tómstunda- og félagsmálafræði lærði ég um tómstundamenntun á fyrsta ári og það heillaði mig strax. Geðheilbrigði er mér hugleikið þar sem ég hef upplifað það að glíma við geðrænan vanda og finnst úrræði ábótavant fyrir ungt fólk. Samkvæmt tölulegum upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni eru 1 af 4 einstaklingum sem upplifa geðrænan vanda einhvern tímann á lífsleiðinni.

Í náminu fórum við stundum í hópeflisleiki og framkvæmdum mikið og ég fann hvernig það hafði jákvæð áhrif á mig sem einstakling. Oft unnum við saman í hópum og ég fann að með tímanum fannst mér auðveldara að treysta hópnum og ég styrktist sem einstaklingur. Ég hugsa stundum að þessi þrjú ár voru eins og eitt stórt tómstundamenntunarnámskeið.

Á mínu lokaári þegar ég fór að hugsa hvað ég ætlaði að skrifa um í lokaverkefni ákvað ég að skrifa um tómstundamenntun fyrir fólk með geðrænan vanda. Ástæðan er einföld því svona úrræði vantar hérlendis og er þarft. Ég hannaði námskeið sem er 8 tímar og hver tími hefur sitt þema, sem dæmi styrkleikar, tómstundir og líðan, seigla og sigrar.

Þetta tómstundamenntunarnámskeið er batamiðað því markmiðið með því er að styrkja einstaklinginn og hjálpa honum að finna sína styrkleika, setja sér markmið og taka stjórn á eigin lífi. Á tómstundamenntunarnámskeiði er þátttakendum hjálpað að vera meðvitaðir um frítíma sinn. Einnig er fræðsla um hvað tómstundir eru og hvernig er hægt að bæta líðan með því að stunda heilbrigðar og jákvæðar tómstundir til bættrar heilsu.

Rannsóknir sína að tómstundir hafa jákvæð áhrif á andlega heilsu og er því mikilvægt að við förum að skoða tómstundamenntun sem meðferðarúrræði. Með því að fletta saman hópeflisleikjum, fjörefli, kennslu og lærdóm geta myndast svo ótrúlega flottar kennslustundir þar sem samheldni og gleði ríkir.

Staðan á Íslandi gagnvart þessum málaflokki er sorgleg því kerfið er fjársvelt og við erum að missa of mikið að ungu fólki sem á allt lífið framundan. Við sem samfélag getum tekið höndum saman og hlúð betur að þessum börnum,unglingum og fullorðnum því þau eiga það skilið.

Það er alltaf von um bata og tómstundamenntun getur verið eitt úrræði til að hjálpa fólki að tengjast öðru fólki og fá fræðslu um hvað tómstundir eru og hvað er í boði til þess að þessir einstaklingar geti staðið á eigin fótum sem sterkari einstaklingar – tilbúnir að takast á við hið daglega líf.

—-

Berglind Rún Torfadóttir, tómstunda- og félagsmálafræðingur

Greinargerð með lokaverkefni Berglindar má nálgast á Skemmunni fyrir áhugasama.