Á öllum heimilum má finna einhvers konar snjalltæki og eru fáir sem fara að heiman án þess að vera með símann sinn með sér. Í kjölfar þessarar aukningar á snjalltækjum og samfélagsmiðlum má sjá nánast alla unglinga með síma og keppast þau um að vera með nýjustu og bestu símana. Nú til dags sér maður varla framan í fólk vegna þess að við eigum það til að lúta höfði ofan í símann okkar. En hvernig hefur þessi aukning á snjalltækjum áhrif á unglinga í dag og hvort, og þá hvernig, hefur form eineltis breyst í kjölfar þess?
Í dag er talið asnalegt eða ekki kúl að vera ekki með síma sem unglingur og í þessum tækjum hafa þau fjöldann allan af snjallforritum sem þau hafa aðgang að. Auðvelt er fyrir þau að stofna reikninga á þessum forritum með því að stimpla inn nokkrar upplýsingar um sig og þá eru þau komin með aðgang. Aðalspurningin er samt sú hvort þau átti þau sig á hvernig netið virkar? Margir unglingar í dag átta sig ekki á því að það sem fer á netið verður alltaf á netinu og þegar stafrænt einelti á sér stað þá átta þau sig kannski ekki að það er manneskja á bak við hinn aðganginn. Þar geta þau sagt hluti sem þau myndu kannski ekki segja beint við þau og þá á eineltið sér stað allan sólarhringinn sem gerir það að verkum að eineltið er stöðugt.
Á t.d. Instagram og TikTok, sem eru með vinsælustu snjallforritum fyrir unglinga í dag, má sjá mikið magn af einelti á hverjum degi og þarf ekki nema að skrifa eitt lítið orð inn í leitarvélina til þess að sjá þetta magn og er það orð „hötum“. Eftir að búið er að leita að þessu litla en sterka orði má sjá fjöldann allan af reikningum sem unglingar hafa búið til í þeim tilgangi að leggja í einelti og þar eru þau að deila myndum og myndböndum sem aðrir krakkar hafa sett hinn og skrifa svo ljóta hluti undir þau. Flestir af þeim unglingum sem deila þessum myndum og myndböndum vita örugglega ekki raunveruleg áhrif sem þetta hefur því þau sjá ekki viðbrögð þeirra sem sýnir hversu mikilvægt er að auka þekkingu unglinga á samfélagsmiðlum og sýna þeim að stafrænt einelti er engan veginn betra en einelti í persónu. Hvað er hægt að gera þegar stafrænt einelti kemur upp? Til þess að geta unnið gegn þessari aukningu þurfa unglingar að vita hvað hægt er að gera þegar þau sjá einelti á netinu og vita möguleg áhrif þess.
Það er greinilegt að grunn- og framhaldskólar þurfa að taka sig saman og finna lausn á þessu og auka þekkingu unglinga á samfélagsmiðlum þar sem þetta vandamál er mjög þekkt og auðvelt að sjá. Það þarf ekki nema eina mynd sem er að berast á milli unglinga til þess að eyðileggja líf og það er eitthvað sem við viljum koma í veg fyrir. Það má sjá að margt af þessu stafræna einelti má koma í veg fyrir með að auka fræðslu og með forvarnarstarfi.
—
Egill R. Guðjohnsen