Að viðhalda gæðum í starfi – Skiptir máli hvaðan peningarnir koma?

Ég átti áhugavert spjall við vinkonu mína sem kemur frá öðru landi en ég. Við eigum það sameiginlegt að vinna bæði með ungu fólki í frítímaþjónustu. Spjallið snéri að fjárveitingu til æskulýðsstarfs. Ekki hætta að lesa, þetta verður áhugavert þrátt fyrir þetta há pólitíska orð; fjárveiting.

Það er nefnilega þannig þar sem hún hafði starfað í sínu heimalandi, að þar var nánast ekkert æskulýðsstarf (e. Youth work) rekið með fjármunum frá sveitarfélögum eða ríkissjóði. Til þess að halda úti starfi þar þurfa samtök og stofnanir sem halda úti æskulýðsstarfi, að sækja um styrki frá öðrum stofnunum, sjóðum eða fyrirtækjum. Ef að þú kæri lesandi hefur nokkur tímann unnið styrkumsókn, veist þú að þar þarf ýmislegt að koma fram.

Gjarnan þarf að gera skilmerkilega grein fyrir þeim markmiðum sem þitt verkefni hefur að leiðarljósi. Í stuttu máli mætti segja, að þú þurfir að útskýra hvers vegna í ósköpunum styrkveitandinn eigi að treysta þér fyrir því að nýta fjármunina vel, þannig að þeir skili einhverju til samfélagsins. Í hennar heimalandi þurfa stofnanir og samtök að gera skýrar útlínur af sínu starfi áður en þau fá fjármagn. Þegar tímabilinu er síðan lokið þarf gjarnan að fylgja einhver skýrsla um það hvernig til tókst.

Þetta þótti henni þó síðra kerfi en það sem við vinnum eftir hér á landi, því er ég sammála. Ókostirnir við þetta fyrirkomulag eru kannski helst að þarna er ekki verið að tryggja öllum jafnt aðgengi að góðu æskulýðsstarfi, sem mér þykir mikilvægt að allir hafi. Þó situr eftir þetta með leiðarljósið. Þarna þurfa leiðtogar í æskulýðsstarfi sífellt að líta innávið og spyrja sig; fyrir hvað stöndum við? Af hverju ætti okkar æskulýðsstarf að fá þennan styrk? Þarna sýnist mér vera ákveðinn hvati fyrir því að viðhalda gæðum í starfi. Hvati sem er kannski ekki jafn skýr þegar það er nánast sjálfgefið að starfið sem þú heldur úti, verði ennþá til á næsta ári.

Ekki misskilja mig, ég er alls ekki að kasta skugga yfir það starf sem fer fram í tómstunda- og félagsmiðstöðvum á Íslandi. Ég veit að þar starfar fagfólk sem hugsar um gæði starfsins. Ég veit að í mörgum bæjarfélögum þarf reglulega að gera gæðamat á starfinu. En þú skilur kannski hvað ég er að benda á?

Vikum seinna fór ég í starfskynningu hjá velferðasviði sveitarfélags á Höfuðborgarsvæðinu. Það vakti margt áhuga minn við þeirra starf, sérstaklega að þar geta foreldrar valið hvaða skóla sveitarfélagsins sem er fyrir barnið sitt. Eins hefur þetta í mínum huga svipuð áhrif á þeirra starf, þarna þurfa þessar stofnanir sífellt að líta innávið og spyrja sig; hvers vegna ætti foreldri að vilja eiga barn í skólanum okkar? Hvers vegna ættu börn að velja að vera í því umhverfi sem við erum að búa til hér?

Ég hugsa í það minnsta að mér væri hollt sem leiðbeinandi, að horfa oftar innávið og velta þessu fyrir mér. Hvað ætla ég að standa fyrir? Er það alltaf það sama? Þarf ég að aðlaga mig að því sem er í gagni núna? Hvernig ætli sé hægt að gera þessa ígrundun að föstum hluta í öllu starfi, án þess þó að tilvera starfsins hangi á bláþræði, eins og í heimalandi vinkonu minnar?

Bergþór Bjarki Guðmundsson

Mikilvægi hins faglærða og ófaglærða starfsmanns

guðfinna ágústsdóttirSíðastliðin 150 ár hafa átt sér stað gríðarlegar samfélagsbreytingar sem gerir það að verkum að æskulýðurinn hverju sinni er sífellt að takast á við aðstæður sem foreldrarnir þekkja ekki af eigin raun í sínu uppeldi. Getur því fylgt óöryggi sem kemur meðal annars fram í þeirri firru að æskylýðurinn sé ávallt á villigötum. Ef aðstæður heima fyrir eru ekki upp á sitt besta, samtal, tími eða stuðningur foreldra ekki til staðar, þá ættu ungmenni ekki að vera í neinum erfiðleikum með að leita til fagaðila sem geta veitt þeim þá aðstoð sem þau leitast eftir. Skilningur foreldra getur verið takmarkaður þar sem þau eru ekki alveg með á nótunum um þau atriði sem geta hrjáð nútíma ungling.

Því skiptir sérstaklega miklu máli að ungmenni geta leitað ráða, mætt virðingu og fengið hvatningu frá starfsfólki félagsmiðstöðvanna, hvort sem það er faglært eða ófaglært. Lesa meira “Mikilvægi hins faglærða og ófaglærða starfsmanns”

Félagsmiðstöðin – Mitt annað heimili

anton ornNýverið ákvað fjölskyldu- og tómstundaráð Vestmannaeyjabæjar að breyta reksti félagsmiðstöðvarinnar þar í bæ.  Þessar breytingar urðu til þess að starfshlutfall fostöðumanns til 24 ára lækkaði umtalsvert eða um 15%. Opnunartíminn breyttist við þessar breytingar en frá og með skólaári 2016-2017 verður nánast aðeins um kvöld-opnanir um að ræða. Þá verður opið fimm kvöld í viku 19:30 – 22:00- , öll kvöld nema fimmtudaga og sunnudaga. Að auki verður aðeins opið í tvær klukkustundir á dag, tvo daga í viku miðvikudaga og þriðjudaga frá 16:00-18:00. Félagsmiðstöðin verður því opin í 16,5 klukkustundir á viku sem er líkt því og þekkist annarstaðar að sögn formanns  fjölskyldu- og tómstundaráðs Vestmannaeyjabæjar. Lesa meira “Félagsmiðstöðin – Mitt annað heimili”