Samanburður við aðra hefur alltaf átt stóran þátt í að skilgreina sjálfsmynd okkar. Við berum okkur saman við annað fólk og hefur samanburður við fyrirsætur, íþróttamenn og annað frægt fólk og áhrif þess á sjálfsmynd okkar verið grunnurinn í ótal rannsóknum. Í dag hefur þessi samanburður við annað fólk ekkert minnkað og við bætist að nú erum við líka að bera okkur saman við tölvugerðar útlitsbættar myndir af okkur sjálfum.
Í dag, þar sem samskipti fara fram að miklu eða mestu leyti í gegn um myndrænt form á samfélagsmiðum, er enginn möguleiki á að aftengja þig myndinni sem þú sérð á símanum þar sem hún birtist samstundis. Þú ert alltaf í sviðsljósinu og sjálfsmyndin byggist upp í gegn um filtera sem gera þig fallegri og möguleikann á að editera, laga og reyna aftur þar til myndin sjálf og skilaboðin sem þú sendir frá þér eru akkúrat það sem þú vilt. En hvaða áhrif hefur það á sjálfsmyndina þegar þú sérð þig alltaf eða oftast í gegn um filter sem minnkar nefið, stækkar varirnar, gerir augun bjartari og ýkir kinnbeinin? Hvað sérð þú í speglinum? Og hvernig átt þú að vera ánægt/ð/ur með það að vera ljótari útgáfa af því sem þú sérð í símanum og á samfélagsmiðlum?
Í samanburðarsamfélagi erum við stöðugt að upplifa það að við erum ekki nóg. Ekki nógu sæt, ekki nógu spennandi, ekki nógu mjó, ekki nógu rík, flott, skemmtileg, fjölbreytt, gáfuð, ekki með nógu stóran rass, eða flatan maga, eða six-pack. Það er alltaf einhver sem er betri eða sem hefur eitthvað sem okkur langar í og þessi eltingaleikur er að gera út af við okkur. Áhrifavaldar á samfélagsmiðlum nota margir hverjir sitt platform til að deila ráðum og leiðum til að verða „betri útgáfa af þér“. Þau fá mörg hver greitt fyrir að auglýsa þjónustu eða vörur sem þau nota sjálf og línan á milli þess hvað er auglýsing og hvað er ekki auglýsing verður stöðugt óljósari. Það segir enginn „farðu í varafyllingu því þá fæ ég frítt, augnháralengingu því ég fæ greitt fyrir og keyptu þér þetta krem sem ég fæ borgað fyrir að segja þér frá“. En það er rætt opinskátt að „varafyllingin sem ég fór í bætti sjálfstraustið mitt svo mikið“, eða „ég er svo fljót að taka mig til á morgnana eftir að ég fór í augnháralengingu“ eða „sjáðu! Uppáhalds kremið mitt er á útsölu. Mæli með!“
Hvert sem við lítum erum við hvött til að vera „besta útgáfan af þér“ og með þeim skilaboðum fylgja ósögðu skilaboðin að meðalútgáfan af þér er ekki nóg. Samfélagsmiðla forritin sem við notum hvetja til að við prufum filtera sem breyta útlitinu okkar og ósögðu skilaboðin sem fylgja eru þau að við erum ekki nógu sæt. Er það nema furða að unglingar hlakki til að verða 18 ára til að verða komin með aldur til að skella sér í lýtaaðgerðir til að verða loksins þessi besta útgáfa af sér? Hvernig væri ef við myndum hvetja unglingana okkar frekar til þess að vera meðalútgáfan af sér, þessi sem er ekki sætust en er sátt í eigin skinni, þessi sem er hraustur en ekki endilega með six-pack, og þessi sem sættir sig við að versla í matinn í Bónus í stað þess að fara út að borða?
Lærum að elska okkur í þeirri mynd sem við erum svo við getum leiðbeint þeim hvernig þau geta elskað sig í þeirri mynd sem þau eru og stöðvum eltingaleikinn. Hamingjan finnst ekki í kapphlaupinu.
—
Sandra Karlsdóttir