Kynfræðsla unglinga er ákaflega mikilvæg. Það er virkilega áríðandi að þau fái kynfræðslu áður en þau fara að þreifa sig áfram í kynlífi og að þau viti hvað er að gerast hjá þeim við kynþroskann og allar þær tilfinningar sem þau eru að upplifa á unglingsárunum. Það er frekar seint í rassinn gripið að fræða unglinga um getnaðarvarnir þegar barn er komið undir eða þau komin með kynsjúkdóma. Kynfræðsla er ekkert nema forvarnir. Þau þurfa að fá fræðslu um allar þessar langanir og tilfinningar sem þau hafa og þau þurfa að vita að þessar hugsanir og tilfinningar séu ósköp eðilegar en ekki afbrigðilegar, sem mörgum finnst þar sem að þetta er allt svo mikið tabú. Þau þurfa að vita hvað sé eðlilegt kynlíf og hvað sé afbrigðilegt kynlíf, hvaða getur fylgt því s.s. kynsjúkdómar og að það sem sýnt er í klámmyndum er ekki kynlíf.
Kynlíf og allt því tengt er fyrir flestum unglingum mikið feimnismál og mörg þeirra ekki tilbúin að spyrja foreldra eða aðra út í þessi mál því þeim finnst það vandræðalegt. Sú fræðsla sem unglingar eru að fá í grunnskólum er einhver og gerir að einhverju leyti gagn. Kringumstæðurnar mega ekki vera þvingaðar þegar þessi mál eru rædd því þá þora þau ekki að spyrja né taka þátt í umræðum. Ég man það sjálf þegar ég var í grunnskóla hvað mér fannst virkilega vandræðalegt að sitja í tíma og hlusta á kennarann minn vera með kynfræðslu. Ég held að þetta eigi við flesta unglinga enn í dag.
Mín upplifun af Siggu Dögg og fyrirlestri hennar
Sigga Dögg kom í grunnskólann í minni heimabyggð fyrir stuttu síðan og byrjaði á að halda fyrirlestur fyrir nemendur í 7.-10. bekk. Síðar um kvöldið var boðið upp á fyrirlestur fyrir foreldra þar sem að hún leiðbeindi okkur fullorðna fólkinu í því hvernig best sé að fræða unglingana okkar varðandi líkamann, kynþroskann, kynlíf og fleira og hvernig best sé að tækla hinar ýmsu spurningar sem unglingarnir eiga til að spyrja. Ég var nú eiginlega á þeirri skoðun, áður en ég fór á fyrirlesturinn, að ég væri alveg þokkalega í stakk búin til að fara að fræða dóttur mína, sem er 12 ára, um það sem hún ætti eftir að spyrja um eða það sem ég þyrfti að fræða hana um í þessum málum. Mér var það nokkuð ljóst strax í byrjun fyrirlestrarins að það væri ótrúlega margt sem ég ekki hafði svör við og hefði sennilega aldrei náð að tækla spurningar á eins frábæran hátt og Sigga Dögg ráðlagði okkur. Sigga Dögg er snillingur í sínu fagi og hún er svo hress og skemmtileg og orðar hlutina svo skemmtilega að maður er í hláturskasti nánast allan tímann. Ég átti von á því að þetta yrði þvingandi aðstæður og vandræðalegur fyrirlestur að sitja vegna viðfangsefnisins en svo var alls ekki. Ég skemmti mér konunglega og allir sem þarna voru líka. Unglingarnir töluðu einnig um það hvað hún væri hrikalega skemmtileg og fyndin og ég held að þau hafi meðtekið allt sem hún sagði þeim og sýndi vegna þess hversu vel og skemmtilega hún kom efninu frá sér. Með því að gera grín og fíflast með þessi mál tókst henni að gera andrúmsloftið svo þægilegt og óþvingað þannig að bæði unglingarnir og fullorðna fólkið var ekki eins feimið við að spyrja og taka þátt í umræðunum.
Mæli með að allir grunnskólar landsins fái Siggu Dögg til sín
Sigga Dögg var fengin í grunnskólann í minni heimabyggð að ósk skólastjórans og foreldrafélagsins. Hún notaði tækifærið og hélt fyrirlestur í næsta sveitarfélagi líka þar sem að hún var komin út á land hvort sem var. Kostnaðurinn við að fá Siggu Dögg austur á land var talsverður og skiptu grunnskólinn og foreldrafélagið kostnaðnum sín á milli. Það er dýrt að fá fagmenntað fólk út á land til að halda fyrirlestra en þessi var svo sannarlega þess virði. Þessi fyrirlestur var algjör dásemd og svo svakalega lærdómsríkur og skemmtilegur að mér finnst að allir grunnskólar landsins eigi að fá hana Siggu Dögg til sín til að halda slíkan fyrirlestur því viðfangsefnið er virkilega áríðandi og ég get ekki ímyndað mér að nokkur geti komið þessu frá sér á eins frábæran hátt og Sigga Dögg, hvort sem er fyrir unglingana eða okkur foreldrana.
—
Dröfn Freysdóttir, háskólanemi í tómstunda- og félagsmálafræði