SAMFÉS og evrópusamstarfið

oliÁ aðalfundi Evrópusamtaka félagsmiðstöðva (European Confederation of Youth Clubs – ECYC) sem haldin var hjá Casals de Joves í Barcelona í október 2015 voru aðalmálin annars vegar hvernig niðurskurður hefur haft áhrif á samtök félagsmiðstöðva hjá 19 aðildarlöndum ECYC og hins vegar var kosið um stefnuyfirlýsingu um gæðastarf í opnu æskulýðsstarfi. Stefnuyfirlýsingin er hluti af þeirri hugmyndafræði sem meðlimir ECYC telja nauðsynlega til að standa vörð um opið æskulýðsstarf og þau samtök sem sinna því starfi. Á aðalfundi í febrúar í Cluj – Napoca var stefnuyfirlýsing um stuðning við opið æskulýðsstarf einróma samþykkt þannig að samtökin vinna hörðum höndum að því að þróa og móta sína æskulýðsstefnu í samræmi við þróun mála í Evrópu.

Markmið samtakanna er að stuðla að samvinnu milli landssamtaka félagsmiðstöðva í Evrópu, auka evrópu- og alþjóðavitund ungs fólks. Einnig að stuðla að og standa fyrir ungmennaskiptum, námskeiðum fyrir starfsfólk félagsmiðstöðva og ráðstefnum. ECYC nýtur stuðnings frá Evrópuráðinu (Council of Europe) og Erasmus+ áætlunar Evrópusambandsins.

Framtíðarsýn ECYC er valdefling ungs fólks í opnu æskulýðsstarfi og óformlegu námi til að stuðla að lýðræðis- og borgaravitund sem og að hvetja ungt fólk til að taka virkan þátt í sínu samfélagi.

Samfélagsleg þátttaka og virkni ungs fólks er leiðarljós opins æskulýðsstarfs sem meðlimir ECYC *inna af hendi*. Opið æskulýðsstarf og aðferðir óformlegs náms útvega ungu fólki bæði færni og þekkingu til að taka eigin upplýstar ákvarðanir.

Samfés, samtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi hafa verið meðlimir í ECYC frá árinu 1998, tekið virkan þátt í störfum samtakanna og meðal annars átt stjórnarmeðlimi á þeim tæpum 40 árum sem samtökin hafa verið starfandi. Við eigum þjálfara sem hafa hlotið þjálfun í námskeiðum á vegum ECYC (training for trainers), höfum haldið námskeið hérlendis fyrir starfsfólk félagsmiðstöðva í Evrópu og tekið þátt í ungmennaskiptaverkefnum í samstarfi við aðra meðlimi ECYC. Út frá samstarfinu hafa orðið til margs konar fræðslverkefni fyrir unglinga, starfsfólk félagsmiðstöðva og skóla á landsvísu. Einnig hafa verið skipulagðar vettvangsheimsóknir til systursamtaka Samfés auk þeirra fjölmörgu tengsla sem við höfum nýtt og munum halda áfram að nýta í framtíðinni í alls konar verkefni á vettvangi opins æskulýðsstarfs.

Það er því mikilvægt fyrir okkur að taka virkan þátt í því starfi, þróunarvinnu og þeirri stefnumótun sem ECYC vinnur að fyrir starfsfólkið okkar, unga fólkið og vettvanginn í heild sinni. Það hefur líka sýnt sig að starfsfólk félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi hafa mikið fram að færa og við erum eftirsóttir samstarfsaðilar í fjölbreyttum verkefnum á vegum ECYC á evrópuvísu.

Samfés er stoltur meðlimur ECYC og okkar þátttaka er og verður mikilvægur þáttur í framtíðinni í að auðga starfið í félagsmiðstöðvum og ungmennahúsum á Íslandi. Þarna erum við komin til að vera.

Óli Örn Atlason

Greinarhöfundur er forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Fönix í Kópavogi, gjaldkeri Samfés og tengiliður Samfés við ECYC.

www.samfes.is 

www.ecyc.org