Frístundastarf er frjáls vettvangur þar sem óformlegt nám á sviði félagslegrar og lýðræðislegrar þátttöku, félagsleg virkni, félagsfærni og þróun sjálfsmyndar fer fram. Með þátttöku í frístundastarfi fá börn tækifæri til að leita þekkingar og efla færni sem þau geta notað seinna í samfélaginu. Í frístundastarfi kemur fjölbreyttur hópur barna með mismunandi uppeldi og uppruna og fá þau að upplifa margbreytilegt samfélag með skýrum römmum sem er mikilvægt fyrir þróun samfélags.
Þegar kemur að kröfum á starfsmenn frístundaheimila þarf að hafa ákveðna fagmennsku og lýðræði að leiðarljósi. Lýðræði er mikilvægur þáttur í frístundastarfi þar sem hópurinn ákveður í sameiningu innihald starfsins. Mikilvægt í þessu tilliti er að fá hugmyndir barna fram, hlusta á þau og ræða. Allir fá jafnt tækifæri á því að láta sína rödd heyrast og eru börn hvött til þess að koma með hugmyndir að viðfangsefni, starfsmenn styðja svo og hjálpa við framkvæmd þeirra. Hrós og hvatning er mikilvægur þáttur í frístundastarfi, börn öðlast þar með traust og öryggi gagnvart starfsmönnum og hópurinn verður þéttari.
Af minni eigin reynslu af vinnu í frístundaheimili stendur það upp úr þegar maður finnur að myndast hafa tengsl við barn og barnið upplifir sig nógu öruggt til að koma með sína vandamál til manns og ræða um þau á lausnarmiðaðan hátt. Mikilvægt er að mynda tengsl við börnin, sýna þeim áhuga, skapa traust og eiga við þau áhugaverðar samræður um lífið og tilveruna. Tæknin hefur vissulega mikil áhrif á börn í dag og við sjáum það í starfi að tölvuleikir er orðinn stór partur af lífi þeirra. Samfélagsmiðlar eru einnig stór áhrifavaldur á líf barna í dag og sjáum við að í sumum tilvikum eru áhrifin mjög neikvæð. Mikilvægt er fyrir okkur sem vinnum á vettvangi að vera meðvituð um áhrif þessara miðla og tölvuleikja. Vera tilbúin í að ræða um vandann ef upp kemur og finna lausnir sem bæta lífsgæði barna.
Þó svo að tæknin sé orðin stór hluti af okkar daglega lífi eru miklar áskoranir framundan í þessum málum. Þá getum við á vettvangi komið sterk inn með fræðslu og umræður við hópinn og gera þeim grein fyrir alvarleika þess sem upp kann að koma. Foreldrar þurfa einnig að vera vakandi fyrir því sem börnin þeirra eru að skoða í símanum sínum og fræða þau um afleiðingar óheftrar netnotkunar því ekki allir eru meðvitaðir um hætturnar sem leynast á samfélagsmiðlum og almennri netnotkun. Þegar ég var krakki voru það aðeins Disney myndir sem ég hafði aðgang að og ekkert annað. Börn í dag eru miklu útsettari fyrir efni og áreiti sem þau hafa ekki þroska til að vinna úr.
Uppeldi barna fer æ meira fram fyrir framan skjá en áður því það að gefa barni síma er þægileg lausn til að koma í veg fyrir að börnum leiðist og hafi eitthvað fyrir stafi. Skjánotkun barna er að verða vandamál og þessa þróun þarf að mínu mati að stoppa. Það að börn mæti í frístund er einn liður í því. Þar fá þau að upplifa frelsi í gegnum frjálsan leik og heilbrigð félagsleg samskipti. Við sem starfsmenn verðum að gera okkur grein fyrir þeim áskorunum sem að framundan eru og vera tilbúin til að fást við síbreytilega veröld.
—
Bryndís Helga Traustadóttir