Eins og flestir vita er ekkert að því að vera hinsegin og það ætti að teljast alveg jafn venjulegt og að vera gagnkynhneigður. Það er samt erfitt að gera sér grein fyrir því þegar allir sem maður þekkir eru gagnkynhneigðir. Þegar ég var fimmtán ára kom ég út úr skápnum fyrir þeim sem voru mér nánastir. Það er rétt að segja að það hafi verið það erfiðasta sem ég hef gert á ævinni. Fyrir það fór ég í gegnum tvö ár af kvíða, streitu og sjálfshatri í ótta við það að vera ekki samþykktur af þeim sem ég umgengst alla daga. Heppilega tóku því allir vel og fátt breyttist en ég sit samt ennþá uppi með langvarandi áhrif streitu og kvíða. Ótal margir unglingar fara líklega í gegnum svipaða upplifun og ég á ári hverju. Ég velti því einfaldlega fyrir mér hvort að hinseginfræðsla í skólum og tómstundastarfi geti á einhvern hátt hjálpað hinsegin unglingum að sættast við sjálf sig og haft áhrif á það hvernig gagnkynhneigðir unglingar horfa á hinsegin fólk.
Margir velta því fyrir sér hvort að það sé þörf á hinseginfræðslu. Það er talið frekar gott að vera hinsegin á Íslandi og við erum komin langt lagalega séð en það finnast ennþá fordómar í samfélaginu gagnvart hinsegin fólki. Þeir eru ekki alltaf miklir og sýnilegir og eru jafnvel ómeðvitaðir. Stærsta dæmið um það er heterósexísk orðanotkun unglinga. Það er þá notkun orða eins og til dæmis orðin faggi, trukkalessa eða kynskiptingur. Hver kannast ekki við það að hafa heyrt þessi orð notuð í neikvæðu samhengi. Ef hinsegin unglingar heyra þessi neikvæðu orð daglega geta þau átt erfiðara með að sætta sig við hver þau eru og geta haldið að samnemendur og vinir þeirra muni síður samþykkja þau. Þegar ég var í framhaldsskóla átti ég vini sem notuðu orðið faggi óspart þangað til að ég sagði þeim hvað mér fyndist óþægilegt að heyra þetta orð og hversu neikvætt það væri. Það tók smá tíma en hægt og rólega fóru þeir að hætta að nota það eftir að ég ítrekaði þetta aftur og aftur. Þannig ef að ég gat haft áhrif á orðanotkun þeirra með því að fræða þá um áhrif þeirra, hugsið ykkur hver áhrif markvissrar hinseginfræðslu gætu verið á unglinga landsins.
Með því að bjóða upp á hinseginfræðslu í tómstundastarfi getum við einnig sýnt fram á það að hinsegin börn í starfinu geti treyst okkur. Það getur gert svo mikið fyrir þau að vita að þau eigi hauk í horni, að vita það að einhver fullorðin einstaklingur standi með þeim. Ég ólst ekki upp við neina hinseginfræðslu, ég þurfti að sækja hana alla í gegnum netið. Hefði ég fengið fræðslu frá einhverjum leiðbeinanda um þetta hefði ég kannski getað leitað mér svara og ráða en það var ekki þannig og ég sat nokkurn vegin einn í óvissunni. Ég vissi voða fátt um hvernig það var að vera hinsegin á íslandi, eina fyrirmyndin sem ég hafði var Páll Óskar. Þannig að fræðslan gæti meðal annars komið í veg fyrir það að unglingum finnist þau vera ein í heiminum og eflt traust gagnvart fullorðnum einstaklingi í lífi þeirra.
Mína skoðun á þessu er í rauninni hægt að ramma inn í frasanum: ,,Við erum hrædd við það sem við þekkjum ekki”. Hatur og fordóma er alltaf hægt að finna þar sem vanþekking er. Þess vegna þykir mér svo mikilvægt að bjóða upp á hinseginfræðslu allstaðar þar sem tækifæri gefst. Með því að fræða unglinga landsins getum við komið í veg fyrir fordómafulla orðræðu, við getum stutt betur við hinsegin unglinga og hjálpað þeim að finnast þeir tilheyra í samfélaginu.
—
Högni Þór Þorsteinsson