Kynfræðsla fyrir unglinga – Erum við að gera nóg?

Í vetur var mikil umræða um Viku 6 sem er hluti af kynfræðsluáætlun grunnskóla. Sumir hafa gagnrýnt að fræðslan fari of langt eða sé ekki við hæfi barna á ákveðnum aldri og hefur umræðan í flestum tilfellum verið frekar neikvæð. En er þessi gagnrýni réttmæt? Eða er vika 6 einmitt það sem unglingar þurfa? Sumir foreldrar virðast vera að pirra sig á því að unglingarnir þeirra séu að fá of ítarlega og mikla kynfræðslu, en af hverju er það? Kynfræðsla hefur lengi verið tabú málefni í samfélaginu. Það virðist sem öllum finnist óþægilegt að taka samtalið eða umræðuna þegar kemur að kynfræðslu. En af hverju er það?

Hvað er vika 6?

Vika 6 er hluti af skipulagðri kynfræðslu í grunnskólum og félagsmiðstöðvum landsins og hefur verið í gangi í nokkur ár. Markmiðið með henni er að veita unglingum öruggt og fræðandi umhverfi til að læra um kynlíf, kynhneigð, kynheilbrigði, kynvitund, sambönd, mörk og samþykki. Fræðslan sem fer fram í viku 6 tekur á fjölbreyttum þáttum kynheilbrigðis og leggur áherslu á að búa unglinga undir heilbrigð og virðingarrík sambönd. Fræðslan er unnin í takt við aldur nemenda og miðar að því að veita upplýsingar á skýran og ábyrgðarfullan hátt.

Gagnrýnin á viku 6 – Ótti eða misskilningur?

Margir sem gagnrýna viku 6 hafa áhyggjur af því að unglingar séu að fá of mikla fræðslu of snemma. Hins vegar er mikilvægt að hafa í huga að opin og fræðandi kynfræðsla eykur      hugmyndir unglinga um eigin líkama, mörk og samskipti. Kynfræðsla á ekki að byggja á hræðslu eða skömm heldur á staðreyndum og vísindum. Ef unglingar fá ekki réttar upplýsingar í skólanum munu þeir leita annarra leiða til að afla sér þekkingar og þá oft í gegnum internetið, þá í gegnum klám eða í gegnum jafnaldra sína, sem getur leitt til ranghugmynda og skaðlegra viðhorfa. Það er því lykilatriði að tryggja að fræðslan sé vönduð, aðgengileg og í takt við aldur nemenda. Þegar unglingar fá góða fræðslu, fá þau verkfæri til að vernda sig, virða sjálfa sig og aðra, og byggja upp heilbrigða sjálfmynd.

Er íslenskt samfélag að gera nóg?

Þó svo að kynfræðsla hafi þróast á jákvæðan hátt eigum við en langt í land. Skólar þurfa að tryggja að allir kennarar séu vel undirbúnir til þess að veita þessa fræðslu og foreldrar þurfa að taka virkan þátt í umræðunni. Ef foreldrar taka ekki þátt í kynfræðslu og tjá sig neikvætt um hana á netinu og við börnin sín, hvaða skilaboð eru þau þá að senda börnunum sínum? Eru þeir ómeðvitað að gefa til kynna að börnin hafi ekki fullan rétt yfir eigin líkama og þar með ýta undir lélegt sjálfsálit þeirra? Eða eru þau að gera góða hluti?

Ef við viljum samfélag þar sem unglingar hafa aðgengi að góðri fræðslu um kynlíf, sambönd, mörk og virðingu þurfum við að opna umræðuna um kynfræðslu í skólum betur. Vika 6 er eitt af mikilvægustu skrefunum í þá átt og frekar en að draga úr henni ættum við að styrkja hana og fræða foreldra um hvers vegna hún er nauðsynleg.

Kynfræðsla er ekki vandamálið – hún er lausnin!

Aníta Elva Sæbjörnsdóttir, nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði