„Kill them with kindness“ – Áhættuhegðun unglinga

ÞVE myndUnglingsárin eru afar áhugavert og áhrifamikið þroskaferli í lífi okkar. Urmull rannsókna, bæði íslenskra og erlendra, hafa sýnt fram á hvað skiptir mestu máli til að einstaklingur komi sem best út úr því þroskaskeiði; hverju skuli hlúa að, hvað þurfi að varast og hvað við, uppalendurnir, getum gert. Oft er markmiðið að koma í veg fyrir svokallaða áhættuhegðun eða bregðast við áhættuhegðun. En hvað er áhættuhegðun, hvernig birtist hún og hvað er til ráða?

Í mínum huga er áhættuhegðun sú hegðun sem getur skaðað þroska, sjálfsmynd eða möguleika unglinga í lífinu. Unglingar eiga það til að vera drifnir áfram af hughrifum og skyndihvötum (eigin eða annarra) sem vegna reynsluleysis eða andvaraleysis getur leitt viðkomandi á skaðlegar brautir. Rökhugsunin er ekki orðin nægjanlega þroskuð til að einstaklingur átta sig á mögulegum neikvæðum afleiðingum gjörða sinna eða samfélag unglings (vinir, umhverfi) jafnvel þannig útbúið að unglingur upplifi sig vera að gera rétt, þó uppalendur sjái það ekki svo. Birtingamyndir áhættuhegðunar, sem þessi grein fjallar aðallega um, eru fikt við vímugjafa eða félagsskapur (vinir eða makar) sem neytir vímugjafa.

Búandi yfir persónulegri reynslu af því að hafa misstigið mig í lífinu og stundað áhættuhegðun sem unglingur samhliða íþróttaiðkun sem talin er vera verndandi þáttur, geri ég mér grein fyrir því að áhættuhegðun er ekki einangrað tilvik sem hægt er að laga með því að „fjarlægja“ hegðunina. Oftast liggur eitthvað dýpra til grundvallar, eitthvað sem veldur því að auðveldara er að taka áhættuna. En stundum ekki. Hugsanlega er bara um vanþekkingu unglings að ræða og góðar upplýsingar um uppbyggilegri nýtingu frítímans auk upplýsinga um neikvæðar hliðar núverandi háttalags gagnast vel. En líklegra er þó að slík upplýsing dugi skammt. Ef unglingur trúir raunverulega að það sem hann gerir sé ekki skaðlegt, af hverju ætti hann þá að hætta því ef það er eitt af því fáa sem hann nýtur?

Til þess að láta það ekki hanga þá eru milljón atriði sem gætu verið að plaga ungling sem finnur ekkert annað til lausnar en áhættuhegðunina eða sjálfskaðann. Unglingur gæti verið þjakaður af kvíða eða þunglyndi, fundist hann vera einskis nýtur og tilgangslaus, upplifað sig ekki njóta umhyggju og nauðsynlegs stuðnings vina eða nánustu, orðið fyrir ofbeldi (andlegu eða líkamlegu), verið kvalinn af líkamlegum verkjum, upplifað sjálfan sig sem „ekki nógu góðan“ eða unglingur finnur þarna leið til að standa út úr fjöldanum, skipta máli og „vera eitthvað“. Hverjar sem ástæðurnar kunna að vera þá eru alltaf til betri lausnir á vandamálunum heldur en áhættuhegðunin. Það vitum við upplýstu uppalendurnir. Hins vegar er ég ekki svo viss um að unglingar í þessum aðstæðum viti það og oft hefur enginn upplýstur uppalandi öðlast þann sess í lífi unglingsins að geta komið skilaboðum á réttan hátt á framfæri.  Að byggja upp sjálfsmynd, stunda sjálfsrækt, geðrækt, líkamsrækt og hreyfingu. Að nærast, fá og gefa ást og umhyggju, hafa tilgang í lífinu, fá að skapa, læra aga og stefna eitthvert markvisst.

Skilningur á stöðu unglings er nauðsynlegur til að geta hugsanlega haft einhver jákvæð áhrif, núna eða síðar. Uppalandi sem ætlar sér að fjarlægja hegðun með valdi og í krafti þekkingar er spíttbátur á leið til glötunar. Virk hlustun, að skilja en ekki dæma, spyrja til að skilja og vera með unglingi í liði er grundvallaratriði. Þó er ekki þar með sagt að það þurfi að samþykkja hegðun unglings, heldur aðeins unglinginn sjálfan – því einstaklingurinn er ekki hegðunin. Og þrátt fyrir allt getur vel verið að unglingurinn vilji ekkert með þig hafa. Þá er bara að prufa aftur síðar.

Ég er svosum enginn sérfræðingur í þessum málefnum en eftir að hafa starfað með unglingum í nokkur ár og reynt margoft að „stöðva áhættuhegðun“ virðist önnur nálgun vera skynsamlegri. Að nálgast ungling með umhyggjuna að vopni, sem jafningi, og þannig leitast við að skilja stöðu unglings. Mæta honum nákvæmlega þar sem hann er. Þannig gæti myndast traust sem er algjör frumforsenda þess að geta haft einhver jákvæð áhrif. Eða eins og góður maður sagði: „Kill´em with kindness“.

 

Þorsteinn V. Einarsson

Deildarstjóri unglingasviðs

Frístundamiðstöðin Kampur