Við sitjum við eldhúsborðið og umræður snúast um „hina krakkana“ eins og börnin mín kalla þau en það eru krakkarnir sem ekki stunda íþróttir alla daga vikunnar. Hvað gera þeir unglingar sem ekki æfa íþróttir í frítíma sínum ? Þegar ég spyr 13 ára dóttur mina hvað vinir hennar í skólanum geri og hvort þau færu kannski í félagsmiðstöð skólans var svar hennar einfalt – „hvað er félagsmiðstöð“?
Ég á 2 börn á unglingsaldri sem æfa afreksíþrótt alla daga vikunnar 3-4 klst í senn og er því íþróttahúsið þeirra annað heimili. Þar eru þeirra bestu vinir og umhverfi sem þeim líður vel í. En eru íþróttabörnin mín að fara á mis við mikilvægan hluta unglingsáranna með því að verja öllum sínum tíma í íþróttahúsinu og missa því af mjög mikilvægu starfi félagsmiðstöðvanna? Ættum við kannski ekkert að vera að hvetja þau til að halda áfram sem lengst í sinni íþrótt heldur verja frekar meiri tíma með vinum og hafa þannig meiri tíma til að fara í félagsmiðstöðina því þar fá þau klárlega mjög góða fræðslu á fjölmörgum þáttum unglingsáranna sem þau fá ekki í íþróttafélagi sínu.
Eða …
Eru kannski íþróttafélögin að svara þörf fyrir félagsþroska og fræðslu það vel að þegar börnin komast á unglingsaldurinn þá finnist þeim þau ekki vera að missa af neinu sem „hinir“ vinirnir eru að gera? Gætu íþróttafélögin kannski verið með sína eigin félagsmiðstöð innan sinna veggja og þannig boðið uppá svipað starf fyrir sína krakka á þeim tímum sem að henta æfingarlega séð?
Börn og unglingar í dag æfa orðið mun meira en áður var þar sem afreksstefna er rekin nánast í hverju einasta íþróttafélagi landsins og bæði vara æfingar lengur og eru oftar í viku. Það má velta því fyrir sér hvort að íþróttafélögin sem eru með unglinga í sínum félögum ættu ekki að vera í tengslum við félagsmiðstöðvarnar og bjóða þá kannski uppá svipaða þjónustu – stað þar sem krakkarnir geta kannski sest niður eftir æfingar og spjallað saman – spilað á spil eða fengið fyrirlesara í heimsókn. Eða erum við þá farin að skipta unglingunum okkar niður í flokka þ.e. „íþróttabörnin“ og svo „hin börnin“?
Við vitum öll að íþróttafélögin vinna gríðarlega góða forvarnarvinnu fyrir samfélagið og það er óumdeilt að það að stunda íþróttir á unglingsárum seinkar drykkju og annarri áhættuhegðun en það er líka vitað að brottfall unglinga úr íþróttum er gífurlega mikið á viðkæmustu árunum þegar unglingurinn er að reyna að staðsetja sig í samfélaginu og er því mjög móttækilegur fyrir oft miður spennandi hlutum. Ég velti þess vegna fyrir mér hvort hægt væri að halda betur utan um unglinginn þegar hann vill hætta í íþróttinni sinni á unglingsaldri, kannski fresta því um einhvern tíma þar sem hvert ár skiptir jú máli? Væri auðveldara að halda utan um unglinginn ef félagsmiðstöðin og fræðslan væru innan dyra íþróttafélaganna? Þá minnkum við kannski þá hugsun að allt sé svo spennandi sem hinir eru að gera.
Ég held að það mætti skoða þennan vinkil á unglingastarfi betur og þá í samstarfi við íþróttafélögin. Ef við viljum halda unglingnum sem lengst í tengslum við íþróttir því þær eru jú hin besta forvörn þá þyrfti kannski að skoða tengingu við félagsþáttinn aðeins betur og þá hvernig megi tengja þetta tvennt betur saman. Það að íþróttaunglingurinn minn horfi stórum spurnaraugum á mig þegar ég spyr hvort unglingarnir fari í félagsmiðstöðina í skólanum gefur mér vísbendingu um að íþróttakrakkarnir sem stunda hennar íþrótt séu alveg aftengd öllu félagslífi innan skólans því miður.
Nú eða er ég kannski bara alveg á villigötum með þetta allt og eru börnin mín kannski að missa af öllu því skemmtilega sem unglingsárin bjóða uppá af því þau stunda afreksíþrótt. Er ég vonda mamman að vera ekki búin að taka þau hreinlega úr þessum miklu æfingum ?
—
Guðrún Bjarnadóttir, snyrtifræðimeistari og nemandi á menntavísindasviði Háskóla Íslands.