Ímyndaðu þér ungling sem stendur einn fyrir utan félagsmiðstöð eða skóla og hikar við að labba inn vegna hræðslu við útskúfun eða fjandsamlegar athugasemdir frá jafnöldrum. Þetta er raunveruleiki margra hinsegin unglinga á Íslandi í dag. Þrátt fyrir að við sem samfélag höfum áratugum saman unnið að því að tryggja jafnrétti þá sjáum við í dag bakslag hvað varðar réttindi hinsegin fólks. Ekki aðeins hér á landi heldur einnig víða um heim.
Margir muna eflaust eftir því þegar regnbogafánar voru rifnir niður víða um höfuðborgarsvæðið á Hinsegin dögum fyrir fáeinum árum. Þá sjáum við svart á hvítu hvernig dregið hefur verið úr réttindum hinsegin fólks í Bandaríkjunum með tilkomu nýrra laga á undanförnum mánuðum! Þar má nefna bann við kynjafræðslu í skólum og takmarkanir á aðgengi að heilbrigðisþjónustu fyrir trans fólk.
Ekki er staðan í Úganda betri en fyrir tæpum tveimur árum voru tekin upp lög þar í landi sem segja að HIV-smitaðir einstaklingar sem hafa stundað samkynja kynlíf geti átt yfir höfði sér dauðarefsingu. Aukin hatursorðræða, fordómar, mismunun og ofbeldi draga úr þeim framförum sem hafa átt sér stað í þessum réttindamálum á síðustu áratugum.
Ísland hefur oft verið til umfjöllunar fyrir að vera á meðal þeirra fremstu í réttindabaráttu hinsegin fólks en því miður er það ekki staðan eins og einhverjir vilja meina. Þá hafa umræður á milli unglinga á samfélagsmiðlum orðið enn grimmari þar sem hinsegin ungmenni verða sífellt oftar fyrir persónulegum árásum. En þegar orðræðan verður eitraðri og fordómar sífellt meira áberandi eru hinsegin unglingar í aukinni hættu á að forðast félagslega starfsemi sem áður var öruggt rými til að vera þau sjálf. Þeir sem áður gátu leitað í örugg rými eins og félagsmiðstöðvar, skólana eða íþróttafélög upplifa nú mörg að þau séu ekki lengur örugg. Einangrun og einmanaleiki eru því raunverulegur vandi sem þessi hópur stendur frammi fyrir.
Þegar unglingur fær þau skilaboð að hann passi ekki inn í umhverfið sitt, hvað gerist þá? Hinsegin unglingar eru í meiri hættu á að upplifa vanlíðan, þunglyndi og kvíða en önnur ungmenni. Þá eru sjálfsvígshugsanir og sjálfsskaði einnig algengari meðal þeirra. Við getum ekki leyft þessu að gerast án þess að grípa inn í.
Íslensk stjórnvöld hafa sett fram aðgerðaráætlun til að styðja hinsegin fólk og málefni þeirra. Hluti áætlunarinnar er að auka áhersluna á kynja- og hinseginfræðslu í skólum landsins, styrkja samtök sem vinna að hagsmunum hinsegin fólks og auka eftirlit með hatursorðræðu. Eftirfylgni með aðgerðunum er nauðsynleg og skólakerfið þarf að tryggja að fræðsla skili sér raunverulega til allra nemenda. Margir hinsegin unglingar upplifa enn skort á stuðningi innan skólakerfisins, þar sem kennarar og starfsfólk hafa ekki nægilega þjálfun í að bregðast við einelti og hatursorðræðu eða eru jafnvel gjörn að líta framhjá þeim.
Hvert er okkar hlutverk í þessu?
Aðgerðir stjórnvalda eru svo sannarlega skref í rétta átt, en að mínu mati ekki nægjanlegar einar og sér. Hver og einn getur lagt sitt af mörkum í þessari baráttu með því að standa gegn hatursorðræðu, grípa inn í þegar við verðum vör við fordóma og neikvæða orðræðu og styðja hinsegin ungmenni í samfélaginu.
Hinsegin unglingar hafa sama rétt og aðrir hópar samfélagsins til að vera þau sjálf án þess að þurfa lifa í ótta. En ef við sem fullorðnir einstaklingar stöndum hjá og gerum ekki neitt, þá munu málin einungis versna. Við sem samfélag verðum að tryggja að ungt hinsegin fólk finni fyrir öryggi, virðingu og stuðningi – ekki aðeins með orðum, heldur einnig með aðgerðum.
Ætlum við að standa hjá eða grípa inn í?