Ég er starfsmaður í félagsmiðstöð og er það yndisleg vinna. Ég hef alltaf haft mikla ástríðu fyrir því að vinna með unglingum. Ég var frekar viss um það, þegar ég var sjálf unglingur, að ég vildi vinna í félagsmiðstöð þegar ég yrði eldri. Ég sótti mikið í mína eigin félagsmiðstöð sem unglingur og leit mikið upp til starfsmannana, og er það líklega ein af mörgum ástæðum af hverju ég vildi vinna á þessum vettvangi.
Þegar ég var unglingur hélt ég að starfsmenn félagsmiðstöðva væru í bestu vinnu í heimi. Ég sá þau leika sér allan daginn og hafa gaman, ég meina hversu geggjuð vinna! Ég lærði það þegar ég byrjaði sjálf að vinna í félagsmiðstöð að starfið felur svo miklu meira í sér en það. Maður hefur oft fengið spurninguna: Hvað gerirðu í vinnunni? Ertu ekki bara að leika þér með krökkunum? Jú, þótt maður fari stundum í borðtennis eða pool í vinnunni er það ekki bara til að skemmta sér heldur oftar en ekki er það okkar leið til að ná góðu og innihaldsríku spjalli við krakkana. Á þessum mómentum ertu að tengjast unglingnum betur og einnig að byggja upp traust.
Að vera félagsmiðstöðvastarfsmaður er virkilega skemmtilegt og gefandi starf en á sama tíma getur það verið krefjandi. Við sem fagfólk í starfi erum að gera okkar besta til að vera til staðar fyrir krakkana í hverfinu. Mörg þeirra þurfa mikið á því að halda, því við getum öll verið sammála um það að það er ekki auðvelt að vera unglingur í dag. Við þurfum að vera sterkar fyrirmyndir og við hlustum á þau. Starfsmenn félagsmiðstöðva mæta unglingunum á jafningjagrundvelli sem gerir það að verkum að þau þora meira að opna sig um allskonar hluti. Í félagsmiðstöðvastarfi er áhersla lögð á forvarnir og gilda reglur gegn óæskilegri hegðun, eins og vímuefnanotkun.
Það fer mikill undirbúningur í að skipuleggja starf í félagsmiðstöð. Það getur verið allt frá því að skipuleggja fræðslu eða að greina hópinn sem mætir og sjá hverjir eru mögulega félagslega einangraðir frá jafnöldrum sínum. Í þessu tilviki vinna félagsmiðstöðvastarfsmenn saman til að finna lausn á vandamálinu og setja sig inn í aðstæður til að tengjast unglingnum betur. Félagsmiðstöðvastarf skiptist meðal annars í opið starf og hópastarf. Í opnu starfi eru allir velkomnir og unglingurinn sækir starfið á sínum eigin forsendum og fær að eyða sínum frítíma í það sem hann vill. Í opnu starfi reyna starfsmenn að ná góðu spjalli við sem flesta og gera sitt besta til að viðhalda jákvæðu og uppbyggjandi andrúmslofti innan veggja félagsmiðstöðvarinnar. Viðburðir og fræðsla eru einnig stór partur af opnu starfi. Hópastarf eða klúbbastarf eins og það er oft kallað, er tækifæri fyrir unglinga til að starfa í minni hópum sem tengjast áhugamálum þeirra. Fagaðilar leiðbeina hópnum að einhverju sameiginlegu markmiði. Þátttaka í hópastarfi getur bæði verið fyrir alla þá sem vilja vera með, en hins vegar í svokölluðu sértæku hópastarfi, þurfa fagaðilar að velja einstaklinga í hópinn sem gætu t.d. verið að sýna áhættuhegðun eða eru félagslega einangraðir.
Hér að ofan eru nokkur dæmi um dagleg verkefni sem félagsmiðstöðvastarfsmenn takast á við. Ég er virkilega þakklát fyrir vinnuna mína því hún getur verið ótrúlega gefandi og skemmtileg. Að lokum vil ég svara spurningunni hvort ég sé ekki alltaf að leika mér í vinnunni? Svarið er auðvitað já, en vonandi fékkst þú kæri lesandi betri innsýn í mitt starf því eins og þú hefur lesið hér að ofan þá inniheldur starfið mitt svo miklu meira en bara að ,,leika mér“ í vinnunni.
—
Harpa Rós Guðmundsdóttir