Í Morgunblaðinu 9. febrúar sl. birtist frétt þess efnis að Hafnarfjarðarbær hafi fyrst sveitafélaga ráðist í verkefni sem miðar að því að samræma starfstíma í leik- og grunnskólum bæjarins með það að markmiði m.a. að fjölga fagfólki í leikskólum og auka sveigjanleika. Þar er viðtal við Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnafjarðar, og einnig Harald F. Gíslason formann félags leikskólakennara (FL). Í téðri grein segir m.a: ,,Stærsta breytingin er að frá 15. desember sl. er starfsár starfsfólks í Félagi leikskólakennara og annars háskólamenntaðs starfsfólks innan leikskóla Hafnarfjarðarbæjar orðið sambærilegt starfsári grunnskólakennara“.
Síðar í sömu grein segir: ,,Samhliða er unnið að endurskipulagningu á starfsári leikskólanna með það fyrir augum að færa skipulagið nær skipulagi grunnskólastarfsins með virku og faglegu námi stóran hluta ársins og faglegu tómstunda- og frístundastarfi með öðruvísi áherslum þar fyrir utan“ (leturbreyting mín).
Nú velti ég fyrir mér hvort það hafi farið fram hjá bæjarstjóra Hafnarfjarðar og formanni FL að í Háskóla Íslands er kennd Tómstunda- og félagsmálafræði, 180 eininga nám til BA sem hefur séð um menntun fjölda tómstunda- og félagmálafræðinga sem starfa á vettvangi frítímans. Einnig velti ég því fyrir mér hvort þau viti ekki að faglegu frístundastarfi innan t.d. frístundaheimila og félagsmiðstöðva er stýrt af háskólamenntuðu fagfólki.
Ég hef leitað víða og reynt að fá fram hver birtingamynd faglegs frístundastarf á leikskólum verður með þessum breytingum. Mér hefur ekki orðið ágengt. Ef markmiðið er að opna á nýjan starfsvettvang fyrir fagfólk á vettvangi frítímans, með áherslu á gildi leikskóla- og frístundastarfs, er FFF, Félag fagfólks í frítímaþjónustu, og námsleiðin í Tómstunda- og félagsmálafræði örugglega meira en til í samtalið. Hins vegar virðist það ekki vera markmiðið með þessum breytingum, eins og þetta blasir við mér og fleirum sem hafa starfað sem fagfólk á vettvangi frítímans til margra ára, er einungis verið að bæta starfsaðstæður einnar stéttar með því að nýta ófagmenntað fólk undir merkjum faglegs tómstunda- og frístundastarfs! Svoleiðis starf kallast gæsla en ekki faglegt frístundastarf sem gerir jafnframt lítið úr frístundastarfi og heilli fagstétt í leiðinni.
Félag fagfólks í frítímaþjónustu hlýðir sannfæringu sinni og notar sérþekkingu sína til að ráðleggja öðrum eins og segir í siðareglum félagsins. Þar segir líka að fagfólk í frítímaþjónustu „virðir og treystir sérþekkingu annarra faghópa þegar við á“. Það er góð regla sem fleiri mættu tileinka sér.
—
Heiðrún Janusardóttir,
tómstundafræðingur og félagi í FFF