Við viljum að unglingarnir okkar verði einhvern tíma fullorðin. En erum við að skapa öllum unglingunum okkar sömu tækifæri til að verða fullorðin? Við erum að gera samfélaginu okkar erfitt fyrir með því að skipuleggja frístundastarf fyrir fatlaða unglinga á þann hátt sem við gerum núna.
Fatlaðir unglingar hafa ekki aðgang að nákvæmlega sama frístundastarfi og aðrir unglingar hafa. Dæmi um þetta eru frístundaklúbbar fyrir 10 – 16 ára unglinga sem eru einungis opnir á daginn eftir skóla en ekki líka á kvöldin eins og venjan er með félagsmiðstöðvar. Einnig eru unglingarnir skráðir á ákveðna daga en fá ekki að valsa inn og út eins og þeim hentar. Það er með öðrum orðum verið að setja fatlaða unglinga í samskonar box og börn í 1.-4. bekk sem sækja frístundaheimili. Það sjá það vonandi sem flestir hversu arfavitlaust það er og styður við ríkjandi staðalmyndir um fatlað fólk sem ósjálfbjarga eilíf börn en ekki unga og fullorðna sjálfráða einstaklinga. Þetta skipulag hlýtur að leiða það af sér að fatlaðir unglingar fá ekki að verða unglingar á sama hátt og í sama umhverfi og ófatlaðir unglingar. Það hefur komið fram í rannsóknum að fatlaðir unglingar hafa skert aðgengi að unglingamenningu og hljóta því að vera að missa af lestinni hvað varðar að verða fullorðin því öll erum við unglingar áður en við verðum fullorðin.
Það eru þó fleiri sem missa af lestinni en fatlaðir unglingar, allir unglingar eru að missa af einhverju í því skipulagi sem við búm við í dag. Rannsóknir hafa sýnt að ófatlaðir unglingar hafi ekki þekkingu á fötlunarhugtökum og vita lítið sem ekkert um þann margbreytileika sem fötlun skapar í samfélaginu okkar. Fyrir vikið eru þau hrædd og hikandi þegar kemur að samskiptum við fatlað fólk og ekki síst jafnaldra sína. En þau vilja fræðsluna og þekkingu á því hvað það þýðir að vera fatlaður unglingur og hvaða orðanotkun sé í lagi í samskiptum við fatlaða unglinga. Þau vilja hafa sjálfstraust í að umgangast alla. En með aðgreindum úrræðum og lítilli sem engri fræðslu umgangast fatlaðir og ófatlaðir unglingar ekki hvert annað af ótta við að haga sér á rangan hátt, verða fyrir aðkasti og fordómum eða falla ekki inn í hópinn.
Af hverju geta allir unglingar ekki bara fengið að vera saman? Hefur einhver spurt ófötluðu unglingana hvort þau vilji hanga með fötluðu unglingunum í félagsmiðstöðinni eða er kerfið bara búið að gera ráð fyrir því að fötluðu unglingarnir geti ekki verið með öðrum jafnöldrum sínum og hafi ekki áhuga á svipuðum hlutum og þau? Með þessu aðgreinda úrræði sem frístundaklúbburinn er hefur kerfið tekið ákvörðun fyrir fjölda unglinga að þeim forspurðum.
Það má því segja að þetta séu fordómar gagnvart öllum unglingum, bæði fötluðum og ófötluðum, fötluðu unglingarnir geti ekki og ófötluðu unglingarnir vilji ekki. Hér er um að ræða aldursfordóma annarsvegar sem felast í því að það skiptir ekki máli að þeirra rödd heyrist því þau eru hvort sem er svo ung og vitlaus og hæfisfordómar hinsvegar sem felast í því að samfélagið virki í kringum ófatlað fólk og því er sjálfkrafa gert ráð fyrir því að fatlaðir unglingar sé ekki á sama báti og ófatlaðir unglingar og því þurfi að búa til eitthvað nýtt úrræði handa fötluðu unglingunum.
Við erum með upplagt tækifæri í höndunum, að geta sameinað alla unglinga á jafnréttisgrundvelli en við erum að klúðra því með því að aðgreina unglingana með þessum hætti. Við sem samfélag gerum unglingana okkar að betra fólki ef við bara gefum þeim tækifæri til að reyna sig með öðru fólki, ekki síst fólki á þeirra aldri. Ef við gefum þeim ekki tækifæri til þess erum við að gera þeim mikinn óleik fyrir þeirra framtíð.
Við ættum ekki að skipuleggja starf sem mismunar unglingunum okkar á forsendum fötlunar. Skipuleggjum starf þar sem er pláss fyrir alla og margbreytileikinn er í fyrirrúmi.
—
Alexander Harðarson, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands