Þegar talað er um íþróttir og unglinga hugsa flestir um heilsusamlega afþreyingu. Hins vegar fylgir notkun munntóbaks oftar en ekki íþróttum nú til dags. Það er mest áberandi í fótboltaheiminum en teygir einnig anga sína í aðrar íþróttir svo sem handbolta og körfubolta. Þessar greinar eiga það sameiginlegt að vera hópíþróttir þar sem það skiptir máli að vera samþykktur af þeim sem eru í hópnum. Ætla má að jafningjaþrýstingur hafi mikil áhrif á notkun munntóbaks og nýliðar horfi til þeirra sem fyrir eru.
En einhvers staðar byrjaði notkunin. Munntóbak virðist hafa fest sig í sessi þannig að í fyrstu hafi lumman verið tekin sem verðlaun eftir leik en þróast þannig að lumman fylgdi einnig æfingum. Í dag er munntóbak orðið algeng sjón. Þó svo að munntóbak sé ólöglegt hér á landi þá er það samt viðurkennt. Hérlendis er neftóbak notað sem munntóbak. Það er ýmist sett beint undir efri vör með nálarlausri sprautu eða baggið búið til með því að pakka munntóbaki í klósettpappír og setja undir efri vör. Í partýum nú til dags er algengt að sjá munntóbaksnotkun ásamt áfengisneyslu eða yfirhöfuð þar sem ungt fólk kemur saman.
Íþróttahreyfingin hefur síðustu ár staðið fyrir fræðslu um hættur tóbaksnotkunar meðal unglinga. Sem dæmi má nefna að Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ), Jafningjafræðslan og Lýðheilsustöð stóðu að herferð árið 2010 gegn notkun munntóbaks undir slagorðinu „Bagg er bögg“. Átakinu var ætlað að sporna við aukinni munntóbaksnotkun hjá ungu fólki og var áhersla lögð á unga knattspyrnuiðkendur. KSÍ hefur einnig unnið með slagorðið Á toppnum án tóbaks. Þetta virðist ekki hafa orðið til þess að neysla baggs hætti þó hugsanlega hafi það haft einhver áhrif á þróun mála. Á milli íþrótta og munntóbaks er eins og áður sagði mótsögn. Talið er að 28 krabbameinsvaldandi efni séu í munntóbaki. Sá sem notar 10 grömm af tóbaki á dag í munninn fær í sig þrefalt meira af krabbameinsvaldandi efnum en sá sem reykir pakka af sígarettum á dag. Það segir okkur að munntóbak er óþverri sem betra er að sleppa. Þetta rennir stoðum undir slagorðið Bagg er bögg.
Það vekur athygli að ein af helstu upplýsingaveitum landsins um þessar mundir er snjallforritið Lumman. Með því er verið að segja við samfélagið að bagg/lumma sé í lagi. Börn jafn sem fullorðnir nýta sér þennan vef. Þannig venjast börn við það að lumma sé tengt fótbolta og eru því hugsanlega opnari fyrir lummunni þegar þeim býðst hún seinna á lífsleiðinni. Færa má rök fyrir því að þannig festist baggið enn frekar í sessi. Áhugavert er að setja þetta í samhengi við að á unglingastigi er unnið gegn vímuefnanotkun með ýmsum hætti, t.d. tóbakslaus bekkur. Sé horft til rannsókna þá sýna niðurstöður að við höfum náð góðum árangri í þeim aldurshópi. Baggið er hins vegar meira áberandi á framhaldsskólastigi. Sama á reyndar við um önnur vímuefni. Hér þarf greinilega að halda betur á málum að minnsta kosti hvað varðar ólögráða börn.
Er þá baráttan gegn baggi töpuð? Verðum við að sætta okkur við að lumma sé hluti af íslenskri fótboltamenningu? Getur verið að ungu fólki í dag finnist bagg ekki vera bögg?
—
Karitas Sumati Árnadóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands