Tíminn líður og er margt sem breytist með honum. Það sem áður hefur verið talið ,,eðlilegt” er ekki samþykkt í dag og öfugt. Eitt af því sem breytist með tímanum er mannfólkið. Það er í okkar eðli að aðlagast nýjum hlutum. Tæknin er þróaðri og betri, fólk og mörg málefni opnari. Áður hefur kynlíf og klám verið taboo og enginn talað opinskátt um það. Það er mikilvægt að unglingar fái næga og góða kynfræðslu því kynlíf getur verið stór partur í lífi okkar. En hvað er góð kynfræðsla og hvar afla unglingar sér upplýsinga? Í þessari grein ætla ég að fjalla um klám og unglinga. Horfa unglingar á klám? Nota þau klám sem kynfræðslu? Hvernig áhrif hefur klám á unglinga?
Unglingar eru í þeim aldurshópi þar sem að orðið ,,kynlíf” hljómar mjög spennandi. Þau fara ýmsar leiðir til að afla sér upplýsinga. Kynlíf er ekki málefni sem er talað opinskátt um inni á öllum heimilum. Forvitni hjá unglingum er eðlileg og oftast nær leita þau t.d. í klám til að prófa sig áfram og læra meira. Hefur klám jákvæð áhrif og býr það kannski til sveigjanlega hugsun varðandi kynlíf hjá unglingum eða hefur það skaðleg og neikvæð áhrif? Mikil klámnotkun getur þróast út í t.d. klámfíkn, sem getur haft áhrif á geturaskanir, myndað slakari sjálfsmynd, viðhorfsbreytingar á bæði ofbeldi, sambönd, kynlíf og félagsþroska. Þegar unglingar reyndu að nálgast klám hér áður fyrr stálust þeir í klámblöð og klámmyndir eða fundu einhverjar aðrar leiðir. Ein mynd gat verið ótrúlega spennandi fyrir einstakling, því svona efni var svo sjaldgæft á þeim tíma.
Í dag geta unglingar nálgast margs konar klámsíður bara með því að fara inn á netið í næsta snjalltæki. Það er allt frítt og ekkert eftirlit. Því meira klám sem unglingar horfa á, því meiri líkur eru á að myndast geti þol á ákveðnu klámefni og að unglingar leiti í enn grófara klám til að fá jafn sterk viðbrögð og áður. Þeir geta lent í því að þurfa meira og meira. Þetta getur leitt til þess að viðkomandi muni eiga í erfiðleikum með að fá fullnægingu í kynlífi og hafi minni kynhvöt og vilja til að stunda kynlíf með maka sínum. Unglingar sem horfa á klám í miklu magni virðast vera líklegri til þess að þurfa klám í kynlífi til að viðhalda spennunni og kynferðislegri örvun. Sumir ímynda sér klám senur til að geta notið sín betur. Mikil klámnotkun getur haft slæm áhrif á heilann hjá unglingum og getur leitt af sér tengslaraskanir og myndað stór tilfinningaleg bil á milli einstaklinga. Það er eðlilegt að svona hlutir gerist þegar einstaklingurinn venst ákveðnum ,,grófum” hlutum og að allt annað byrji að vera óspennandi. Annað sem kemur fram er að viðhorf unglinga um kynlíf eru ólík þeim sem þeir hafa fengið frá foreldrum, vinum og skóla. Klám sýnir brenglaða hugmynd um hvernig kynlíf á að vera. Klám getur líka breytt viðhorfi fólks hvað varðar ofbeldi.
Einnig geta unglingar þróað með sér margs konar hugsanir varðandi líkaman sinn og verið með slaka sjálfsmynd, því við höldum að klám geti gefið okkur hugmynd um hvernig við eigum að líta út. Karlar vöðvastæltir og sterkir, með auðvitað stór kynfæri, og konur grannar með stóra afturenda og brjóst. Það að vera óöruggur og með slaka sjálfsmynd kemur í veg fyrir að einstaklingur njóti sín í kynlífi, því hann eru allt of upptekin af útliti sínu. Það sem er gríðalega mikilvægt er að unglingar fái að skilja það að klám er handrit og að það eru leikarar sem leika það sem fá pásu á milli atriða. Þar er ekki sýnd raunveruleg mynd og því ekki rétt að miða sitt kynlíf við klám og læra af því. Ljósin eru stillt og margs konar tækni notuð svo þetta líti allt fullkomlega út. Ef að eitthvað klúður gerist, þá klippa þau það út og við áhorfendur fáum aldrei að sjá það.
Kynlíf er eitthvað sem á að bæta lífsgæði en ekki valda áhyggjum og erfiðleikum. Hver fyrir sig ætti að upplifa kynlíf á sinn hátt og njóta þess og gera það á sínum eigin forsendum. Það er mikilvægt að unglingar viti það að hver upplifun er einstaklingsbundin, kynlíf er frjálst og það er ekkert eitt sem er rétt. Við megum prófa okkur áfram eins og við viljum, því þessi ,,leikur” hefur engar reglur. Við fullorðna fólkið ættum að hjálpast að við að stoppa þessar röngu hugmyndir um hvað kynlíf er og opna nýjan ,,kafla” sem mun sýna þeim heilbrigða og rétta mynd af kynlífi.
—
Angela Lovik