Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort að unglingar eigi að vinna með námi eða bara skólafólk yfirhöfuð. Þegar ég var á 14. árinu mínu, var ég ekki að æfa neinar íþróttir og var ekki þátttakandi í frístundastarfi svo ég hafði mikinn frítíma, fyrir utan að læra heima. Sama ár fór ég fyrst á vinnumarkaðinn og starfaði sem kassastarfsmaður í Krónunni, af því að ég valdi það sjálf. Ég velti því fyrir mér hvort það hafi verið þess virði að byrja að vinna svona ung. Að sjálfsögðu hafa ekki allir tækifæri eða tíma til þess að vinna með námi og eru því bæði kostir og gallar við það. Aðstæður hjá unglingum eru mjög mismunandi, sumir þurfa jafnvel að vinna til að hjálpa foreldrum með kostnað heimilisins, aðrir vilja vinna til að eignast sinn pening, og svo eru einhverjir sem hafa engan tíma til að vinna vegna þátttöku í íþrótta-og tómstundastarfi eða þá að þau vilja eða nenna því ekki.
Ef ég lít til baka þá finnst mér það að hafa byrjað svona snemma að vinna frábær reynsla. Ég fékk tækifæri á að verða sjálfstæðari, lærði að bera ábyrgð á peningunum mínum og þurfti ekki að vera upp á foreldra mína komin. Ég vann ekki mikið og launin voru ekki mjög há, en ég gat þó átt þann möguleika á að eiga smá vasapening og þegar ég varð eldri gat ég keypt það sem mig langaði í. Í dag finnst mér allt of mikið um að unglingar hafi alltof mikinn frítíma, eru ekki að vinna neitt en fá samt allt sem þá langar í án þess að hafa fyrir því. Margir byrja í bæjarvinnuni í sínu sveitarfélgi og finnst mér það frábær byrjun, þrátt fyrir að launin séu kannski ekki há. Það er einnig kjörið tækifæri fyrir þá sem hafa ekki tíma samhliða skóla að fá smá pening. Vinnan þarf ekki að vera mikil en að vinna einhvað smá hjálpar þeim að þroskast og þau þurfa minna að vera háð foreldrum sínum ef þau langar í eitthvað. Auk þess er það að vinna frábær félagsskapur, því þú kynnist mikið af nýju fólki sem starfar með þér.
Í mínu bæjarfélagi var ekki margt í boði þegar ég var að sækja um og því voru margir að vinna með mér sem voru jafnaldra mér, ég held að það hafi verið hvatningin fyrir að nenna að vinna með skóla. Vinnan tók ekki mikinn tíma sem ég átti fyrir utan skóla, þar sem að ég vann eitt kvöld í viku og aðra hvora helgi, en fékk samt nóg hver mánaðarmót til að eiga smá pening. Mér finnst það vera svolítið á ábyrgð foreldra að hvetja unglingana sína til að byrja að vinna en ekki gefa þeim allt án þess að þau geri neitt í staðinn. Með því læra þau seint að öðlast sjálfstæði og ábyrgð á sínum fjármálum, sem getur jafnvel reynst þeim erfitt seinna meir. Ég er meira að tala um þá sem eru ekki að æfa neitt eða taka þátt í tómstundastarfi og hafa mikinn frítíma. Þetta er mjög persónubundið og fer eftir hverjum og einum.Vinnan má alls ekki vera of mikil þannig að það bitni á náminu, það þarf að skipuleggja sig vel, hafa nægan tíma og vilja til að vinna þannig að allt gangi vel.
—
Anna Jóna Helgadóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði