Félagsmiðstöð á faraldsfæti

Una Hildardóttir Í kjölfar fordæmalausra atburða í nágrenni Grindavíkur hefur 3700 manna samfélag verið á hrakhólum í rúma fimm mánuði. Opnaðar hafa verið þjónustumiðstöðvar fyrir íbúa bæði í Reykjavík og Reykjanesbæ og hafa íþróttafélög, Strætó auk annara aðila lagt sig fram við að tryggja grindvískum börnum aðgengi að áframhaldandi íþrótta – og tómstundastarfi. Félagsmiðstöðin Þruman, sem áður var starfrækt í Grindavík, er einn af þeim vinnustöðum Grindavíkurbæjar sem enn er á faraldsfæti og ríkir mikil óvissa um. Starfsfólk þess leggur sig allt fram til þess að halda starfinu gangandi á lausnarmiðaðan hátt.

Starf félagsmiðstöðva er mikilvægt og skiptir aðgengi að öruggu rými, samvera með jafnöldrum og tengsl við starfsfólk þar hvað mestu máli. Félagsmiðstöðinni Þrumunni hefur tekist að halda úti starfsemi í húsnæði félagsmiðstöðva á höfuðborgarsvæðinu og boðið upp á lokaða viðburði fyrir ungmenni frá Grindavík sem og opna viðburði. Er ávallt tryggt að starfsfólk Þrumunnar sé á staðnum svo hægt sé að viðhalda þeim samböndum sem myndast hafa á milli starfsmanna og ungmennana. Á opnum viðburðum geta þau sem reglulega sækja í félagsmiðstöðvarnar sem hýsa Þrumuna þá vikuna verið með og eru starfsmenn þeirra sömuleiðis á svæðinu. Í febrúar voru slíkir viðburðir skipulagðir í Kópavogi, Laugalækjarskóla, Reykjanesbæ og víðar. Má því segja að félagsmiðstöðin Þruman sé á faraldsfæti um allt stórhöfuðborgarsvæðið til þess að tryggja aðgengi flestra óháð núverandi staðsetningu hvers og eins en einnig eru skipulagðir viðburðir utan félagsmiðstöðvar, t.d. hópferðir í Klifurhúsið, Minigarðinn og á körfuboltaleiki.

Samfella í aðlögunarferli eða starfsemi á hrakhólum?
En er verið að mæta þörfum þeirra ungmenna sem áður sóttu félagsmiðstöð í sínum heimabæ, sem nú ríkir töluverð óvissa um? Því er erfitt að svara og verður að taka framtíðarhorfur heils bæjarfélags með inn í reikninginn. Ef ætlunin er að aðstoða ungmennin við að aðlagast nýrri félagsmiðstöð eftir flutninga er flakkandi félagsmiðstöð líklegast góð nálgun í aðlögunarferlinu. Með því að kynna þeim fyrst fyrir rýminu á lokuðum viðburðum inni í nýrri hverfisfélagsmiðstöð fá þau tækifæri til þess að upplifa öryggi undir handleiðslu leiðbeinanda sem þau þekkja úr fyrra starfi. Á opnum viðburðum fá þau síðan tækifæri til þess að kynnast jafnöldrum og starfsmönnum á svæðinu og fá að venjast nýjum raunveruleika með gömul andlit sér til halds og traust.

Það hafa þó ekki allir Grindvíkingar gefist upp á hugmyndinni að fá að snúa aftur í heimahagana og hefja uppbyggingu sem fyrst. Ef það verður framvindan, væri þá ekki mikilvægara að tryggja félagsmiðstöðinni fasta aðstöðu, t.d. í Tollhúsinu þar sem bæjarbúar geta nú þegar sótt sér þjónustu í stað þess að starfrækja félagsmiðstöð á hrakhólum? Slíkt úrræði myndi tryggja samfellu í þjónustu við þau ungmenni sem voru reglulegir gestir í félagsmiðstöðina fyrir rýmingu. Það kemur því ekki á óvart að samvera var ofarlega í huga 6-17 ára barna úr Grindavík sem funduðu með umboðsmanni barna þann 7. Mars síðastliðin og að eitt áhersluatriði í bréfi þeirra til bæjarstjórnar hafi verið sérstök félagsmiðstöð fyrir börn úr Grindavík.

— 

Una Hildardóttir, nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði