Nýlega var fjallað um í fréttunum að vísa ætti hinum 17 ára gamla Maní, ásamt fjölskyldu hans úr landi. Forsaga málsins var sú að fjölskyldan flúði heimaland sitt, Íran, vegna ofsókna, faðirinn hafði kennt japanska hugleiðslu, sem kallast Reiki, og yfirvöld í Íran töldu það vera guðlast og héldu einnig að faðirinn ynni gegn ráðandi stjórnvöldum. Óttaðist fjölskyldan um líf sitt, henni var hótað hrottalegu ofbeldi, fjölskyldufaðirinn var settur í fangelsi þar sem hann var pyntaður og honum, og fjölskyldu hans, hótað lífláti.
Eftir að faðir Manís losnaði úr fangelsi, flúði fjölskyldan til Portúgals, en þar fundu þau að þau væru ekki örugg, og óttuðust að þau myndu finnast og það sem var verra, að vera send aftur til Íran. Þau komu því hingað til Íslands og hafa búið hér á landi í um eitt ár. Hér finnst þeim þau vera örugg og upplifa frelsi, því Maní þorði loksins að segja foreldrum sínum að hann væri í raun drengur, en ekki stúlka. Hefði hann sagt frá því í Íran, hefði það aldrei verið samþykkt af írönskum yfirvöldum.
Maní sagði sjálfur í viðtali að hér á landi væri hann bæði öruggur, frjáls og mætti gera það sem hann vildi, mætti vera eins og hann vildi og læra það sem hann vildi.
En því miður fengu þau ekki hæli hér á landi, samkvæmt stjórnvöldum, þó þau hafi búið hér í um rúmt ár, og að Maní hafi eignast góða vini á þessum tíma sem hann hefur verið hér og til stóð að senda þau úr landi þann 17. Febrúar s.l. Það varð allt brjálað, mótmælendur komu saman við Dómsmálaráðuneytið og mótmæltu því harðlega að senda ætti hann úr landi. Meðal þeirra sem mótmæltu voru kennarar, nemendur og starfsfólk Samtakanna 78. Framkvæmdarstjóri Samtakanna 78 sagði að ef Maní yrði sendur úr landi, væri andlegri heilsu hans stefnt í hættu, og enn fremur sagði ráðgjafi hjá samtökunum að ef hann færi aftur til heimalandsins, myndi hann ekki lifa af. Maní var lagður inn á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) vegna alvarlegrar andlegrar heilsu, og var hann því ekki sendur úr landi daginn sem það átti að gerast. En svo var sagt að hann yrði sendur úr landi eftir að hann væri útskrifaður af BUGL.
Hvar er mannúðin? Hvar er manngæskan? Í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna kemur meðal annars fram að börn eiga rétt á að tjá sig, rétt á að láta skoðanir sínar í ljós og hafa áhrif, félagafrelsi, stuðningi og viðeigandi þjónustu, þ.e. ef um flóttamannabörn er að ræða, og vernd gegn brottnámi.
Er það réttlátt að senda trans ungmenni aftur til heimalandsins? Stysta og einfaldasta svarið væri án efa nei, því í þessu tilfelli er verið að tala um 17 ára gamalt trans ungmenni, sem óttast um öryggi sitt verði hann sendur aftur til heimalands síns þar sem hann á mögulega eftir að verða pyntaður og hótað bæði nauðgunum og lífláti, bara vegna þess að samkynhneigð er hvorki samþykkt né leyfileg í heimalandi viðkomandi.
Berjumst fyrir því að Maní og fjölskylda hans fái að vera hér áfram, annað væri bara mannréttindarbrot og einnig brot á Barnasáttmálanum.
—
Bryndís Ýrr Yngvarsdóttir