Sjálfsmynd unglinga á unglingsárunum er gríðarlega mikilvæg. Ég tel hana vera grunninn að farsælli framtíð. Hún er í stanslausri þróun í takt við samtíman, aðstæður, umhverfið, félagslíf og tæknivæðingu. Það má segja að mótun sjálfsmyndar stoppar aldrei, heldur er hún ævilangt ferli sem er sífellt í gangi. Fullorðnir einstaklingar eru ennþá í dag að finna út úr því hverjir þeir eru, svo þetta liggur ekki aðeins hjá unglingum en það má segja að hún sé hvað mest í mótun á þessum árum.
Á unglingsárunum velta unglingar því oft fyrir sér hverjir þeir eru, hvað þeim finnst gaman að gera, hvernig þau öðlist betra sjálfstraust og hvað það er sem gerir þá að þeim einstaklingum sem þeir eru. Á þessum árum geta þeir átt við sveiflukenndar tilfinningar sem valda því að sjálfsmyndin er kannski ekki alltaf sú sama. Hún getur flakkað á milli þess að vera góð á einum tímapunkti, en léleg á öðrum og er það fullkomnlega eðlilegt.
Í dag er mikið talað um hvað sjálfsmynd unglinga sé orðin slæm. Rannsóknir hafa sýnt að unglingar greinast í auknum mæli með þunglyndi eða kvíða og að áhrif netvæðingar hafi neikvæðar afleiðingar í för með sér, hvað varðar sjálfsmynd unglinga. Margir telja ástæðuna fyrir því að sjálfsmynd unglinga sé orðin slæm sé fyrst og fremst vegna aukinnar net- og snjallsímanotkunnar og áhrifa frá samfélagsmiðlum. Ég er að vissu leyti sammála því. Það er ekki auðvelt fyrir unglinga að takast á við alla þessa pressu sem netið hefur uppá að bjóða eða standast þær kröfur sem samfélagsmiðlar gera.
Þegar ég var yngri, var að netið frekar nýtt. MSN, MySpace og Facebook voru líklega aðal samfélagsmiðlarnir sem til voru. Ég man eftir að því þetta hafði aðallega áhrif á okkur unglinga á þann hátt að við þorðum oftast bara að tala í gegnum netið eða vildum passa að vera búin að blogga færslur um daginn okkar svo að allir vissu hvað lífið okkar væri gott. Í dag, eða 14 árum síðar, gæti ég nefnt um þúsundir samfélagsmiðla eða smáforrita sem til eru, og ekki hafa áhrifin minnkað. Unglingar eru að tjá sig um allt sem til er á netinu, það gefur þeim „frelsi“ til þess að tjá sig og vettvang til þess að sýna sig eins og þau vilja að aðrir sjá sig. En af hverju hefur þetta þá svona slæm áhrif á sjálfsmyndun unglinga? Er það kannski vegna þess að tæknin og netvæðingin er í stanslausri þróun og er hún alltaf einu skrefi á undan? Og það verður til þess að við eldri kynslóðin náum kannski ekki að gefa okkur tíma til þess að kenna unglingum að umgangast netið og samfélagsmiðla?
Ég held að unglingar fái bara því miður ekki nógu mikla fræðslu eða kennslu um það hvernig hægt sé að auka sjálfstraust og sjálfsmyndina, eða hvernig best sé að umgangast netið og samfélagsmiðla.
Mér finnst að skólar ættu að leggja meiri áherslu á að hafa námið sem part af lífi og mótun persónuleika unglinga. Að námið leggi jafn mikla áherslu á áfanga eins og stærðfræði eða íslensku og hægt væri að leggja áherslu á lífsleikni þar sem þeim er ekki aðeins kennt að læra betur inná sjálf sig sem einstaklinga, efla sjálfsmyndina eða auka sjálfstraustið heldur einnig að umgangast netið og samfélagsmiðla. Námið þarf að vera skemmtilegt, en námið getur líka verið leiðarvísir fyrir unglinga í gegnum lífið. Við getum kennt þeim á samskipti, á sjálfstraust, hjálpað þeim að komast að því hvar áhugamálin liggja, hluti sem geta ýtt undir betra sjálfstraust og sjálfsmynd svo að unglingar kunni þar af leiðandi að umgangast samfélagsmiðla og vera partur af því án þess að það hafi neikvæð áhrif á sjálfsmyndina þeirra. Þannig er hægt að leiðbeina þeim í að sjá hvað það er sem er þeim mikilvægt og hvað það er sem skiptir máli.
Þar sem að léleg sjálfsmynd á unglingsárunum getur fylgt inn í fullorðinsárin, tel ég að heilbrigð sjálfsmynd og gott sjálftraust, hafi í för með sér jákvæð áhrif á geðheilsu og líðan þeirra. Með þessu nái unglingar frekari tökum á lífinu sem bíður þeirra. Þau geta náð betri tökum á að fást við áskoranir og áhrif daglegs lífs. Þau læra þar með hvernig áhrif netsins og samfélagsmiðla eru og hvernig hægt sé að höndla þau áhrif á jákvæðan hátt. Þau læra að þessi áhrif þurfa ekki að vera neikvæð, heldur fer það eftir því hversu sterkur einstaklingur þú ert sjálfur og hvernig þú bregst við þessum áhrifaþáttum.
Með von um bjarta framtíð!
—
Andrea Marie Kristine Jacob