Þegar börn komast á unglingsárin þarf að huga að ýmsu. Unglingar finna fyrir miklum breytingum á líkama sínum, hugsunum og líðan. Þau verða sjálfstæðari, leita meira til vina og spegla sig og umhverfi sitt við jafningjahópinn.
Uppeldi er viðkvæmt og vandasamt. Ýmsar áhyggjur blossa upp þegar kemur að unglingsárum og foreldrar spyrja sig jafnvel hvernig mun þessi einstaklingur spjara sig í hinum stóra heimi, mun hann taka „réttar“ ákvarðanir og á ég sem foreldri að leiðbeina honum í einu og öllu eða leyfa honum að læra af mistökum? Ætla ég að vera eftirgefanlegt, hvetjandi eða meðvirkt foreldri? Hvað virkar og hvað ekki? Fæstir foreldrar hugsa þegar von er á litlu ungabarni hvernig unglingur þessi einstaklingur mun verða og hvernig foreldri ætla ég að vera þegar á þennan aldur er komið.
Þegar á unglingsárin er komið fara foreldrar að tala öðruvísi við börnin sín, börnin sem nú eru orðnir unglingar fara að velta fyrir sér ýmsu sem foreldrum þykir jafnvel óþægilegt og erfitt að tala um. En ef við náum ekki að brjóta þann múr sem við höfum með því að opna á umræðuna verða hugsanir barnsins okkar, unglingsins okkar, að stórum bolta sem viðkomandi byrgir jafnvel innra með sér og ímyndar sér mögulega svörin við spurningum sem vakna. Við verðum öll að láta unglinginn vita að það er ekkert umræðuefni á bannlistanum. Við verðum að geta opnað á alla umræðu, hversu óþægileg sem hún kann að vera. Tökum hausinn upp úr tölvunni, símanum eða bókinni og tökum „spjallið“.
En hvað á að vera innihald þessa spjalls og hvernig ber maður sig að? Foreldrar gætu hugsað „Hvernig fer ég að því að tala um ALLT við barnið mitt, ég sem veit ekki allt, hvað ef ég segi eitthvað rangt og hvað gerist ef barnið mitt vill bara alls ekki tala við mig?“ Ef þú hefur leyft barni þínu frá upphafi að spyrja og reynt að svara því eftir bestu getu, gefið þér tíma til að hlusta á barnið og leyfa því að spegla sig í umhverfinu og fjölskyldumeðlimum þá er það nokkuð góð byrjun. En hvað gerist þegar spurningarnar og hugsanirnar verða flóknari en hjá litlu barni sem lítur á foreldri sitt sem GUÐ sem veit öll svör? Hvað gerist þegar við höfum ekki öll svörin? Hættum við þá bara að tala við börnin okkar og leyfum við þeim að finna út úr hlutunum sjálf? Er nóg að tala um íþróttirnar og skólann?
Áður en „spjallið“ er tekið er gott er að horfa á þætti, fréttir, kvikmyndir með unglingnum þar sem málefni unglinga eru í brennidepli. Hægt er að byrja umræðu af ýmsum toga eftir áhorf skemmtilegs og áhugaverðs sjónvarpsefnis. Foreldrar þurfa að tala við aðra foreldra, spegla sig í þeim, hvort sem það eru vinir eða foreldrar bekkjarfélaga. Skólar og félagsmiðstöðvar bjóða oft upp á skemmtilega fræðslu tengda unglingum og eftir þess konar fræðslu er upplagt að taka „spjallið“. Þessi fræðsla getur verið kyn-, tóbaks-, fíkniefna- og klámtengdar eða tengd líðan og geðheilsu. Oft er fræðsla í skólanum á daginn fyrir nemendur og fyrir foreldra á kvöldin. Mætið og nýtið ykkur þessa fræðslu, þið græðið alltaf á fræðslunni og fáið margar góðar hugmyndir að umræðuefni. Ef unglingurinn getur einfaldlega ekki litið í augun á þér þegar þú byrjar t.d. umræðuna um kynlíf þá er ekkert að því að bjóða honum að skella hausnum í koddann og halda honum þar eins lengi og þurfa þykir, svo lengi sem hann hlustar.
Munum að virða unglinginn og hugsanir hans og langanir, spurningar og hugleiðingar, verum ákveðin og undirbúin fyrir „spjallið“ þá er allt miklu einfaldara. Það fer kannski ekki allt eins og fyrir fram var ákveðið, það er allt í lagi svo lengi sem árangurinn verður sá að unglingurinn getur komið og „spjallað“ við foreldrana í framtíðinni. Að lokum verður að hafa í huga að allir foreldrar hafa sjálfir verið unglingar og nauðsynlegt að rifja það upp öðru hvoru og spyrja sig hvernig hefði ég viljað hafa fyrirmyndir mínar.
Hver er nógu HUGAÐUR til að „spjalla“ við unglinginn sinn? Það verður að vera þú kæra foreldri.
—
Helga Vala Gunnarsdóttir