Ég var tómstundafulltrúi

Nýverið var auglýst eftir nýjum tómstunda- og íþróttafulltrúa í Strandabyggð. Fjölmargt er undarlegt við auglýsinguna sjálfa og umræðuna í aðdraganda hennar. Auglýst er eftir íþróttafulltrúa, en þó er ekkert minnst á neitt íþróttatengt. Auglýst er eftir 70%-100% starfi sem vekur upp spurningar, telur sveitarstjórnin virkilega að 70% starfshlutfall dugi eða á kannski að ráða fleiri en einn í 70% starf og auka þannig umfangið? Hið síðarnefnda er skynsamlegt, hið fyrrnefnda glórulaust. Það sem stingur allra mest í augu er menntunarkrafan. Hér er einungis óskað eftir menntun við hæfi, ekki háskólamenntun við hæfi, ekki tómstunda- og félagsmálafræði eða annarri uppeldismenntun. Einstaklingur gæti þess vegna hlotið starfið eftir grunnskólapróf og virka þátttöku í eigin félagsmiðstöð, sem vissulega er mikið nám.

Fjölmargir hafa látið í sér heyra vegna þessa, sem eðlilegt er. Rætt hefur verið við sveitarstjórnarfólk og sveitarstjóra hafa borist bréf. Auglýsingunni hefur verið breytt, nú er krafist háskólamenntunar. Gott og blessað, en ef skilningur væri fyrir hendi og virðing borin fyrir þessu merkilega starfi hefði auglýsing sem þessi aldrei hlotið samþykki heldur hefði verið vandað til verka í upphafi og metnaður lagður í að laða framúrskarandi aðila að starfinu. Þessu starfi sem er sérstaklega mikilvægt litlum samfélögum þar sem takmarkað framboð er á afþreyingu og mikilvægt er að virkja sem flesta til virkrar þátttöku til að tryggja framtíð byggðarlagsins.

Ég var eitt sinn tómstundafulltrúi. 

Ég elskaði þetta starf. Tækifærin sem ég gat veitt ungmennum til að finna sig, áhugamál sín og framtíðaráform. Möguleikarnir sem voru fyrir hendi til að gera svo miklu meira fyrir fólk á öllum aldri. Þróunarstarf á samstarfi við skóla og í stórefldu frístundastarfi fyrir grunnskólabörn. Ungmennaráð og forvarnarteymi. Áætlanir um bætt íþróttastarf. Viðburðarstjórnun menningarviðburða, sýningarstjórnun og samskipti við listamenn og menningarstofnanir. Samstarf, stjórnarseta og þátttaka í stórfenglegu starfi með framúrskarandi fagfólki á landsvísu og í allri Evrópu. Þetta er bara brotabrot af því sem ég tók  þátt í sem tómstundafulltrúi í litlu sveitarfélagi úti á landi.

Ég þoldi hins vegar ekki viðhorf fólks. Fólks sem virtist lifa í þeirri trú að starf tómstundafulltrúa væri fyrst og fremst áhugamál einstaklinga sem væru fastir á gelgjuskeiðinu og óskuðu því eftir því að fá að hanga með unglingum. Fólks sem heldur að þetta snúist bara um að opna fyrir pakkinu og bíða félagsmiðstöðvaropnunina af sér. Fólks sem telur enga sérfræðikunnáttu nauðsynlega.

Starf tómstundafulltrúa einskorðast ekki við að opna hurð að hvolpalátarými fyrir unglinga vikulega. Þetta er ekki einu sinni hluti af starfinu, ekki nema þá hjá einstaklega vanhæfum starfsmanni með enga fagþekkingu. Starfið snýst um að tryggja það að hverjum og einum einstaklingi, óháð hvers kyns hömlunum eða áhugasviði, bjóðist tækifæri við hæfi. Tækifæri sem hjálpa viðkomandi að verða besta mögulega útgáfan af sjálfum sér, styrkja böndin við aðra og samfélagið sitt um leið og auka þannig líkurnar á framtíðarbúsetu á svæðinu. Slíkur einstaklingur er margfalt líklegri til að feta gæfuríka leið í gegnum lífið, gefa af sér, skapa og auðga samfélag sitt en þeir sem aldrei hljóta hljómgrunn eða vaxtartækifæri.

Þetta göfuga markmið nær þó aðeins utan um hluta þess starfs sem tómstundafulltrúi sinnir. Það hlýtur að sanna að það er ekki síður mikilvægt að tómstundafulltrúi hafi viðeigandi menntun en kennari, sveitarstjóri eða hver sá sem kemur að uppbyggingu og rekstri sveitarfélags og einstaklinganna sem það byggja. Vanhæfur tómstundafulltrúi er beinlínis hættulegur samfélaginu og þeim sem nýta þá þjónustu sem er á hans vegum. Viðamikil reynsla, viðeigandi menntun og yfirgripsmikil þekking er jafnvel enn mikilvægari í litlum sveitarfélögum úti á landi en þar sinnir viðkomandi gjarnan verkefnum sem deilast á marga í stærri byggðarlögum svo ekki sé minnst á mikilvægi þess að tryggja jákvæða íbúaþróun með gróskumiklu tómstundastarfi.

Feilspor Strandabyggðar er ekki einsdæmi og það hófst ekki með misheppnaðri atvinnuauglýsingu. Einmitt þess vegna er kominn tími til að fagfólk í frítímaþjónustu láti til sín taka. Nú er tækifæri til að bæta sig, skara fram úr og sýna öðrum sveitarfélögum hvernig skal bera virðingu fyrir starfi sem er samfélaginu bráðnauðsynlegt. Við skorum á sveitarstjórn að sækja sér endurmenntun er varðar málefni tómstunda hið fyrsta, sýna aukinn metnað og biðjast velvirðingar á vanhugsuðum auglýsingum og vanvirðingu í garð fagfólks á frístundasviði og fyrrum tómstundafulltrúa sinna.

 

Fyrir hönd Félags fagfólks í frítímaþjónustu,
Esther Ösp Valdimarsdóttir, ungmennamannfræðingur og kennari
Fyrrverandi tómstundafulltrúar í Strandabyggð og núverandi íbúi
Stjórnarkona í Félagi fagfólks í frístundaþjónustu

Pistillinn hefur jafnframt birst í Bæjarins besta