Nútímaunglingurinn

david_palssonÞað þekkja allir þá umræðu þegar eldra fólk byrjar á að segja að ungt fólk nú til dags sé að fara til fjandans. En ef við lítum betur á þetta er það kannski ekki rétt. Þegar við berum saman sýn margra á unglinga í dag myndu margir segja að þau væru löt, alltaf í símanum eða tölvunni og hefðu enga sýn á lífið. En svona alhæfingar eiga náttúrulega aldrei að vera til staðar. Frá eigin sjónarhorni finnst mér unglingar í dag mun þroskaðri og mun betri fyrirmyndir heldur en þegar ég var sjálfur unglingur. Náttúrulega þekki ég ekki alla unglinga á Íslandi svo ég er að miða við þann hóp sem er sýnilegur. En ef við lítum á heildarmyndina þá gæti það samt verið rétt.

Hvar get ég byrjað…

Unglingar í dag eru mun meðvitaðri með jafnrétti og það muna margir eftir því í fyrra þegar „Free the nipple-byltingin“ átti sér stað. Mér finnst í dag að unglingar séu tilbúnir að taka virkan þátt í því sem er að gerast í umhverfinu og samfélaginu. Þau vilja láta í sér heyra. Annað sem ég lít mikið upp til þeirra með er að það hefur dregið mikið úr áfengisneyslu hjá þeim og hef ég hitt nokkra sem eru í menntaskóla og hafa aldrei drukkið áfengi. Það er gott að hafa sterk markmið og vissulega hefur forvarnafræðsla hjálpað til en það sýnir okkur hvað þau eru tilbúin til að hugsa út í afleiðingar og standa við þær ákvarðarnir sem þau taka. Þetta er að verða svo algengt að það er verið að hugsa um að opna edrúbar sem á víst að selja óáfenga drykki eingöngu.

Unglingar hafa alltaf verið hæfileikaríkir og munu alltaf vera það, það er ekki spurning. Ef við horfum á Skrekk, Samfés, Söngkeppni framhaldskólanna og menntaskólaleikritin þá fáum við innsýn í hvað þau eru að fást við. Ég veit ekki hvort það er aldurinn hjá mér sem gerir mig meðvitaðri um þessa hluti en mér finnst unglingar og börn í dag mun ákveðnari með það sem þau vilja. Þegar ég horfi á Ísland Got Talent og sé 12 ára börn taka þátt þá hugsa ég til þess að þegar ég var á þeim aldri þorði ég ekki einu sinni að standa fyrir framan bekkinn minn og tala, hvað þá að syngja. Auðvitað hafa tímarnir breyst og ég er alls ekki að vanmeta einstaklinga sem voru einu sinni unglingar og segja að þau séu ekki hæfileikarík, því unglingar og ungt fólk hefur alltaf verið hæfileikaríkt. Munurinn er að í dag er það mun meira áberandi útaf internetinu og sjónvarpinu.

Ég fór um daginn á leiksýningu hjá menntaskóla og verð ég að viðurkenna að þetta var í fyrsta skipti sem ég hef mætt á menntaskólaleikrit. Ég hef heyrt að sumir skólar leggi mikinn metnað í þetta og maður verður aldrei vonsvikinn en auðvitað er fólk mismunandi og þótt sýningin hafi ekki verið fullkomin þá er það ákveðin áskorun sem maður er að kljást við bara með því að taka þátt og standa fyrir framan fullt af fólki. En ef við höldum áfram þá fannst mér þessi ákveðna sýning eiga heima í Borgarleikhúsinu. Hún var það vel gerð að unglingarnir sem tóku þátt í þessu eiga það hrós skilið að þau séu komin á stig fagmannsins.

Mér finnst þessi þróun mjög góð í sjálfu sér og áhugavert væri að skoða hvað það er sem veldur þessari þróun. Mér kæmi ekki á óvart ef virk þátttaka í félagsmiðstöðvum hafi einhver áhrif því þar er mikið lagt upp úr því að móta unglinginn til betri vegar. Félagsmiðstöðvar hjálpa einstaklingum að byggja upp betri sjálfsmynd og jafnvel að koma fram og líka er mikið forvarnastarf sem á sér stað þar. Þessvegna tel ég starfsfólk félagsmiðstöðva í mikilvægri stöðu í að móta næstu kynslóðir fyrir framtíðina. Einnig eiga þau hrós skilið að hafa staðið sig vel í starfi. Auðvitað eru það ekki eingöngu félagsmiðstöðvar sem eiga þátt í að móta unglinginn heldur spilar margt annað inní. En þegar litið er yfir unglingahópinn í dag þá sé ég jákvæða mynd verða að veruleika. Eins og sagt er það þarf ekki eingöngu foreldra til að ala upp barn eða ungling heldur heilt þorp.

Davíð Pálsson, háskólanemi í tómstunda- og félagsmálafræði