Í þeim heimi sem við lifum í dag er mikið um svo kallaða áhrifavalda í tísku á samfélagsmiðlum. Sem eru oft að mínu mati með mikið af duldum auglýsingum sem eru alls konar gylliboð fyrir fylgjendur sína og allt eru þetta þarfahlutir að þeirra sögn, „þessi hlutur bara breytir lífi mínu“, „ég veit ekki hvað ég myndi gera ef ég ætti þetta ekki“.
Að vera góð fyrirmynd þýðir einfaldlega að koma vel fyrir, láta öðrum líða vel í kringum sig og láta gott af þér leiða. Góð fyrirmynd hefur mikil áhrif á hvað og hvernig við gerum hlutina alla daga. Að vera áhrifavaldur þýðir að vera með auglýsingar á samfélagsmiðlum, gefa alls konar vöru með afsláttarkóða sem þú getur ekki lifað án að þeirra sögn. Svo fá áhrifavaldar greitt fyrir hversu margir nýta kóðan ásamt fastri greiðslu. Mér hefur oft fundist þetta snúast meira um að áhrifavaldurinn er aðeins að auglýsa þessa vöru svo hann fái borgað en ekki vegna þess að honum líkar varan.
Allir samfélagsmiðlar eru með aldurstakmörkin 13 ára. Á þessum aldri eru börnin okkar ennþá verulega ung. Því spyr ég: Þarf ekki meiri eftirfylgni með þessu? Frá þessum aldri og jafnvel fyrr, eru börn byrjuð að fylgjast með áhrifavöldum á öllum mögulegum samfélagsmiðlum. Efnið sem finnst þar inni er jafn mismunandi og fólkið og endalaust af upplýsingum og áreiti sem streymir inn. Er bara í lagi að 13 ára séu að spá í tannhvíttun, varafyllingum, veipum og áfengi?
Já, ég sagði áfengi, sem er með lögum bannað að auglýsa en virðist viðgangast á samfélagsmiðlum. Það er verið með alls konar leiki og því næst er dregin út kassi af bjór. Margir áhrifavaldar eru svo oft blekaðir á miðlum sínum að sýna hversu gaman er að vera undir áhrifum og hvað þeir gera sig að miklum fíflum. Erum við þá að sýna unglingum okkar hvernig á að haga sér eða hvernig á ekki að haga sér?
Að mínu mati þyrfti að herða verulega á auglýsingareglum, hvað má og hvað má ekki auglýsa á samfélagsmiðlum. Það er ekki hollt fyrir neinn, hvað þá unglinga sem eru eins og svampar að sjúga í sig hvað er í tísku og hvað á að kaupa! Þó svo þú eigir ekki nýjasta símann, 150 þúsund króna úlpu eða nýjustu air skóna þá ertu ekkert verri manneskja. Það eru margir unglingar sem eru í 50 til 80 prósenta vinnu með skóla til þess eins að geta fjármagnað neyslu sína. Það hefur sýnt sig að það er ekki mælt með að unglingar vinni mikið með skóla. Það hefur áhrif á heimanám, svefn og oft félagsskap sem er svo mikilvægur á þessum uppvaxtar- og mótunarárum. Með vinnu sjá þau oft peninginn í hyllingum og hætta þá frekar í skóla.
Við fullorðna fólkið eigum að vera fyrirmyndir fyrir unglingana okkar. Við ættum að vera nægjusöm og kenna unglingunum okkar það líka.
Hvort ert þú fyrirmynd eða áhrifavaldur?
—
Sveinborg Petrína Jensdóttir