More Than One Story er spil sem við hjá Frítímanum þýddum og gáfum út.
Spilið er frábær skemmtun og snýst það um að fá fólk til að segja hvert öðru jákvæðar sögur af sjálfum sér. Spilið er spilastokkur sem samanstendur af spilum sem innihalda öll tilmæli um sögur sem leikmenn eiga að segja hver öðrum. Stokkurinn gengur svo manna á milli og skiptast leikmenn þannig á að segja hver öðrum sögur. Spilið virkar jafn vel með börnum sem og eldri borgurum enda er spilið aldrei eins og er það í raun hópurinn sem spilar spilið sem býr það til með sögunum sínum.
Dæmi um tilmæli á spili er:
„Segðu frá hæfileika sem þú býrð yfir og hvernig þú notar hann.”
„Segðu frá stund sem þú værir til í að endurupplifa.”
More Than One Story er ekki aðeins skemmtilegt spil fyrir vinahópinn og fjölskylduna heldur er það einnig frábært verkfæri fyrir alla þá sem vinna með fólki. Spilið þéttir hópa, æfir tjáningu, framkomu og virka hlustun einstaklinga ásamt því að það gefur öllum jafnt tækifæri á að tjá sig við hópinn.
Spilið er selt í Spilavinum og bókabúðum IÐU við Lækjargötu og í Zimsen húsinu. Einnig er hægt að senda póst á [email protected] og fá eintak sent í pósti.
Umsagnir um spilið
Katrín Vignisdóttir – Nemi í tómstunda- og félagsmálafræði og starfsmaður í félagsmiðstöð
Það er erfitt að lýsa andrúmsloftinu sem myndast þegar spilað er spilið More Than One Story. Um leið og spilið byrjar gefur maður sig allan í sögu annarra og bíður spenntur að heyra hvað næsti einstaklingur hefur að segja. Hver saga sem er sögð er sérstök og lifir maður sig inn í hverja og eina þeirra. Spilið er frábært verkfæri fyrir alla sem vinna með fólki til að kynnast því betur, opna á eigin tilfinningar, hlæja saman og upplifa frábæra sögustund. Ég persónulega hef fengið að prófa spilið með ýmsum hópum og eru kostir þess mjög margir, það sem er eflaust best við það er að það gengur með hvaða hóp sem er og slær alltaf í gegn.
Guðmundur Ari Sigurjónsson – Tómstunda- og félagsmálafræðingur og verkefnastjóri í félagsmiðstöð og ungmennahúsi
More Than One Story er ekki bara skemmtilegt spil heldur er það einnig frábært verkfæri fyrir mig sem æskulýðsstarfsmann til að fá fólk til að tjá sig, deila sögum og hlusta hvert á annað. Hvort sem ég hef spilað spilið með eldri borgurm, börnum eða ungmennum þá eru allir á einu máli að spilið sé bráðskemmtilegt og að maður kynnist hópnum sem maður hélt að maður þekkti enn betur. Ég hef notað spilið í hópastarfi, í tjáningakennslu og sem verkfæri til að brúa kynslóðabil á milli eldri borgara og ungmenna og mæli hiklaust með More Than One Story.