Í dag er ótrúlega mikið í boði fyrir börn og unglinga. Þau geta farið í allskonar frístundastörf eins og íþróttir, félagsmiðstöðvar, reiðkennslu og margt fleira sem krakkar hafa val um. Ég vildi taka fyrir reiðmennsku þar sem hestur er lifandi skepna og krakkarnir þurfa að umgangast hann með virðingu. Nemendur geta lært svo ótrúlega margt í gegnum hestamennskuna hvort sem um ræðir líkamlega eða andlega heilsu, náttúrufræði, samfélagsfræði, jafnvel líffræði og ekki skemmir fyrir hvað þetta er ótrúlega skemmtilegt áhugamál, það er að segja ef maður hefur áhuga á hestamennskunni.
Hestamennskunni fylgir mikil ögun og ábyrgð, það er ansi mikil ábyrgð sem felur í sér að sinna hestum og að umgangast þá þarfnast mikillar yfirvegunar. Hestamennskan styrkir þekkingu á sínum eigin skapeinkennum en hávaði og hamagangur á alls ekki við í kring um hross. Hestamaður þarfnast mikils skilnings og umburðarlyndis en einnig er mikilvægt að vera ákveðinn. Hross geta verið mjög frek og ákveðin sjálf svo maður láti þau nú ekki vaða yfir sig.
Börn og unglingar sem byrja að umgangast hesta þurfa að sýna virðingu og hlýða fyrirmælum kennara og ég gæti trúað að það hafi góð áhrif á börn og unglinga nú til dags. Ég tel ungt fólk í dag þora miklu meira að sýna óvirðingu gagnvart eldra fólki og komast upp með ansi mikið. Ekki skemmir útiveran útiveran sem fylgir hestamennskunni fyrir. Börn í dag eru mikið inni í tölvunni og er tölvufíkn orðið vandmál hér á landi og flestir að átta sig á hvað það er orðið mikið. Maður lærir heilmikið um náttúruna okkar þar sem hestar eru óaðskiljanlegir náttúrunni. Þeir fæðast í náttúrunni og út lífið kemur náttúran alltaf við sögu, í þjálfun hesta úti, í reiðtúrum, í hestaferðum og göngum til dæmis. Maður sér náttúruna allt öðrum augum á hestbaki úti á víða vangi, að finna leiðir til að komast yfir ár og læki og hóla og hæðir heldur en þegar að maður situr inn í einhverskonar ökutæki á ferð yfir landið.
Hestamennskan sem slík hefur einnig áhrif á andlega líðan nemenda og unglinga þar sem hreyfing er mikil og er hestamennskan íþrótt og er góð líkamleg heilsa og úthald eiginlega nauðsynlegt í hestamennsku. Einnig læra þau að skipuleggja þjálfun og taka þátt í hópþjálfun. Hér læra þau samskipti og er það eitthvað sem börn þurfa að kunna því ekki kemst maður í gegn um lífið án þess að kunna að eiga góð samskipti við aðra.
Hestar eru ótrúlega næmir og geta greint mannlegar tilfinningar og eru næmir á allt sálarástand knapans. Ef maður er reiður eða sýnist vera reiður í útliti þá sýna þeir ógnandi hlið sína og hjartsláttur þeirra eykst.
Hestar eru félagsverur og tilfinningaverur og eiga knapar að virða skapferli þeirra. Það er auðvelt fyrir menn og hesta að tengjast sterkum böndum og mikilvægt er að byggja upp samvinnu milli hest og manns og gagnkvæmt traust. Þeir eru næmir á rödd knapans og líkamsbeitingar þeirra svo mikilvægt er að kunna að nota röddina við hvert tilefni hvort sem maður ætlar að hvetja hestinn áfram eða róa hann eða stöðva hann. Ef nemandi eða knapi er næmur fyrir tónlist hefur það jákvæð áhrif þar sem gangtegundir hesta gefa ákveðna takta og gerir það knapanum auðveldara fyrir með að greina á hvaða gangtegund hesturinn er á.
Ég sjálf hef farið á öll reiðnámskeið sem í boði voru þegar ég var yngri og stundaði hestamennskuna óspart þó ég ætti engan hest. Ég hafði kynnst þessu í gegn um ættingja og einnig tók skólinn inn val sem knapamerki, sem mér finnst frábært!! Í dag er ég búin að kaupa mér tvo hesta, og skemmtunin og félagsskapurinn sem fylgir þessu er svo jákvæður og skemmtilegur. Það eitt að fara í göngur á hestbaki, sem er þó ótrúlega erfitt líkamlega, var eitt af því skemmtilegasta sem ég gerði í haust. Að fara upp í fjall í þessu ótrúlega landslagi okkar og á hestbaki frá hálf 5 um morguninn til að verða 7 um kvöldmat, að fá að upplifa þessa stemmingu, sjá sólina koma upp, vera í rigningu, í blanka logni, í slyddu og allt á sama deginum er bara yndislegt og maður lærir að njóta þess sem maður hefur og fær að upplifa.
—
Sjöfn Finnsdóttir, nemi í uppeldis- og menntunarfræðum við Háskóla Íslands