Að hafa góða sjálfsmynd er mikilvægt fyrir fólk á öllum aldri. Fólk hefur mis góða sjálfsmynd og virðast unglingsstúlkur oftar en ekki vera í hópi þeirra sem hafa brotna sjálfsmynd. Góð sjálfsmynd er ekki eitthvað sem kemur af sjálfu sér og felur í sér mikla vinnu. Það geta verið ótal margar ástæður fyrir brotinni sjálfsmynd og sér í lagi hjá unglingsstúlkum í dag þar sem fyrirmyndir þessara stelpna bera flestar hið svokallaða ,,fullkomna“ útlit, sem í raun er brenglað og óraunhæft útlit. Þetta ,,fullkomna“ útlit er fyrir augum ungra stúlkna á samfélagsmiðlum á borð við Snapchat, Instagram og Facebook. Samanburður stúlknanna við þessar ofurfyrirsætur og leikkonur getur leitt til mikillar vanlíðunar og haft langvarandi áhrif á sjálfsmynd þeirra. Mikilvægt er að vinna að betri sjálfmynd hjá þessum stúlkum.
Ímyndaðu þér hvað heimurinn væri miklu betri ef allir gætu elskað sig eins og þeir eru. Að hver og einn væri ánægður með vaxtalag sitt og sjálfsmyndin myndi skína í gegn. Að hafa góða sjálfsmynd hefur svo ótrúlega mikið að segja og hefur mikil áhrif á hvernig líf þitt mótast. Ég sjálf hef persónulega reynslu af því að hafa brotna sjálfmynd. Og er það eitthvað sem ég hef þurft að glíma við síðan ég var ung.
Unglingsstúlkur eru í mikilli áhættu þegar kemur að brotinni sjálfmynd. Það er svo ótrúlega sorglegt að ungar stúlkur séu farnar að brjóta sig niður til dæmis vegna einhverra mynda sem þær sjá af öðrum stúlkum á netinu. Það er ekkert raunverulegt við þessar myndir. Það er búið að fegra myndirnar mikið með hinum ýmsu Instagram filterum og meira að segja kemur fyrir að vaxtalagi fyrirsætanna sé hreinlega breytt. Því miður eru þessar myndir samt að ná til alltof margra stúlkna og oft leiðir þetta ástand til þess að stúlkur fái átröskun eða valdi sjálfum sér líkamlegum skaða.
Ungar stúlkur með brotna sjálfsmynd eru líka líklegri til að einangra sig frá umheiminum og geta átt erfiðara með að eignast vini. Einnig eiga þær á hættu að leiðast út á ranga braut í lífinu. Stúlkur sem eru með lélega sjálfsmynd fela það oft fyrir öðrum og glíma þær oft við slæm hegðunarvandamál og eiga það til að láta líðan sína bitna á öðrum t.d. með því að leggja aðra í einelti.
Það er sorglegt hvað það er unnið lítið með sjálfsmynd inn í grunn- og framhaldsskólum á Íslandi því þetta er nefnilega grafalvarlegt mál. Hvað þarf að gerast til þess að samfélagið fari að taka þetta alvarlega? Hugsanlega er bara alltof lítið vitað um það í dag hversu alvarlegar afleiðingar brotin sjálfsmynd getur haft á unglingsstúlkur.
En afhverju tala ég bara um unglingsstúlkur? Hvað með alla unglingspiltana sem hafa brotna sjálfsmynd? Ástæðan er sú að brotin sjálfsmynd hefur mun meiri áhrif á stúlkur en drengi. Strákar á þessum aldri eru ekki eins líklegir til að greina frá því að þeir eigi við vandamál að stríða. Oft og tíðum setja þeir upp hina klisjukenndu en klassísku grímu og láta eins og ekkert sé. Stúlkurnar aftur á móti sýna oftar en ekki einhverja breytta hegðun og því eru þær í meiri áhættuhóp en drengir á sama reki.
Enginn getur elskað aðra ef hann elskar ekki sjálfan sig!
Engin er eins og höfum við öll góða eiginleika. Við eigum öll skilið að líða vel með okkur sjálf, hvort sem við erum feit, mjó, stór eða lítil. Þeir sem hafa góða sjálfsmynd skína sama hvernig þeir líta út. Ekki brjóta þig niður vegna einhverra smáhluta. Einblíndu á allt það frábæra sem býr í þér, því það er það sem skiptir máli.
—
Bára Sigurðardóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði