Félagsmiðstöðvarstarf er góður grunnur þegar kemur að því að efla og byggja upp ungu kynslóðina. Ekki má hugsa um félagsmiðstöðvarstarf eins og það sé leikvöllur fyrir unglinga. Starf félagsmiðstöðva er ígrundað og faglegt en almenningur kemur oft ekki auga á mikilvægi og áhrif þessarar starfsemi á unglinga. Almenningur tengir starfið oft við leiki, s.s. borðtennis, leikjatölvur, böll, billjard og aðra skemessir þættir í starfinu hafa ákveðinn tilgang því þeir vekja áhuga og fá unglinga frekar til að taka þátt í öllu starfinu. Skemmtangildi og að ná til unglinga í gegnum áhugasvið þeirra límir saman starfið innan félagsmiðstöðvanna og gerir það að verkum að starfsmenn ná til þeirra í mikilvægum atriðum samhliða leik og skemmtun. Þegar starfsmenn taka virkan þátt í starfinu með unglingum þróast samtal milli þeirra um hvaðeina sem varðar lífið og tilveruna og þannig myndast tengsl sem byggja á trausti. Starfið byggist því ekki einungis á skemmtun eða glensi og svo er farið heim heldur er mikilvægum atriðum komið til skila í gegnum leikinn. Lykillinn er að starfsmenn fylgi eftir þeim atriðum sem gefa unglingum betri innsýn í hlutina og styrkir þau til að takast á við komandi framtíð.
Unglingar öðlast litla sem enga reynslu af starfinu ef þau fá ekki tækifæri til að vera ábyrg og hafa skoðanir á skipulagi starfsins. Hlutverk starfsmanna er ekki að skipuleggja allt frá A – Ö og skipa þátttakendum i hlutverk. Starfsmenn eiga að vera þarna til að veita hjálparhönd og leiða unglingana að niðurstöðu þannig að þeir upplifi hana sem sína. Félagsmiðstöð er vettvangur þar sem þátttakendur ættu með lýðræðislegum vinnubrögðum að hafa áhrif á alla ákvarðanatöku. Unglingalýðræði hefur verið að festa sig í sessi síðustu ár í starfi félagsmiðstöðva. Fyrir ekki svo löngu síðan var unglingalýðræði ekki til í starfi félagsmiðstöðva þó hugmyndafræðin væri til staðar. Dæmi er um stjórnendur sem taka ákvörðun um hvernig starfsemin og dagskráin er án aðkomu unglinga þrátt fyrir að þeir vildu hafa áhrif og koma skoðunum sínum á framfæri. Við þessar aðstæður verða þátttakendur ekki eins virkir og starfið getur staðnað og orðið leiðinlegt í huga unglingsins. Eðlilegt er að spyrja hvort vænta megi góðs árangurs ef unglingar fá ekki að hafa áhrif eða setja fram eigin skoðanir? Þessi hugsunarháttur stjórnenda á ekki að vera til staðar í ljósi þeirrar reynslu sem við búum yfir. Þetta vekur líka upp spurninguna um markmið með starfi félagsmiðstöðva. Eru unglingar neytendur eða á aðkoma þeirra að starfinu að efla þá og gera þá meðvitaðri og tilbúnari til þátttöku í lýðræðisamfélagi?
Með því að nota unglingalýðræði í félagsmiðstöðvarstarfi er kallað eftir áhrifum þátttakenda sem jafnfram gefur þeim reynslu sem ætti að nýtast þeim vel í framtíðinni. Þannig öðlast þau reynslu til að taka sjálfstæðar ákvarðanir og takast á við afleiðingar sem þeim fylgja. Unglingalýðræði leggur áherslu á virkni, ábyrgð og þátttöku. Með lýðræðislegum vinnubrögðum er unglingum sýnt að skoðanir þeirra skipta máli sem styrkir sjálfsmynd þeirra og áhuga. Í 12. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir: „aðildarríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska“.
Hugmyndafræðin um unglingalýðræði skiptir því gríðalega miklu máli í öllu starfi með börnum og unglingum og mætir þeim kröfum sem Barnasáttmálin gerir um áhrif þeirra á eigið umhverfi. Framangreint á auðvitað ekki við um allar félagsmiðstöðvar en hér er um mikilvægt hagsmunamál að ræða fyrir unglinga og stjórnendur ættu að íhuga vandlega þann mikla auð sem liggur í virkri þátttöku unga fólksins okkar.
—
Daníel Birgir Bjarnason, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ