Ég er alin upp úti á landi þar sem ekki er bíó og skyndibitastaðir líkt og Subway og Dominos sem gerði það að verkum að það að fara til Reykjavíkur var mjög spennandi og stórt fyrir mér. Þegar ég fór til Reykjavíkur sem unglingur labbaði ég Kringluna og Smáralind fram og tilbaka og eyddi öllum peningunum mínum. Ef ég hefði átt heima í Reykjavík þá kannski hefði þetta ekkert verið svo spennandi. Mér fannst andrúmsloftið allt öðruvísi í Reykjavík, hröð umferð og mikið áreiti. Heima gat ég hjólað og labbað allt, sem er vissulega hægt í einhverjum hverfum innan Reykjavíkurborgar en ég lít ekki á það sem það sama. Mér finnst það vera mikið frelsi og sjálfstæði að geta komið sér sjálfur milli staða á stuttum tíma en ekki vera háður foreldrum sínum til að skutla hingað og þangað.
Í heimabæ mínum er flott íþróttafélag og á mínum unglingsárum var ég í fótbolta og allur árgangurinn minn var mjög mikið í íþróttum. Það er skíðasvæði í hjarta bæjarins sem ég tel vera mikil forréttindi að hafa. Á veturnar þegar það var nægur snjór þá fylgdist maður með úr glugganum í skólanum hvort það væri verið að troða brekkuna og hvort maður kæmist í fjallið eftir skóla. Félagsmiðstöðin var staðsett innan skólans og ég var ekkert svo virk en mætti á stærri viðburði eins og böll og vökunætur. Ég og minn vinahópur vorum mikið að hittast og gera eitthvað saman. Þegar maður hitti vini sína þá vorum við ekki að hanga í símanum, við vorum alltaf að gera eitthvað. Það hefur svo margt breyst nú til dags, flest allir eru komnir með snjallsíma og samskipti eiga sér stað á facebook eða snapchat, Þegar krakkar hittast í dag þá sitja allir í símunum og tala varla saman, allavega þar sem ég hef verið í kringum unglinga. Þegar ég var unglingur átti ég ekki snjallsíma en var á msn og svo sendi maður sms. Það hefur margt breyst síðan ég var unglingur og hefur þróunin á net verið hröð.
Ég velti því stundum fyrir mér hvernig unglingur ég hefði verið ef ég hefði búið í Reykjavík, hvort ég hefði verið í íþróttum eða einhverju tómstundastarfi. Það er meira í boði og meira að gera í Reykjavík en í minningunni þá leiddist mér ekki mikið, maður fann sér alltaf eitthvað að gera, hvort sem það var að passa börn nágrannans eða fara út í leiki. Aðstaðan til tómstunda í mínum heimabæ hefur aukist frá því að ég var unglingur, núna er félagsmiðstöðin í öðru húsi sem mér finnst frábært, því mér finnst að það eigi að vera þannig. Það er meira í boði af íþróttum og hægt er að læra á mörg hljóðfæri í tónlistarskólanum.
Ég bý núna í Reykjavík vegna náms og líkar vel en ég finn alltaf ákveðið öryggi og ró þegar ég fer „heim“ og nýti hvert tækifæri sem gefst til að fara þangað. Ég er þakklát fyrir að hafa alist upp út á landi og hugurinn leiðir mig þangað í framtíðinni.
—
Helga Gunnarsdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ.