Ég vinn með börnum og ungmennum með margþættan vanda, greiningarnar sem við vinnum með eru margar og fjölbreyttar og hver annarri áhugaverðari. Sú greining sem mér hefur alltaf þótt mjög áhugaverð er sérstök greining sem heitir tengslaröskun (e. attachment disorder). Tengslaröskun er flókin og hefur hingað til verið erfitt að greina hana, en aftur á móti er greiningin frekar ný og má því áætla að þekkingin sé ekki mikil vegna þess. Mig langar að stikla á stóru í þessari grein um það sem mér finnst mikilvægt að vita um tengslaröskun og þar að leiðandi af hverju það er mikilvægt að þekkingin sé til staðar hjá t.d. stofnunum eins og heilsugæslum, skólum og félagsþjónustum.
Vandamálið með tengslaröskunar greininguna á Íslandi er sú að þekkingin er sláandi lítil, en margir sem ég þekki hafa t.d. aldrei heyrt um þessa greiningu. Eins er tengslaröskun oft ranglega greind og því gripið of seint inn í tilfellin með viðeigandi meðferð, þ.e. að börn með tengslaröskun fá oft aðrar greiningar á borð við ofvirkni og athyglisbrest eða einhverfu. En meðferðir fyrir t.d. einhverfa og þá sem eru með tengslaröskun er ekki sambærileg og orsakir þessara greininga ekki heldur, en aftur á móti eru einkennin sláandi lík hjá báðum hópum og spilar það stóran þátt í því hve erfitt er að gera greinamun á þessum tveimur greiningum.
Svo ég taki dæmi um hve orsakirnar fyrir t.d. einhverfu og tengslaröskun eru ólíkar þá eru helstu orsakir einhverfu í 20-30% tilfella þekktir erfðaþættir en í 70-80% tilfella er orsök óþekkt og má segja að einhverfu greiningin sé flókið samspil erfða- og umhverfisþátta, en svo er það tengslaröskun sem verður vegna viðvarandi vanrækslu á þörfum barns í frumbernsku. Þegar barnið verður ítrekað fyrir því að þeirra þörfum er ekki mætt á viðeigandi þátt fer barnið að upplifa sig sem „vont barn“ og „heimurinn er vondur“. En aftur á móti geta einkenni þessara greininga verið mjög svipuð t.d. samskiptaerfiðleikar, hegðunavandi, að eiga erfitt með að setja sig í spor annara og skert tilfinningarstjórnun svo eitthvað sé nefnt.
Tengslaröskun getur haft langvarandi áhrif á bæði tilfinninga- og vitsmunalegan þroska barna ef ekki er gripið inn í með viðeigandi aðferðum eins fljótt og auðið er, en börn og ungmenni sem glíma við tengslaröskun glíma við mikinn ótta og sífellda höfnun alls staðar sem þau koma, þau treysta engum og reyna yfirleitt að ýta öllum frá sér til þess að verja sjálfan sig. Eins getur verið mikill hegðunarvandi t.d. árásarhneigð. Börnin og ungmennin eiga það einnig til að sýna frumstæða hegðun í allskyns aðstæðum þar sem þau kunna og/eða skilja ekki tilfinningar sínar og þar af leiðandi getur birtingamynd jákvæðra og neikvæðra tilfinninga komið fram í mjög óæskilegri hegðun.
Helsta meðferð við tengslaröskun er viðeigandi atferlismeðferð þar sem barn eða ungmenni upplifir öryggi og traust, þ.e. fá svörun við þörfum sínum og þar af leiðandi er hægt að snúa þeim neikvæðu áhrifum sem vanrækslan í frumbernsku hafði á tilfinninga- og vitsmunalegan þroska þeirra og þar með kenna þeim að mynda eðlileg tengsl.
Á mínum vinnustað sækjum við reglulega fræðslu og handleiðslu frá t.d. Barna- og unglingageðdeild Landspítalans varðandi tengslaröskunar greininguna og eftir fyrstu fræðsluna mína þar opnuðust hreinlega nýjar dyr í hausnum á mér varðandi viðhorf og skilning.
Því tel ég svo mikilvægt og jafnvel nauðsynlegt að starfsmenn á heilsugæslum, félagsþjónustum, skólum og þess háttar þurfi að afla sér vitneskju og sækja fræðslu um þessa greiningu (og fleiri greiningar) til þess að geta mætt þörfum þessara einstaklinga. Þetta er mjög viðkvæm greining og mikið í húfi fyrir þá einstaklinga sem eru t.d. ranglega greindir, með það markmið að leiðarljósi að þessir einstaklingar fái viðeigandi meðferð við þeirra vanda og hafi jafna möguleika til að lifa sem eðlilegasta lífi.
—
Eva Rut Eiríksdóttir