Tómstundir eru skilgreindar á margvíslegan hátt en ekki eru allir fræðimenn sammála um hvernig best sé að skilgreina þær, þó ættu flestir að vera kunnugir orðinu tómstundir og geta gert grein fyrir því í stuttu máli hvað það gengur út á. Aftur á móti eru flestir sammála um mikilvægi tómstunda bæði fyrir börn og unglinga. Tómstundir eru mikilvægar fyrir bæði börn og ungmenni því þær draga til að mynda úr kvíða, vanlíðan og þunglyndi. Það kemur oft upp í huga minn hvort ungmenni viti hvað tómstundir ganga út á og af hverju þau kjósi að stunda tómstundir. Hvað er það sem helst skiptir máli þegar kemur að tómstundum? Lesa meira “Erum við nógu dugleg að fræða ungmenni um mikilvægi tómstunda?”
Tag: tómstundamenntun
Þekkja unglingar mikilvægi tómstunda?
Ég hef oft velt því fyrir mér hvort unglingar viti afhverju þeir stunda tómstundir. Hvað er það sem er svona mikilvægt við þær? Ég nýti mér oft tækifærið og spyr þá unglinga sem ég þekki til hvers þau stundi tómstundir og hvað þær gefi þeim. Oftar en ekki vita unglingarnir ekkert hverju þeir eiga að svara. Þó svo það séu til ótal margar skilgreiningar á því hvað tómstundir eru og ekki séu allir fræðimenn sammála hvernig best sé að skilgreina það, þá ættu allir að þekkja orðið og geta útskýrt í stuttu máli um hvað það nokkurn veginn snýst.
Það er löngu orðið tímabært að innleiða tómstundamenntun í skólakerfi landsins. Tómstundamenntun er vitundavakning á því hversu mikilvægar tómstundir og frítíminn eru.
Með því að koma tómstundamenntun inn í skólakerfið eykur það skilning unglinga á tómstundum og mikilvægi þeirra sem þau geta tekið mér sér út í lífið. Það er mikilvægt fyrir unglinga að vera meðvitaðir um hvaða áhrif tómstundir geta haft á líf þeirra, hvort þeirra tómstundir hafi neikvæð eða jákvæð áhrif á þeirra vellíðan, hamingju og lífsgæði. Neikvæðar tómstundir eru þær sem geta verið skaðlegar fyrir velferð einstaklinga eins og misnotkun áfengis eða eiturlyfja. Jákvæðar tómstundir eru síðan þær sem auka vellíðan, eru uppbyggjandi og eru nýttar til að bæta lífsgæði, þær tómstundir sem fela í sér líkamlega, félagslega, vitsmunalega eða tilfinningalega þætti.
Unglingsárin eru tími sem einstaklingar eiga það til að leiðast út í áhættuhegðun og finnst mér því unglingsárin kjörinn tími til þess að kynna þeim fyrir tómstundamenntun og geta þá t.d. leitt unglinga að réttri braut áður en þau komast útaf sporinu eða að koma í veg fyrir önnur frítímatengd vandamál og leiða.
Tómstundamenntun hefur þann tilgang að þjálfa og mennta einstaklinga í að iðka tómstundir í frítíma sínum og fá sem flesta til þess að stunda jákvæðar tómstundir sem hafa jákvæð áhrif á frítíma þeirra. Tómstundamenntun fyrir unglinga aðstoðar þau við það að auka eigin lífsgæði með þátttöku í tómstundum. Með tómstundamenntun kynnast unglingar þeirri færni og fá þá þekkingu og tæki til þess að geta nýtt sinn frítíma á uppbyggilegan hátt.
Nú er ég utan af landi, frá litlum bæ á Vestfjörðum og heyri oft talað um það hvað það sé ekkert að gera þar. Í öllum tilfellum kemur það frá unglingum eða ungmennum. Það kemur mér alls ekki á óvart að það sé byrjað að kvarta um þetta á unglingsárunum þar sem unglingar eru ef til vill að vaxa upp úr áhugamálum sem þau voru vön að eiga og enda þau því síðan oft á því að hanga og gera ekki neitt.
Ef til vill getur það verið erfitt að finna sér ný áhugamál eða einfaldlega eitthvað til þess að gera í frítíma sínum. Væri það jafn erfitt ef unglingar myndu læra um tómstundir og frítímann í skólanum? Gæti það komið í veg fyrir áhættuhegðun, frítímatengd vandamál eða leiða? Jafnvel minnkað síma og tölvunotkun?
—
Elín Ólöf Sveinsdóttir
Heimildir
Vanda Sigurgeirsdóttir. (2014). Tómstundamenntun. Uppeldi og menntun, 23(1). 91-97. Sótt
af https://timarit.is/page/6009537#page/n89/mode/2up
Hvernig geta fatlaðir nýtt frítímann sinn sem best?
Ég greindist með taugasjúkdóm þegar ég var einungis 8 mánaða og þekki þar með lítið annað heldur en að vera hreyfihamlaður. Eftir að ég byrjaði að læra Tómstunda- og félagsmálafræði í Háskóla Íslands þá hef ég velt mikið fyrir mér hversu mikilvægur frítími fyrir fatlaða einstaklinga er. Ég er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum og ef ég á að vera hreinskilinn var voða lítið í boði fyrir mig í frítíma mínum sem barn og unglingur sem ég hafði áhuga á. Eins og svo margir fór ég í tónlistarskóla en náði aldrei að festa mig á einu hljóðfæri heldur var allaf að skipta og skipta. Flestir vinir mínir æfðu fótbolta og handbolta og ég reyndi eins og ég gat að vera með en að sjálfsögðu kom að því ég gat ekki stundað íþróttir út frá minni fötlun. Það eina sem stóð eftir fyrir mig var boccia og æfði ég það í nokkur ár með Íþróttafélaginu Ægi.
Ég hef mikið velt fyrir mér hversu mikilvægur frítími er fyrir fatlaða einstaklinga. Nú er ég alls ekki að alhæfa en það eru margir sem eru það mikið hamlaðir að úrval tómstunda minnkar gífurlega mikið fyrir þá einstaklinga. Þar sem það verður erfiðara fyrir ákveðna einstaklinga að taka þátt þá verðum við sem samfélag að vera tilbúinn til þess að hjálpa ákveðnum hópum, en þá er stóra spurningin hvað getum vð gert? Eftir að hafa setið áfangann Inngang að tómstundafræðum á mínu fyrsta ári í skólanum þá fékk ég mikinn áhuga á tómstundamenntun. Hvernig getum við kennt einstaklingum að nýta frítíma sinn á sem besta hátt?
Þegar við fengum það sem lokaverkefni í áfanganum að búa til tómstundamenntunarnámskeið þá fóru augu mín virkilega að opnast fyrir þessu. Við fengum það verkefni að búa til þetta tiltekna námskeið fyrir ákveðinn markhóp sem við vildum stuðla að. Það lá beinast við fyrir mig að gera það fyrir fatlaða þar sem ég var í nákvæmlega sömu sporum sjálfur. Ég hefði allavega haft gott af því sérstaklega á unglingsárunum að geta sótt slíkt námskeið. Ég vissi ekkert hvað var í boði og átti mjög auðvelt með að fara bara heim og vera í tölvunni á meðan vinir mínir voru úti að gera ýmislegt sem ég hafði ekki líkamlega heilsu í gera vegna fötlunar minnar. Þar með er mín skoðun að við þurfum að koma tómstundamenntunarkennslu inn sem allra fyrst, hvernig sem það verður gert. Ég er jafnvel á þeirri skoðun að það þyrfti að koma því inn í kennslu í grunnskólum. Þá er ég ekki að tala um sérstakt fag sem heitir Tómstundamenntun heldur að vera með það undir fagi eins og Lífsleikni. Við verðum að kunna að nýta frítíma okkar á sem bestan hátt því hann hefur verið að aukast gífurlega. Ef vitnað er í rannsókn Weiskopf frá 1982 þá miðar hann ævina svona út frá meðalævi sem var þá 70 ára:
- 27 ár í frítíma
- 24 árum í svefn
- 7,33 árum í vinnu
- 4,33 árum í formlega menntun
- 2,33 árum í borða
- 5 árum í annað
(Weiskopf, 1982)
Þetta sýnir nokkuð augljóslega að við verðum að nota frítíma okkar vel og kunna að nota hann í jákvæðar tómstundir. Miðað við að þetta sé meðalævi hjá venjulegri manneskju þá geri ég ráð fyrir því að frítími hjá fötluðum einstakling sé mun meiri þar sem það er oft erfiðara að fá vinnu og skapast þar með aukinn frítími heldur en hjá flestum.
—
Gunnar Karl Haraldsson, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði
Weiskopf, D. C. (1982). Recreation and leisure: Improving the quality of life (2. útgáfa). Boston: Allyn and Bacon.
Tölvunotkun unglinga og mikilvægi tómstundamenntunar
Ég velti því oft fyrir mér hvort að þróun tækninnar hafi slæm eða góð áhrif á mannkynið. Við vitum öll að tölvur verða sífellt mikilvægari í nútíma samfélagi. Fyrir suma eru þær meira að segja nauðsynlegar til þess að geta sinnt vinnu eða skóla. Það er hinsvegar staðreynd að tölvunotkun unglinga hefur stóraukist á síðustu árum. Spurningin er þó hvað unglingar gera þegar þeir eru í tölvunni og hvað það er sem hefur orsakað þessa auknu tölvunotkun. Nota þeir tölvur fyrir lærdóm eða vinnu, hanga þeir aðallega á samfélagsmiðlum eins og Facebook, eða sitja þeir gjarnan og spila tölvuleiki? Það getur verið ansi erfitt að rannsaka hver megin tilgangur tölvunotkunar unglinga sé. Lesa meira “Tölvunotkun unglinga og mikilvægi tómstundamenntunar”