Barna- og unglingsárin geta reynst okkur misjöfn og miserfið enda miklar breytingar sem eiga sér stað bæði á líkama og sál á því tímabili. Unglingsárin eru tími forvitni um hina og þessa hluti eins og ástina, kynhneigð og kynlíf svo eitthvað sé nefnt og mætti segja að ungmenni verði forvitnari með hverjum deginum sem líður. Kynfræðsla í grunnskólum spilar því lykilhlutverk í því að stuðla að kynheilbrigði ungmenna og ætti hún að vera skylduáfangi í aðalnámskrá grunnskólanna en ekki undirflokkur annars fags.
Ef ég mætti einhverju breyta við mína grunnskólagöngu sem mér þótti nokkuð þokkaleg í heild sinni væri það kynfræðslan. Hún situr mér ekki fast í minni þar sem hún var lítil sem engin, falin á bakvið fagið náttúrufræði og einstaklega ófagmannleg í takt við þá þekkingu sem ég hef í dag. Kynfræðsla er eitt af þeim fögum sem gleymist í skólakerfinu þrátt fyrir að vera lögbundin en virðist það þó ekki vera nógu skýrt hversu mikilvæg hún er fyrir þennan hóp sem er að reyna að fóta sig í takt við ungmenni nútímans sem mörg eru farin að stunda kynlíf áður en kynfræðslan á sér stað. Þess vegna er mikilvægt að grípa inn í nógu snemma til að tryggja það að ungmenni þrói með sér heilbrigða kynverund en kynverund er skilgreining yfir kjarna manneskjunnar sem felur í sér kyn, kynvitund, kyngervi, kynlíf, tilfinningatengsl, ást og frjósemi.
En hvað skal vera innifalið í góðri kynfræðslu?
Jú, það fyrsta sem kemur í huga margra af minni kynslóð þegar hugsað er til kynfræðslu eru getnaðarvarnir, klám, blæðingar og barneignir og situr líklegast fast í huga margra mynd eða myndband af konu að fæða barn, athöfninni ,,setjum smokk á banana” og kynjaskiptum kynfræðslu tímum þar sem stúlkur ræddu blæðingar og strákar klám sitt í hvoru horninu. En eins og áður kom fram er kynfræðsla bundin lögum hér á landi og hefst fræðslan í 4. bekk í grunnskóla. Hún er samtvinningur náttúrugreina, samfélagsfræði og lífsleikni og líklega mismunandi hvernig henni er háttað í hverjum skóla fyrir sig.
Kynfræðsla snýst ekki einungis um kynlíf heldur nær hún yfir líkamlega, félagslega og tilfinningalega heilsu sem leiðir að kynheilbrigði einstaklinga. Kynfræðsla á vissulega að vera formleg upp að vissu marki en hún ætti einnig að vera óformleg og í formi samtals samhliða fræðslu. Í kynfræðslu skal vissulega ræða kynþroskaskeiðið, blæðingar og getnaðarvarnir en einnig hvar skuli nálgast þær, fræðsla um kynsjúkdóma og hvernig þeir smitast manna milli, grunnupplýsingar um fóstureyðingar og afleiðingar þungunar á unga aldri. En einnig þurfa samtöl um ást og samskipti að vera hluti af kynfræðslu og samræður um ýmis hugtök líkt og kyn, kynvitund, kyngervi, tilfinningar, samþykki og ábyrgð. Listinn er ótæmandi en eins og flestir ættu að vita er kynfræðsla víðasta fag veraldar og er því synd að hún skuli fá svona lítið pláss í skólakerfinu árið 2021.
Opnum umræðuna um kynfræðslu, tölum um kynlíf og allt sem því fylgir. Ávinningur kynfræðslunnar borgar sig margfalt.
Í von um bjartari framtíð,
María Egilsdóttir