Sem barn upplifði ég einelti af hálfu nokkurra bekkjarfélaga minna og hafði það slæm áhrif á mig andlega og braut niður sjálfsmynd mína. Mér fannst ég lítils virði og ómerkileg og vildi helst vera ósýnileg. Ég átti mjög erfitt með að tjá mig og var mjög feimin. Á unglingsaldri fór ég að læra leiklist. Þar lærði ég að opna mig, fór út fyrir þægindarammann, eignaðist vini og fór aftur að trúa á sjálfa mig. Leiklistin hafði mikil áhrif á líf mitt og tel ég að ef að ég hefði ekki kynnst þessari jákvæðu tómstund á þessum erfiða tíma í lífi mínu hefði ég átt erfiðari unglingsár og sjálfsmynd mín hefði eflaust verið mun verri í dag. Á unglingsárum er maður að þroska sjálfsmynd sína. Margir þættir geta haft slæm áhrif á sjálfsmynd einstaklinga og má þar t.d. nefna einelti, fátækt, heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi.
Mér finnst mjög mikilvægt að allir krakkar finni sér einhverja heilbrigða og góða tómstund sem að þeim finnst skemmtileg og hjálpar þeim að styrkja sjálfsmynd sína. Það getur verið leiklist, íþróttir, tónlistarnám, listsköpun, skátastarf og margt fleira. Aðalatriðið er að barnið finni sig í tómstundinni og hafi gaman af henni. Þetta er sérstaklega mikilvægt á unglingsárum þegar ungmenni eru að finna sig í lífinu og byggja upp sjálfsmynd sína. Unglingsárin eru tími þar sem margir leiðast út í neikvæðar tómstundir, t.d. fíkniefni, áfengisdrykkju, klámáhorf, tölvufíkn og spilafíkn. Því er mikilvægt að frítími þeirra sé nýttur í eitthvað uppbyggilegt svo að þeim fari ekki að leiðast og nota frítímann sinn í þessar slæmu tómstundir.
Þegar barn lendir í neikvæðri lífsreynslu sem hefur áhrif á sjálfsmynd þess, t.d. einelti, ofbeldi eða fátækt, er sérstaklega mikilvægt að koma í veg fyrir aukinn skaða með því að hlusta á það, veita því aðstoð og beina því í áttina að jákvæðum tómstundum sem hafa góð áhrif á sjálfsmynd þess. Þegar fátækt er vandamálið getur kostnaður við tómstundir verið vandamál. Í þeim tilfellum eru frístundastyrkir sérstaklega mikilvægir og oft nauðsynlegt að sveitarfélögin geti komið til móts við þarfir fátækra með því að borga fyrir þau tómstundina þannig að þau þurfi ekki að leggja út fyrir tómstundinni áður en þau fá styrkinn.
Rétt eins og með fullorðna hafa börn og unglingar mismunandi áhugasvið. Því er mikill kostur ef tómstundir sem að bjóðast ungmennum séu sem fjölbreyttastar. Það eykur líkurnar á að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Það eru t.d. ekki allir sem að hafa áhuga á íþróttum en finna sig kannski frekar í t.d. listgreinum eða skátastarfi. Aukinn fjölbreytileiki í tómstundum getur þannig haft mikið forvarnargildi þar sem fleiri einstaklingar finna jákvæða tómstund við sitt hæfi og forðast þar af leiðandi neikvæðar tómstundir. Að auki er mjög mikilvægt að börn og unglingar viti hvaða tómstundir eru í boði í þeirra nágrenni svo að þau geti prófað það sem þau hafa áhuga á. Mér finnst mjög jákvætt að sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa nýlega opnað sameiginlega síðu, fristundir.is þar sem hægt er að sjá hvaða tómstundir eru í boði.
Ég ólst upp í litlu samfélagi og það var mjög misjafnt hversu gott úrvalið af tómstundum var. Leiklistin var ekki í boði þegar ég var barn en það var byrjað að bjóða upp á leiklistarnámskeið þegar ég var að komast á unglingsaldur og fyrir það er ég mjög þakklát. Það hafði mikil áhrif á líf mitt og tel ég að tómstundir geti haft mikil og jákvæð áhrif á önnur börn og unglinga rétt eins og tómstundir höfðu áhrif á mig.
—
Bryndís Jenný Kjærbo