Verandi fædd og uppalin í uppsveitum Árnessýslu (Skeiða – og Gnúpverjahreppi) get ég með sanni sagt að úrval tómstunda sé töluvert minna þar en t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Af hverju ætli það sé? Jú, í þessum litlu og fámennu sveitarfélögum er í mörgum tilfellum ekki nógu góð aðstaða til að stunda tilteknar tómstundir og í langflestum tilvikum er ekki til fjármagn til að bæta þá aðstöðu sem nú þegar er til því það kemur ekki til með að borga sig. Oftar en ekki skortir líka fagfólk til að halda uppi tómstundastarfi á hinum ýmsu sviðum.
Í mínu sveitarfélagi er boðið upp á tómstundastyrk því úrvalið af skipulögðu tómstundastarfi er af skornum skammti. Á mínu heimili fer tómstundarstyrkurinn meira og minna í bensín því í mínu sveitarfélagi er ekki boðið upp á þær tómstundir sem við systkinin höfum stundað í gegnum tíðina og hafa foreldrar okkar þurft að keyra okkur ágætis vegalengdir til að koma okkur í tómstundir. Sem betur fer hefur alltaf verið ágætis samheldni og samstaða á milli foreldra í mínu sveitarfélagi og skiptast þau gjarnan á að skutla í tómstundir ef margir taka þátt í því sama. Oftar en ekki hafa börn, unglingar og foreldrar takmarkaða þolinmæði fyrir löngum bílferðum til og frá tómstundum en þá er líka hægt að líta á bílferðir sem gæðastundir í staðinn fyrir tímaeyðslu eins og foreldrar mínir gerðu oft. Í bílferðunum með mínum foreldrum myndaðist ágætis samvera sem einkenndist af samræðum um daginn og veginn, leikjum og söng.
Börn og unglingar sem búsett eru á höfuðborgarsvæðinu hafa endalausa möguleika þegar kemur að tómstundastarfi og ferðamáta. Hægt er að taka strætó eða leigubíl, hjóla, labba eða fá foreldra til að skutla sér eða keyrt sjálf þegar bílprófið er komið í hús. Mig langaði oft að prófa allskonar tómstundir sem barn og unglingur en yfirleitt var það sem mig langaði að prófa ekki í boði í nærsveitum og ekki kom til greina að koma mér til Reykjavíkur þar sem önnur ferðin tekur rúmlega klukkustund á bíl. Ég er samt sem áður þakklát fyrir að hafa fengið að taka þátt í því tómstundastarfi sem bauðst í nærsveitum þegar iðkun mín var sem mest.
Í þessum litlu sveitarfélögum er það fagfólkið/þjálfarar á hverjum stað sem ráða hvaða tómstundaiðju er hægt að stunda hverju sinni. Sem dæmi má nefna íþróttastarfsemina á Flúðum. Aðstaðan í íþróttahúsinu á Flúðum er glæsileg og þangað sækja einnig iðkendur úr nærsveitum. Helstu og vinsælustu íþróttagreinar Hrunamanna eru körfubolti og frjálsar íþróttir. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að á þeim sviðum starfa efnilegir þjálfarar sem leggja mikið á sig til að byggja upp iðkendur og hafa mikið fyrir því að efla starfið á eins góðan hátt og möguleiki er á. Í öðrum sveitarfélögum starfa kannski fagaðilar og þjálfarar á öðrum sviðum eins og t.d. fótbolta og listgreinum. Þá væru þær greinar líklega mest áberandi í því sveitarfélagi.
Börn og unglingar sem búsett eru úti á landi eru heppin ef þau finna sér tómstundaiðju við þeirra hæfi því úrvalið er ekki eins mikið og á höfuðborgarsvæðinu en ég veit ekki betur en að þessi litlu sveitarfélög úti á landi reyni sitt besta til að halda tómstundastarfinu á lífi og styðji þátttakendur í þeirra starfi. Þó að þessi litlu sveitarfélög geti kannski ekki haldið uppi eins miklu starfi og er í boði á höfuðborgarsvæðinu þá er alltaf eitthvað í boði og það finna sér lang flestir eitthvað við sitt hæfi.
—
Ljósbrá Loftsdóttir