Flestir ef ekki allir unglingar nú til dags stunda tómstundir. Þær geta verið af ýmsu tagi; æfa íþróttir, læra á hljóðfæri eða slaka á í góðra vina hópi svo eitthvað sé nefnt. Tómstundir eru jákvæðar, uppbyggjandi og skemmtilegar en hvenær fara þær að verða kvöð og pína? Eru unglingarnir að stunda þær fyrir sig sjálf eða til þess eins að þóknast öðrum?
Oft hafa foreldrar valið tómstundir fyrir börnin sín, jafnvel áður en þau voru fædd. Ástæðurnar fyrir því geta verið allskonar, persónulegar eða ópersónulegar. Nokkur dæmi: Staðsetning hentar vel upp á skutl eða stutt fyrir þau að ganga. Foreldrarnir stunduðu þessar ákveðnu tómstundir sjálf þegar þau voru ung og vilja að börnin sín upplifi sömu ánægju og þau eða þá að þau fengu ekki að stunda þær en vilja að barnið þeirra geri það vegna þess að þau geta boðið þeim upp á það. Þegar foreldarnir velja tómstundirnar þá hafa börnin ekkert um það að segja og mæta bara, sum þeirra eru ánægð og sátt en önnur alls ekki. Það hefur oft komið fyrir þegar þau verða eldri, orðnir unglingar, að þau séu aðeins að stunda þessar ákveðnu tómstundir fyrir foreldra sína. Þetta veitir þeim enga ánægju en vilja ekki segja frá því, vilja ekki gera foreldrana leiða. Það er klárt mál að fullorðið fólk myndi aldrei gera þetta sjálft, sem sagt stunda eitthverja íþrótt eða spila á eitthvað hljóðfæri ef það hefur engan áhuga á að gera það, afhverju ættu unglingarnir þá að þurfa að gera það?
Of mikið af unglingum hætta að stunda íþróttir vegna þess að þau vilja ekki verða atvinnumenn í þeim greinum sem þeir æfa. Hvernig má það vera að valkostirnir séu aðeins tveir, atvinnumennska eða ekkert? Unglingar eru á viðkvæmum aldri, líkamar þeirra eru að þroskast og mótast og það er nauðsynlegt að þeir fái einhverja hreyfingu. En ef einhver árangur á að nást, bæði líkamlega og andlega, þarf það að vera hreyfing sem þau hafa gaman af. Það er klárlega allt of lítið úrval af íþróttum fyrir ungt fólk í dag þar sem þau geta mætt einungis til þess að hafa gaman og sum staðar er jafnvel ekkert í boði fyrir utan hefðbundnar líkamsræktarstöðvar. Það þarf að breytast eins fljótt og auðið er.
Vinahópurinn getur haft gríðarleg áhrif á val unglingsins á tómstundum. Það er reyndar mun algengara að stelpur fylgi vinkonum/vinum sínum en strákar og það er frekar sorglegt. Sorglegt að hætta að gera eitthvað sem þeim finnst gaman vegna þess að besta vinkonan/vinurinn hefur ekki lengur áhuga. Þjálfarar í íþróttum hafa talað um það hversu leiðinlegt það er að geta ekki haft æfingar eða leyft liðum í íþróttum að keppa á mótum vegna þess að þátttaka er léleg einmitt út af þessu vandamáli. En það er líka hægt að snúa dæminu við á þann hátt að unglingar séu að stunda eitthvað vegna þess að vinahópurinn gerir það. Þessi hópþrýstingur, að taka þátt í eitthverju án þess að langa til þess, getur verið hrikalega mikill og leitt til mikillar vanlíðan.
Það er mjög mikilvægt að foreldrar spjalli við unglingana sína (og börnin sín) um það sem þau fást við í frítíma sínum (og með hverjum) og hvernig þeim líkar það svo ekki komi upp svona mál. Það hefur ekkert gott í för með sér ef unglingarnir eru ekki að stunda tómstundir fyrir sína eigin ánægju og það getur einnig verið kostnaðarsamt fyrir foreldrana. Allir foreldrar ættu að vera hvetjandi og skilningsríkir í þessum málum og lykillinn að því er samtalið. Ef að innri hvatinn er lítill sem enginn þá verður árangurinn lítill sem enginn. Eitt er víst að þegar tómstund er hætt að veita ánægju, vera uppbyggjandi og jákvæð þá er það ekki lengur tómstund.
—
Agnes Rut Arndal, nemandi í tómstunda- og télagsmálafræði við Háskóla Íslands