Ég sakna týpunnar sem er sjúklega góð í sinni íþrótt, mætir í skólaíþróttir og félagsmiðstöðina til þess að sýna öllum hver skarar fram úr og hver sé að fara að vinna þessa keppni. Týpan með það mikið keppnisskap að hana langar að ná á toppinn í öllu, sérstaklega ef um keppni er að ræða. Því miður held ég að þessi týpa sé í mikilli útrýmingarhættu, sem er áhyggjuefni, því í þessari týpu bjó oft sterkur leiðtogi sem ótrúlega margir litu upp til. Þarna var frábært tækifæri fyrir vel þjálfaðan félagsmiðstöðvastarfsmann að móta jákvæðan og öflugan leiðtoga, leiðtoga sem hafði sigurhugarfar og drifkraft fyrir og hægt var að kenna að bera virðingu fyrir þeim sem ekki voru jafn sterkir á sömu grundvöllum. Þetta var leiðtogi sem, ef kennt, var að draga það besta fram í þeim í kringum sig og bera kennsl á styrkleika í fari jafningja sinna í stað veikleika og efla þá. Þetta er einstaklingur sem býr yfir því besta úr bæði íþrótta- og tómstundaheiminum.
Mín upplifun er sú að þessi kröftugi einstaklingur hafi lítinn sem engan tíma (og orku?) til að mæta í félagsmiðstöðina með jafnöldrum sínum vegna þess að kröfurnar sem gerðar eru til íþróttaiðkenda eru sífellt meiri. Gert er ráð fyrir að þau mæti á fleiri æfingar og síðan á auka æfingar í þokkabót sem verður til þess að þau hafa litla orku og tíma til að sækja annað tómstundastarf þess á milli. Stefnan er sett á toppinn og er ætlast til að þau færi ýmis konar fórnir til að komast þangað en ég hef heyrt unglingana tala um að þjálfarar séu ósáttir við að íþróttaiðkendur séu að taka óþarfa áhættur á meiðslum með því að taka þátt í afþreyingu utan skipulagðra æfinga. Þau tala einnig um að þau eigi erfitt með að finna jafnvægi milli skóla og íþrótta og sakni þess að geta mætt með samnemendum sínum í félagsmiðstöðina og taka þátt í starfinu. Þetta mikla álag og háar kröfur draga því enn frekar úr áhuga unglingsins á því að taka þátt í viðburðum sem ekki tengjast íþróttinni beint.
Frá íþróttafélögunum séð er þetta mögulega draumastaðan, unglingarnir gefa allt sem þeir eiga í að þroskast og vaxa sem íþróttamenn og á endanum verða að atvinnumanni í sinni íþrótt. Því miður virðist raunveruleikinn hins vegar vera sá að stór meirihluti þessara ungu íþróttamanna, sem flesta dreymir um atvinnumennsku og glæstan feril, sitja eftir með sárt ennið og hafa hvorki félagslega færni né námslega kunnáttu til að takast á við lífið utan íþrótta, þar sem allt sem ekki tengdist íþróttinni beint hefur hingað til setið á hakanum.
Með þessa punkta í huga velti ég fyrir mér hvort það sé svo erfitt fyrir yfirmenn félagsmiðstöðvanna og íþróttafélaganna að koma saman og skipuleggja árekstralausa dagskrá fyrir unglingana þannig að þeir neyðist ekki til þess að velja á milli félagsmiðstöðvastarfs og íþrótta, þar sem unglingarnir vilja geta sótt bæði. Í gegnum samræður sem ég hef átt við fólk í báðum geirum og við unglingana, er ljóst að áhugi er fyrir því að laga starfið að unglingunum og þeirra óskum. Þetta samstarf hefði í för með sér ótrúlega jákvæðar breytingar fyrir unglingana, því það gerir þeim kleift að öðlast reynslu og þroska á fleiri sviðum, sem myndi að lokum skila sér í hamingjusamari unglingum.
Að mínu mati liggur ábyrgðin hjá okkur félagsmiðstöðvastarfsmönnum að hvetja unglingana til þess að finna rödd sína og nota hana til að kalla á breytingar. Starf okkar snýst fyrst og fremst um að sjá til þess að hagur og velferð unglinga sé í fyrirrúmi, þannig við skulum sameina krafta okkar, setja unglingana í fyrsta sætið og koma „ég ætla að rústa þér” týpunni aftur inn í félagsmiðstöðina.
—
Bjarki Þórðarson