Leikjaorðasafn til umsagnar

Skjal með leikjaorðasafni til yfirlestrar

Í kjölfar fyrstu útgáfu Orðasafns í tómstundafræði hefur orðanefnd í tómstundafræði unnið að því að taka saman leikjaorðasafn. Orðasafnið verður hluti af orðasafni í tómstundafræði sem er hluti af Íðorðabankanum sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum heldur úti.

Orðanefndin óskar nú eftir ábendingum áhugasamra á leikjaorðasafnið áður en það fer í formlega útgáfu og inn í Íðorðabankann fyrir 28. maí nk. Ábendingum um leikjaorðasafnið er hægt að skila hér.

Orðanefnd í tómstundafræði var stofnuð í júní 2013 og gaf út fyrstu útgáfu Orðasafns í tómstundafræði árið 2019. Þeir aðilar sem komu að stofnun nefndarinnar hafa í mörg ár fundið mjög sterkt fyrir því að fagleg og almenn umræða um tómstundir, frístundir, frítíma, æskulýðsmál og skyld svið er ekki nægilega skýr. Fræðasviðið er ungt á Íslandi og því hafa hugtakanotkun og orðræða mótast í starfi á vettvangi á ómarkvissan hátt. Því var talið brýnt að styrkja faglega orðræðu með stofnun orðanefndar og útgáfu orðasafns.

Orðasafn í tómstundafræði er í sífelldri notkun og uppflettingum í Íðorðasafninu á netinu, þar sem Orðasafn í tómstundafræði er vistað, hefur fjölgað. Síðan þá hefur vinna nefndarinnar haldið áfram enda markmið hennar að kortleggja helstu hugtök og íðorð fræða- og fagvettvangs tómstundafræðinnar.

Sem næsta skref í vinnu nefndarinnar varð fyrir valinu að beina sjónum að leikjaorðum. Nefndin sem starfað hefur óbreytt frá upphafi með þau Ágústu Þorbergsdóttur, Eygló Rúnarsdóttur, Huldu Valdísi Valdimarsdóttur og Jakob Frímann Þorsteinsson innanborðs fékk til liðs við sig sérfræðinga á sviði leiks og leiklistar í frístunda- og skólastarfi, þau Ásu Helgu Ragnarsdóttur Proppé og Ingvar Sigurgeirsson til vinnu við leikjaorðasafnið.

 

 

Viðurkenning fyrirmyndarverkefna

Það var glatt á hjalla í Ungmennahúsinu Molanum í Kópavogi fimmtudaginn 2. nóvember þegar þrír nýútskrifaðir tómstunda- og félagsmálafræðingar tóku við viðurkenningu frá formönnum Félagi fagfólks í frítímaþjónustu (FFF) og Félagi íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa (FÍÆT) fyrir lokaverkefni sín til BA-prófs í tómstunda- og félagsmálafræði árið 2017. Félögin buðu að því tilefni til hádegisverðar þar sem gestir fengu súpu og brauð og þau sem hlutu viðurkenningar að þessu sinni kynntu verkefni sín við ánægju viðstaddra.

Lesa meira “Viðurkenning fyrirmyndarverkefna”

Fjögur hundruð orð í tómstundaorðabankann

ordanefnd_mynd_sumar2015
Á myndinni eru Jakob, Hulda, Ágústa, Unnsteinn, Karítas og Eygló.

Orðanefnd í tómstundafræðum hefur að undanförnu safnað saman um 400 orðum sem tilheyra tómstunda- og æskulýðsstarfi á Íslandi. Í október stefnir nefndin á að senda þennan orðabanka til umsagnar til þeirra sem starfa innan tómstunda- og æskulýðsstarfs á Íslandi og almennings. Það er von orðanefndarinnar að sem flestir leggi orð í belg.

Lesa meira “Fjögur hundruð orð í tómstundaorðabankann”

Gæðamat á frístundastarfi

sigrun_sveinbjornsdottirGæði frístundastarfs hefur í gegnum tíðina verið umræðuefni þeirra sem að því standa og sitt sýnist hverjum um hvað sé gott frístundastarf og hvernig ná skuli fram því besta hjá þeim sem þar eru þátttakendur. Sigrún Sveinbjörnsdóttir er uppeldis- og menntunarfræðingur og hefur starfað að frístundamálum hjá Reykjavíkurborg hátt á annan áratug. Hún hefur ásamt Björk Ólafsdóttur, matsfræðingi, leitt þar vinnu við gerð gæðaviðmiða fyrir frístundastarf og Frítíminn forvitnaðist um þetta verkefni hjá Sigrúnu.

Lesa meira “Gæðamat á frístundastarfi”

„Maður lærir líka að vera góður“

Þrátt fyrir áratugasögu hefur félagsmiðstöðvastarf á Íslandi lítið verið rannsakað en þó er nokkuð stór hópur unglinga virkir þátttakendur í starfi félagsmiðstöðva einhvern tíma á unglingsárum. Í rannsókn sem var grunnur að meistaraverkefni í uppeldis- og menntunarfræðum við Háskóla Íslands beindi Eygló Rúnarsdóttir sjónum að félagsmiðstöðvastarfinu.

Um rannsóknina

Í rannsókninni, sem ber yfirskriftina „Maður lærir líka að vera góður“ kallaði hún eftir sýn unglinga á starf félagsmiðstöðva í Reykjavík og sýn þeirra á eigin þátttöku í starfseminni. Viðtöl við átta unglinga sem tóku þátt í starfi tveggja ólíkra félagsmiðstöðva í Reykjavík veturinn 2008–2009 lágu til grundvallar en áður hafði hún til undirbúnings tekið viðtöl við þrjá unglinga í þremur ólíkum félgsmiðstöðvum, gert vettvangsathuganir og tekið viðtöl við frístundaráðgjafa. Með rannsókninni var leitast við að svara því hvaða merkingu félagsmiðstöðin hefur í hugum þessara unglinga, hvaða ástæður þeir telja vera fyrir því að þeir hófu þátttöku í starfi félagsmiðstöðva og héldu þátttöku sinni áfram, hvaða reynslu eða lærdóm, ef einhvern, unglingarnir telja sig draga af þátttöku sinni í félagsmiðstöðvastarfi og upplifun unglinganna af starfsfólki félagsmiðstöðva.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að unglingarnir sjá félagsmiðstöðina sem öruggan samastað í hverfinu þar sem aðgengi er að jafningjum, skemmtun og afþreyingu. Þessir þættir eru jafnframt hvatar
að fyrstu kynnum þeirra af félagsmiðstöðvastarfinu. Áframhaldandi þátttaka þeirra mótast af tvennu. Annars vegar mótast hún af ytri þáttum, öðrum viðfangsefnum þeirra í frítímanum, tímaskorti, opnunartíma félagsmiðstöðvarinnar, aldri unglinganna og viðfangsefnum í starfi félagsmiðstöðvanna. Hins vegar mótast áframhaldandi þátttaka af því hvort unglingarnir mynda öflug tengsl við starfið, einhvers konar skuldbindingu. Unglingarnir telja sig flestir læra, þó í mismiklum mæli, af þátttöku í starfinu. Þau þemu sem þar koma fram eru þekking, verkleg færni, félagsleg færni, persónuleg færni eða eiginleikar og lífsgildi. Starfsfólk félagsmiðstöðva virðist jafnframt skipta unglingana miklu máli. Þeir eru sammála um að þar starfi gott fólk með viðmót sem einkennist af jafningjanálgun, stuðningi og hvatningu.

Niðurstöðurnar gefa þeim sem fyrir félagsmiðstöðvastarfinu standa og starfsfólki á vettvangi innsýn í hugmyndir unglinga um starfsemi sem þeim er ætluð og eru vonandi lóð á vogarskálarnar við áframhaldandi þróun starfsins.

Hér má nálgast verkefnið í heild sinni.

Um höfundinn

Eygló Rúnarsdóttir er grunnskólakennari og uppeldis- og Eygló Rúnarsdóttirmenntunarfræðingur en hefur hátt á annan áratug starfað á vettvangi frístundarstarfs. Hún starfaði um árabil í Breiðholtinu í Reykjavík, fyrst um nokkurra ára skeið í félagsmiðstöðinni Fellahelli en síðar í Frístundamiðstöðinni Miðbergi sem deildastjóri unglingastarfs. Síðast liðin 12 ár hefur hún starfað á skrifstofu tómstundamála hjá íþrótta- og tómstundasviði Reykjavíkur (ÍTR), og nú skóla- og frístundasviði Reykjavíkur (SFS) auk þess að starfa sem sérfræðingur hjá námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræðum við Háskóla Íslands. Í starfi sínu hjá Reykjavíkurborg hefur hún auk verkefna sem snúa að málefnum unglinga og félagsmiðstöðva unnið með Reykjavíkurráði ungmenna og leitt þróun starfsemi ungmennaráða í hverfum borgarinnar frá 2001 eða frá upphafi verkefnisins.

Auk verkefna sinna hjá Reykjavíkurborg og Háskóla Íslands hefur Eygló sinnt fjölmörgum verkefnum á sviðið æskulýðs,- forvarnar- og félagsmála. Eygló var verkefnastjóri ráðstefnunnar Ungdom, demokrati og deltagelse undir merkjum Norrænu ráðherranefndarinnar þegar Ísland fór með formennsku í nefndinni 2004. Hún kom jafnframt að stofnun Félags fagfólks í frítímaþjónustu árið 2005 og sat í stjórn félagsins í nokkur ár, hefur tekið virkan þátt í starfi SAMFÉS, samtökum félagsmiðstöðva, og sinnt fræðslu og námskeiðshaldi um félagsmiðstöðvastarf og starfsemi ungmennaráða víða um land. Eygló kom að stofnun veftímaritsins Frítímans og situr jafnframt í ritstjórn hans.

More Than One Story

LOGOTYPE_webb

More Than One Story er spil sem við hjá Frítímanum þýddum og gáfum út.

Spilið er frábær skemmtun og snýst það um að fá fólk til að segja hvert öðru jákvæðar sögur af sjálfum sér. Spilið er spilastokkur sem samanstendur af spilum sem innihalda öll tilmæli um sögur sem leikmenn eiga að segja hver öðrum. Stokkurinn gengur svo manna á milli og skiptast leikmenn þannig á að segja hver öðrum sögur. Spilið virkar jafn vel með börnum sem og eldri borgurum enda er spilið aldrei eins og er það í raun hópurinn sem spilar spilið sem býr það til með sögunum sínum.

Dæmi um tilmæli á spili er:
„Segðu frá hæfileika sem þú býrð yfir og hvernig þú notar hann.”
„Segðu frá stund sem þú værir til í að endurupplifa.”

More Than One Story er ekki aðeins skemmtilegt spil fyrir vinahópinn og fjölskylduna heldur er það einnig frábært verkfæri fyrir alla þá sem vinna með fólki. Spilið þéttir hópa, æfir tjáningu, framkomu og virka hlustun einstaklinga ásamt því að það gefur öllum jafnt tækifæri á að tjá sig við hópinn.

Spilið er selt í Spilavinum og bókabúðum IÐU við Lækjargötu og í Zimsen húsinu. Einnig er hægt að senda póst á [email protected] og fá eintak sent í pósti.

Umsagnir um spilið

Katrín Vignisdóttir
Katrín Vignisdóttir – Starfsmaður í félagsmiðstöð

Katrín Vignisdóttir – Nemi í tómstunda- og félagsmálafræði og starfsmaður í félagsmiðstöð
Það er erfitt að lýsa andrúmsloftinu sem myndast þegar spilað er spilið More Than One Story. Um leið og spilið byrjar gefur maður sig allan í sögu annarra og bíður spenntur að heyra hvað næsti einstaklingur hefur að segja. Hver saga sem er sögð er sérstök og lifir maður sig inn í hverja og eina þeirra. Spilið er frábært verkfæri fyrir alla sem vinna með fólki til að kynnast því betur, opna á eigin tilfinningar, hlæja saman og upplifa frábæra sögustund. Ég persónulega hef fengið að prófa spilið með ýmsum hópum og eru kostir þess mjög margir, það sem er eflaust best við það er að það gengur með hvaða hóp sem er og slær alltaf í gegn.

 

 

 

 

Guðmundur Ari - Tómstunda- og félagsmálafræðingur
Guðmundur Ari – Tómstunda- og félagsmálafræðingur

Guðmundur Ari Sigurjónsson – Tómstunda- og félagsmálafræðingur og verkefnastjóri í félagsmiðstöð og ungmennahúsi
More Than One Story er ekki bara skemmtilegt spil heldur er það einnig frábært verkfæri fyrir mig sem æskulýðsstarfsmann til að fá fólk til að tjá sig, deila sögum og hlusta hvert á annað. Hvort sem ég hef spilað spilið með eldri borgurm, börnum eða ungmennum þá eru allir á einu máli að spilið sé bráðskemmtilegt og að maður kynnist hópnum sem maður hélt að maður þekkti enn betur. Ég hef notað spilið í hópastarfi, í tjáningakennslu og sem verkfæri til að brúa kynslóðabil á milli eldri borgara og ungmenna og mæli hiklaust með More Than One Story.