Ég var eitt sinn stödd á borgarstjórnarfundi þar sem ungmennaráð Reykjavíkur mætti og fékk að flytja tillögur sínar fyrir borgarráð. Tvö ungmennaráðanna voru með tillögur að bættri flokkun um borgina, bæði í stofnunum undir Reykjavíkurborg og einnig á götunum. Einn fulltrúanna svaraði og sagðist fagna þessari tillögu, hann bætti þó við að heima hjá sér þá gæfi unglingurinn skít í að flokka og furðaði sig á því að ef ungmenni landsins væru svona æstir í að flokka að þá þyrftu þeir að taka þátt í því. Ef við myndum skipta samfélagshópnum „unglingar“ yfir í annan hóp eins og t.d. konur, þá hefði fólki brugðið við þessi ummæli. Ef sonur hans flokkar ekki heima, þýðir það að allir unglingar flokka ekki rusl? Var hann að meina að allir unglingar séu að heimta að samfélagið breytist en að þeir nenni því ekki sjálfir? Ég las frekar úr þessum ummælum að þessi maður sé mögulega bara ekki að sinna góðu uppeldi þegar kemur að því að flokka og ganga frá eftir sig.
Á borgarstjórnarfundi árið 2020 bað fulltrúi Ungmennaráðs Árbæjar og holta borgarráðsfulltrúa að hætta á facebook, asos og öðrum miðlum meðan fundurinn stóð yfir. Í kjölfarið bað hún þá að sýna þeim virðingu og beita hlustun og athygli þegar ungmennin lásu upp tillögur sínar. Af hverju var fullorðið fólk, sem gegnir stjórnendastöðu, að koma svona fram þegar ungmennin sýndu akkúrat öfuga hegðun en staðalímyndirnar segja til um? Spurning hvort stjórnmálafólkið hafi þurft að sitja undir fræðslu um hvernig koma skal fram við börn? En mér finnst lágmark að geta krafist þess að þau sýni ungmennunum þá virðingu að veita þeim athygli þegar þau voru að flytja tillögur sínar.
Samfélagið vill stimpla samfélagshópa og setja fólk í kassa. Fordómar er hugtak sem flestir hafa heyrt um og vita hvað er, oftast er talað um þetta orð í sambandi við jaðarhópa í samfélaginu. Fordómar ríkja þó gagnvart nær öllum samfélagshópum, líka þeim í forréttindastöðu. Eitt samfélagslegt flokkunarkerfi flokkar fólk eftir aldurshópum og eru staðalímyndir ríkjandi fyrir hvern aldurshóp. Unglingar hafa nær alltaf haft ákveðna stereótýpu þrátt fyrir að það sé alltaf að endurnýjast og breytast hvaða manneskjur tilheyra þeim hópi og allir sem eru fullorðnir hafa tilheyrt þessum hóp áður. Staðalímynd unglings er að vera uppreisnargjarn, hömlulaus, latur, dónalegur, með vandræði og hafi ekkert til málanna að leggja. Þessi staðalímynd getur verið mjög skaðleg ef fólk kemur fram við unglinga með því að setja þau í þennan kassa. Svo er alhæft um alla unglinga, oft vegna hegðun hjá einum unglingi.
Staðreyndin er sú að unglingar eru mjög mismunandi, vissulega eru örfáir sem tikka í þessi box og auðvitað er ýmislegt að breytast á þessum aldri sem gerir það að verkum að þau sækjast frekar í jafnaldra sína og eru að kveðja barndóminn. Við verðum þó að nálgast þau án fordóma. Fullorðnir verða að átta sig á hvað þau bera mikla ábyrgð á hvernig þau koma fram í samskiptum. Þau verða að átta sig á að unglingurinn er ekki eins fær í að rökstyðja mál sitt og fullorðin einstaklingur og mikilvægt að mæta unglingum með skilning og efla frekar þeirra málstað.
Þegar ungmenni fóru í loftslagsverkfall til að mótmæla loftlagshlýnun og kráfust þess að stjórnvöld gerðu eitthvað í málinu árið 2019, þá tók ég eftir mörgum kommentum og statusum hjá fullorðnu fólki sem vildi nýta þetta í að kenna ungmennunum lexíu. Ungmenni væru bara að væla og vissu sko ekki að þetta væri sko ekki svo einfalt.
Pössum okkur hvernig við tölum við og um unglinga, ekki láta gömul sár frá eigin barnæsku eða gremju til eigin barna bitna á málstaði ungmenna.
—
Sandra Lilja Björnsdóttir