Unglingsárin eru það æviskeið þar sem einstaklingur tekst á við að móta sjálfsmynd sína. Það er margt sem hefur áhrif á sjálfsmynd fólks en fyrirmyndir geta átt mikinn þátt í að móta einstakling. Starfsfólk félagsmiðstöðva er oftar en ekki miklar fyrirmyndir þeirra unglinga sem sækja félagsmiðstöðvar reglulega og taka virkan þátt í starfinu. Viðhorf til félagsmiðstöðva hefur breyst mikið á undanförnum árum með tilkomu fagvitundar starfsmanna og jákvæðrar upplifunar einstaklinga af félagsmiðstöðinni.
Öll fæðumst við sem lítil krúttleg börn. Við vöxum og döfnum og verðum að áhugaverðum fullorðnum einstaklingum. Við lærum margt á þroskaferlinu sem við nýtum okkur í daglegu lífi t.d. lærum við að ganga, sýna væntumþykju, gera skattskýrslu, skilja kaldhæðni og bera virðingu fyrir öðrum. Þessi dæmi eru einungis brotabrot af því sem við tileinkum okkur á lífsleiðinni.
Unglingsárin eru það æviskeið sem mótar einstaklinginn hvað mest. Hann tekst á við miklar breytingar, bæði útlitslegar og andlegar. Vitsmunaþroski unglingsins eykst og fer hann að finna fyrir auknum kröfum frá samfélaginu. Eitt helsta verkefnið er að takast á við sjálfsmynd sína, skilgreina sig og aðgreina frá öðrum. Hann fer í raun að móta þær hugmyndir sem hann hefur um sjálfan sig. Þeir unglingar sem hafa sterka og örugga sjálfsmynd eru betur í stakk búnir til að takast á við lífið.
Félagsmiðstöðvar eru afar góður vettvangur fyrir unglinga til að efla félagsfærni, framkomu, samskiptafærni og að styrkja sjálfsmyndina. Hlutverk og tilgangur félagsmiðstöðva er í grófum dráttum að veita unglingum fjölbreytt frítímastarf samhliða því að vera vettvangur til að stunda heilbrigða tómstund með jafnöldrum sínum. Einstaklingum gefst færi á að styrkja sjálfsmynd sína, tilheyra jafningjahópi og geta þar af leiðandi borið hugmyndir sínar og gildi saman við aðra unglinga. Félagsmiðstöðvar eru svo miklu meira en bara að spila borðtennis eða billjard. Eitt helsta hlutverk félagsmiðstöðva er að efla og þroska unglinginn á jákvæðan og uppbyggilegan hátt og gera þá að hæfari einstaklingum til að geta tekist á við verkefni framtíðarinnar.
Viðhorf almennings til félagsmiðstöðva hefur breyst töluvert frá því að þær voru fyrst stofnaðar hér á landi. Það er ekki það langt síðan unglingar reyktu á opnunum félagsmiðstöðva og jafnvel starfsmennirnir með þeim. Styttra er síðan það var í lagi að mæta undir áhrifum áfengis á böll á vegum félagsmiðstöðvarinnar. Þetta er sem betur fer liðin tíð. Það var stuttu eftir árið 1990 sem vitundavakning varð í þjóðfélaginu gagnvar reykingum og farið var að vinna markvisst að forvarnarstarfi. Nú til dags er forvarnarstarf ein af undirstöðum félagsmiðstöðvastarfs hér á landi. Viðhorf til starfsmanna félagsmiðstöðva tel ég að hafi líka breyst. Nú til dags er t.d. hægt að læra tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands. Maður fer ekki þangað til að læra að spila borðtennis heldur lærir maður að sinna faglegu starfi tómstundanna. Megin ástæðu viðhorfsbreytinga til félagsmiðstöðva tel ég vera að fleiri einstaklingar hafa verið virkir þáttakendur í því faglega félagsmiðstöðvastarfi sem nú er unnið. Það hafa fleiri einstaklingar jákvæða upplifun af félagsmiðstöðvum og þekkingu á því faglega starfi sem þar fer fram. Það er ekki hægt að segja að félagsmiðstöð nýtist öllum á sama hátt. Hún getur verið mis mikilvæg einstaklingum. Hún getur hreinlega bjargað sumum en styrkt aðra.
Þegar ég var yngri var ég mjög virkur í félagsmiðstöðvastarfinu í mínu hverfi. Ég átti ekki auðvelt með að læra í skólanum. Mér gafst ekki færi á því að blómstra í skólanum, allavegana ekki í tímum. Í félagsmiðstöðinni gafst mér tækifæri á að læra og að blómstra. Þar gat ég lært á þann hátt sem ég á auðveldast með að læra. læra með því að gera hluti, og læra af mistökunum. Þó svo að ég gerði mér ekki grein fyrir því þá, þá lærði ég mikið í mannlegum samskiptum og ég fékk tækifæri til að njóta mín sem einstaklingur. Ég sat í stjórn nemendaráðsins og lærði mikið. Ég lærði að bera virðingu fyrir skoðunum annara, að hlusta og fyrst og fremst að koma skoðunum mínum á framfæri. Ég eignaðist vini og var partur af hópi sem vann að því að hafa félagslífið skemmtilegt í skólanum. En það dýrmætasta sem félagsmiðstöðin gaf mér, var sjálfstraust. Tel ég starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar hafa átt þátt í því. Þau hvöttu mann áfram til þátttöku í ýmsum uppákomum og byggðu upp sjálfstraust mitt, meðvitað og jafnvel ómeðvitað.Ég sótti mikið í starfsfólkið og að fá viðurkenningu á því sem ég gerði í þágu félagsmiðstöðvarinnar og það að vera metinn að verðleikum. Starfsmenn félagsmiðstöðvarinnar voru mér fyrirmyndir. Þau hlustuðu á mig, sögðu mér sögur, gáfu mér ráð og gáfu mér færi á að blómstra. Ég mætti ekki bara í félagsmiðstöðina til að spila bortennis eða spila pool enda eru sjaldnast veraldlegir hlutir sem fá unglinga til að mæta í félagsmiðstöðina heldur sækja þau í samveru stundir með jafnöldrum og starfsfólki. Það að vera innan um fullorðið starfsfólk sem talar við mann sem jafningja skiptir máli. Það að geta leitað til starfsmanns sem hlustar og skilur mann er dýrmætt á unglingárunum.
Hlutverk starfsmanna í félagsmiðstöðvum er mjög mikilvægur partur af félagsmiðstöðvastarfinu. Er það mun meira en bara að opna húsnæðið og spila borðtennis með ungingunum. Fjölbreyttur starfsmannahópur ætti að geta höfðað til breiðari hóps unglinga. Staðreyndin er sú að ákveðnir starfsmenn ná betur til einstakra skjólstæðinga. Unglingar líta upp til vissra starfsmanna og eru þeir oftar en ekki miklar fyrirmyndir fyrir viðkomandi einstaklinga. Þeir hafa þar af leiðandi meiri áhrif á hegðun þeirra einstaklinga en þeir gera sér grein fyrir. Starfsmenn félagsmiðstöðva vinna að því að þjálfa samskipta- og félagsfærni einstaklinga sem sækja félagsmiðstöðina ásamt því að hvetja þá á jákvæðan hátt við mótun sjálfsmyndarinnar og hafa þannig jákvæð áhrif á hegðun þeirra og sálfræðilega velferð. Þrátt fyrir að starfið gangi útá það að vera skjólstæðingum sínum innan handar í félagsmiðstöðinni, leiðbeina þeim, örva og virkja, þá mega starfsmenn ekki gleyma því að þeir eru einnig fyrirmyndir sem unglingarnir líta upp til.
Rannsóknir sýna að þeir einstaklingar sem eru fyrirmyndir barna móta hegðun þeirra og því er mikilvægt að starfsmaður sé meðvitaður um hlutverk sitt sem fyrirmynd, bæði í vinnu sem og utan hennar. Unglingar sem sjá heilsteyptan einstakling sem vinnur í félagsmiðstöðinni, er félagi þeirra og talar við þá sem jafningja, er vís til að líta upp til hans. Starfsmaður verður að hugsa um að þrátt fyrir að starfsdeginum sé lokið og hann búinn að stimpla sig út, getur hann ekki tendrað sér í sígarettu og reykspólað úr bílastæðinu og skilið unglingana eftir í reykjamökknum. Hann er starfsmaður félagsmiðstöðvar og verður að vera meðvitaður um það.
Öll munum við eftir fyrirmyndum og einstaklingum sem við litum upp til á okkar yngri árum. Í sumum tilfellum voru það systkini eða fjölskyldumeðlimur en í öðrum tilfellum kennari eða kannski starfsmaður félagsmiðstöðvarinnar. Starfsfólk félagsmiðstöðva getur því markað djúp spor í uppvaxtarár einstaklings og er því gott starfsfólk félagsmiðstöðva undirstaðan í góðu félagsmiðstöðvastarfi.
Bjarki Sigurjónsson
Tómstunda- og félagsmálafræðingur